fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Sýknaður af ákæru um nauðgun eftir kynni á B5 – Uppháar svartar leðurbuxur höfðu áhrif á niðurstöðuna

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 1. apríl 2022 15:55

Héraðsdómur Reykjaness

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður var í Héraðsdómi Reykjaness í gær sýknaður af ákæru um nauðgun vegna atburða sem áttu sér stað aðfaranótt laugardagsins 17. ágúst árið 2019.

Um kvöldið tókust kynni með manninum og stúlku á skemmtistaðnum B5 í Bankastræti og fóru þau saman heim til hans um nóttina í leigubíl. Samferða í leigubílnum var vinkona stúlkunnar sem hélt heim til sín en ætlaði að sækja stúlkuna heim til mannsins síðar um nóttina, sem hún og gerði.

Samkvæmt frásögn stúlkunnar gerði hún manninum ljóst að samfarir kæmu ekki til greina þar sem hún væri með blettablæðingar, en þar er um að ræða blæðingar sem koma á milla tíðahringja.

Þegar heim til mannsins kom kysstust þau og lét stúlkan sér það vel líka en segist ekki hafa viljað ganga lengra. Maðurinn hafi hins vegar beitt hana harðræði, rifið hana úr fötunum, tekið hana hálstaki, haldið fyrir munn hennar og skipað henni að hafa hljótt. Hann hafi bitið hana í háls og brjóst og haft við hana samræði gegn hennar vilja. Konan segist hafa grátbeðið manninn um að hætta en hann ekki hirt um það.

Maðurinn harðneitaði ásökunum stúlkunnar og sagði þau hafa haft ástríðufullar samfarir með hennar vilja.

Fjölskylda mannsins var heima

Þegar atvikið átti sér stað voru móðir mannsins, tveir bræður hans á unglingaldri og mágkona hans sofandi á heimilinu. Þau urðu ekki vör við neinn hávaða og sváfu samskipti mannsins og konunnar af sér.

Konan var með lítilsháttar áverka á kynfærum og hálsi og var ekki hægt að kveða upp úr um hvort þeir hefðu hlotist af árás eða harkalegum samförum. Lífsýni gátu ekki varpað frekara ljósi á atburðinn.

Eftir að maðurinn sofnaði yfirgaf konan íbúðina en vinkona hennar sótti hana.

Maðurinn þótti lítið eitt trúverðugri

Meðal rannsóknargagna voru rafræn samskipti konunnar og mannsins á Instagram en þar voru skilaboð frá honum þar sem hann spurði hvort hún hefði ekki örugglega komist heim heilu og höldnu og hann hefði getað skutlað henni. Þetta sendi hann konunni eftir að hann vaknaði og hún var á bak og burt með vinkonunni. Klukkutíma eftir að hann sendi þessi skilaboð kom lögregla og handtók hann. Konan hafði þá kært hann fyrir nauðgun og leitað til Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Bæði konan og maðurinn þótti trúverðug í frásögn sinni af atburðum en þó þótti maðurinn örlítið trúverðugri og var frásögn hans óbreytt og skýr í einu og öllu allt frá fyrstu skýrslutökum til vitnisburðar fyrir dómi.

Konan þótti að mestu trúverðug en var óskýr um örfá atriði, að mati dómsins. Sérstaklega vöknuðu efasemdir í tengslum við tiltekna flík sem hún klæddist; svartar, uppháar leðurbuxur. Þótti stinga í augu að konan gat ekki lýst því hvernig hinn ákærði hefði klætt hana úr öllum fötunum þegar fyrir lá að hún var í þessari flík. Sagði hún þennan part af atburðarásinni vera í móðu í minninu. Eitthvað fleira þótti óljóst í framburði konunnar, það telur dómarinn þó allt geta átt sér eðlilegar skýringar, en að það vegi ekki upp á móti skýrum og stöðugum framburði hins ákærða um atvikin.

Maðurinn var því sýknaður af ákæru um nauðgun.

Dóminn má lesa hér

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt