fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Segir Evrópu búa yfir vopni sem geti stöðvað stríðið strax

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 6. apríl 2022 05:50

Úkraínskir hermenn skoða ummerki eftir sprengjuregn Rússa. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Úkraínumenn eiga það inni hjá okkur að við aðstoðum við að stöðva stríðið strax. Það er nauðsynlegt að hætta að kaupa rússneska olíu og gas. Það kostar og við finnum fyrir því en það er verð sem er þess virði að greiða.“

Svona hefst grein eftir Anders Fogh Rasmussen, fyrrum framkvæmdastjóra NATÓ og forsætisráðherra Danmerkur, í Jótlandspóstinum í dag. Í greininni segir hann að Evrópa eigi nú þegar að hætta að fjármagna stríðsrekstur Pútíns gegn Úkraínu. Áhrifaríkasta vopnið sé að hætta algjörlega að kaupa olíu og gas af Rússum.

„Það er óskiljanlegt að með annarri höndinni aðstoðum við Úkraínu með vopn og annað en samtímis notum við hina höndina til að senda Rússum mörg hundruð milljónir evra daglega, peninga sem Pútín notar til að halda áfram stríðsrekstri í Úkraínu. Algjört bann við kaupum á rússneskri olíu og gasi myndi fljótt ýta Rússlandi fram á brún gjaldþrots og binda endi á stríðið,“ segir Rasmussen.

„Framferði okkar er siðlaust. Á meðan hugrakkir Úkraínubúar berjast hetjulega gegn Rússum og ganga í gegnum óskiljanlegar þjáningar kvörtum við aðrir Evrópubúar undan háu bensínverði, olíuverði og gasverði. Já, algjört bann við kaupum á rússneskri olíu og gasi hefur sitt verð. Það krefst samstöðu um lausnir til að hjálpa þeim verst stöddu að greiða orkureikninga sína. Það krefst samstöðu í Evrópu um að hjálpa þeim löndum sem eru hvað háðust olíu og gasi frá Rússlandi. En það er sáralítið verð miðað við þær þjáningar sem úkraínska þjóðin gengur í gegnum núna. Þetta er óverulegur kostnaður samanborið við það frelsi sem við missum ef Pútín tekst að þvinga Úkraínubúa undir sig. Haldið ekki að hann láti staðar numið við Úkraínu. Hann mun halda áfram. Þess vegna verðum við að stöðva stríðið fljótt. Það getum við gert með því að hætta að kaupa orku af Rússlandi,“ segir hann.

Hann segist síðan vilja bæta enn frekar í vopnasendingar til úkraínska hersins. Það eigi að senda honum dróna og fleiri flugskeyti til að skjóta á rússneska skriðdreka og flugvélar. Einnig eigi leiðtogar NATÓ að hætta að útiloka ákveðin viðbrögð við stríðsrekstri Rússa. Til að viðhalda áhrifaríkri fælingu verði að láta Pútín lifa í óvissu um hvernig brugðist verði við ákveðnum aðstæðum: „Ef við eyðum kröftunum í að segja hvað við ætlum alls ekki að gera erum við að spila eftir leikreglum Pútíns.“

Hann segir síðan að nú sé stríðið komið á nýtt stig. Rússar hafi skipt um taktík og breytt hernaðaráætlunum sínum. Þeir séu ekki að hörfa frá Úkraínu, bara flytja hersveitir sínar til. Markmið þeirra sé að einangra úkraínskar hersveitir í austurhluta landsins. Þeir haldi áfram sprengjuárásum á Maríupól og aðrar borgir. Hér sé um rússneska grimmd og stríðsglæpi í hræðilegu umfangi að ræða.

„Úkraínskir karlar og konur, sem hafa barist hetjulega og varið land sitt, eru okkur öllum innblástur. Pútín eyddi síðasta árinu í að segja heiminum að Úkraína væri ekki alvöru land. Nú hafa Úkraínubúar sýnt heimsbyggðinni hvað það er að vera alvöru land með stoltum íbúum og sjálfstæðri þjóðernistilfinningu. Við skuldum þeim að aðstoða þá við að stöðva stríðið strax. Það mun hafa kostnað í för með sér fyrir okkur öll en sá kostnaður verður minni en sá kostnaður sem við munum öll bera vegna langvarandi stríðs,“ segir hann síðan að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur
Fréttir
Í gær

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt