fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Nærmynd af einum umdeildasta þjóðarleiðtoga heims – Ólst upp við fátækt og dreymdi um að verða njósnari

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 25. febrúar 2022 21:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enginn hefur líklega verið gagnrýndur meira undanfarna daga en Vladimir Vladimirovich Pútín, forseti Rússlands, eftir að hann fyrirskipaði innrás í Úkraínu og gerði þar með út um friðinn í Evrópu. Það er því ekki úr vegi að líta nánar á þennan umdeilda þjóðarleiðtoga.

Prakkari sem ólst upp við fátækt

Vladimir fæddist þann 7. október árið 1952 í Pétursborg sem þá, á tímum Sóvíetríkjanna, hét Leníngarður. Afi hans, Spiridon Pútín, starfaði sem kokkur bæði fyrir Lenín og Stalín.

Foreldrar hans voru Vladimir Spiridonovich Pútín og Maria Ivanovna Pútína. Hann var þeirra þriðji sonur, en eldri bræður hans létu báðir lífið áður en Vladimir fæddist. Foreldrar hans voru komnir á fimmtugsaldur þegar Pútín kom í heiminn.

Móðir hans, Maria, var verkakona og starfaði í verksmiðju, en faðir hans og nafni, Vladimir eldri, var hermaður í sovéska hernum þar til hann slasaðist alvarlega í seinni heimsstyrjöldinni og örkumlaðist.

Fjölskyldan bjó við þröngan kost í sovésku fjölbýlishúsi þar sem hún deildi lítilli íbúð með tveimur öðrum fjölskyldum. Þar var ekkert heitt vatn og ekkert baðkar.

Pútín hefur lýst því í viðtölum og í ævisögu sinni að sem barn hafi hann hlaupið um fjölbýlishúsið þar sem hann bjó með prik eltandi rottur.

„Einu sinni kom ég auga á risastóra rottu og elti hana niður ganginn þar til ég hafði króað hana af. Hún gat ekki komist undan. Skyndilega snéri hún sér við og kastaði sér á mig. Ég varð undrandi og skelkaður. Nú var rottan að elta mig.

Sem betur fer var ég snarari í snúningum og tókst að skella hurðinni á nef hennar. Þarna á stigaganginum fékk ég snögga og varanlega kennslustund í því hvað það þýðir að vera króaður af.“

Í ævisögu Pútíns sem Masha Gessen skrifaði, þó án samráðs við Pútín, segir að hann hafi verið afskiptur í æsku enda þurftu foreldrar hans að vinna myrkranna á milli. Hann varði því miklum tímum einn og sótti þá í félagsskap annarra barna á svæðinu.  Masha heldur því einnig fram í bók sinni að þrátt fyrir fátæktina hafi foreldrar Pútíns reynt að gefa honum allt til alls og komu fram við hann eins og hann væri konungsborinn. Telur Masha að það hafi orðið til þess að Pútín varð góður með sig.

Pútín var prakkari í barnaskóla og átti það til dæmis til að kasta hlutum í önnur börn, sleppa því að gera heimavinnuna sína, rífast við íþróttakennarann sinn og vera óþekkur í söngtímum. Einkunnir hans voru ekkert til að hrópa húrra yfir – nema í sögu og í þýsku.

Sem unglingur sneri Pútín þó við blaðinu og fór að einbeita sér að náminu og eftir barnaskóla lá leiðin í lögfræðinám. Strax þá dreymdi Pútín um að starfa í framtíðinni í leyniþjónustunni.

Pútín mun vera 170 cm á hæð

Njósnari í Þýskalandi

Draumur hans varð að veruleika að náminu loknu, árið 1975, þegar Pútín gekk til liðs við sovésku leyniþjónustuna KGB. Árið 1985 var hann sendur til Dresden í Þýskalandi sem njósnari. Þar þóttist hann vera túlkur á meðan hann sinnti verkefnum fyrir sovésk yfirvöld. Margt er enn talið á huldu um tíma hans í Þýskalandi.

Sumir hafa haldið því fram að hann hafi þar gegnt frekar veigalitlu hlutverki. Hann hafi aðeins verið að safna saman þýðingarlitlum upplýsingum og sent til heimalandsins. Aðrir hafa þó haldið því fram að viljandi sé gert lítið úr starfi Pútíns í Dresden til að hylma yfir meintri aðkomu hans að Rauða hernum, sem einnig hefur verið kallaður BaaderMeinhof-herinn, sem voru hryðjuverkasamtök á dögum Kalda stríðsins.

Það sem þykir þó ljóst er að á þeim tíma sem Pútín var hluti af KGB fóru Sovíetríkin að riða til falls. Pútín sagði sig úr KGB í kjölfar valdaránstilraunarinnar í ágúst 1991, er harðlínumenn úr sovéska kommúnistaflokknum reyndu að ná völdum af Mikhail Gorbachev. Fall Sovétríkjanna hafði mikil áhrif á Pútín en hann upplifði að hann væri að verða vitni að því að stærsta og valdamesta ríki sem heimurinn hafði séð væri að falla á aumkunarverðan og niðurlægjandi máta.

Örlítið yfirlit um pólitískan feril Pútíns

Þá má segja að pólitískur ferill Pútíns hafi fyrst hafist. Upphaflega var hann skipaður ráðgjafi hjá þáverandi borgarstjóra Leníngarðs og þaðan lá leiðin bara upp á við.

Árið 1997 skipaði þáverandi forseti Rússlands, Boris YeltsinPútín sem yfirmann starfsliðs síns og ári síðar var hann gerður að yfirmanni leyniþjónustunnar.

Yeltsin vildi sjá Pútín sem eftirmann sinn og samþykkti Pútín að bjóða sig fram árið 1999. Í ágúst sama ár var hann skipaður forsætisráðherra og í desember, þegar Yeltsin sagði óvænt af sér, tók Pútín við sem forseti. Í mars 2000 var hann formlega kjörinn í forsetaembættið og gegndi því embætti til árins 2008 þegar hann varð að stíga til hliðar vegna þess að samkvæmt stjórnarskrá Rússlands mátti forseti bara sitja tvö kjörtímabil.

Pútín fór þó ekki langt og var forsætisráðherra til ársins 2012 þegar hann var í þriðja sinn kjörinn forseti. Á síðasta ári gerði hann breytingar á stjórnarskránni sem gerir honum kleift að sitja sem forseti fram til ársins 2036.

Minnst tvö, mögulega átta börn

Árið 1983 gekk Pútín að eiga Lyudmilu Shkrebnevu. Þau eiga saman tvær dætur, Mariyu og Yekaterinu sem báðar eru í dag á fertugsaldri. Pútín hefur ekki mikið verið að flagga sínu einkalífi í gegnum árin, sést sjaldan opinberlega með dætrum sínum og talar hann heldur ekki mikið um þær eða einkalíf sitt yfirhöfuð. Er það talið stafa af því að fjölskyldan gæti verið notuð gegn honum, sé hún áberandi.

Yekaterina er með háskólagráðu í asískum fræðum með áherslu á Japan. Hún er einnig með meistaragráðu í eðlisfræði og stærðfræði. Hún hefur setið í nefndum í Rússlandi og er einnig forstjóri þróunarverkefnis sem stefnir að því að búa til vísindamiðstöð í háskólanum í Moskvu.

Mariya er líffræðingur og læknir. Hún rekur einnig góðgerðasamtök fyrir börn með innkirtlasjúkdóma. Hún er gift hollenskum manni og er talið að þau búi í London.

Því er þó haldið fram að Pútín eigi þriðju dótturina, Elizavetu,  með konu að nafni Svetlana Krivonogikh, en Elizaveta er fædd árið 2003. Hvorki Pútín né Svetlana hafa þó staðfest þá fullyrðingu.

Hvorug systirin notast við eftirnafn sitt, líklega að ótta við að verða skotmörk óvina föður síns.

Árið  2008 greindi rússneskt dagblað frá því að Pútín væri skilinn við eiginkonu sína og trúlofaður ólympíufaranum Alinu Kabaeva. Þessari sögðu var þó harðlega neitað og var fjölmiðlinum lokað í kjölfarið.

Árið 2013 tilkynntu Pútín og Lyudmila þó formlega að þau væru skilin.

Talið er að Pútín eigi enn í ástarsambandi við Alinu, og hafa margar sögusagnir gengið um meint börn þeirra. Mun Alina hafa fætt son árið 2008, dóttur árið 2012, barn af ótilgreindu kyni árið 2015 og svo tvíburadrengi árið 2019. Ekkert af þessu hefur þó verið staðfest, en þegar fjölmiðill í Rússlandi birti frétt um meinta fæðingu tvíburana var fréttinni harðlega neitað og var fjölmiðlinum í kjölfarið lokað.

Eins hefur það vakið grunsemdir hversu lítið Alina hefur sést opinberlega en á árinu 2018 virtist hún jafnvel hafa horfið með öllu þar til árið 2021 þegar hún birti opinbera yfirlýsingu í tilefni Ólympíuleikanna.

Elskar bítlana og dýr

Þrátt fyrir að Pútín reyni að halda einkalífi sínu fyrir sig, og lítið sé í raun vitað um persónuleika hans, hafa þó nokkrir hlutir komið á daginn í gegnum árin.

Pútín mun til dæmis vera mikill aðdáandi Bítlanna, en uppáhalds lagið hans með þeim er lagið Yesterday.

Pútín er einnig þekktur fyrir bardagaíþróttir en hann byrjaði að æfa júdó ellefu ára gamall og 14 ára skipti hann yfir í rússnesku bardagaíþróttina sambo. Hann hlaut áttunda dan svarta beltisins árið 2012, fyrstur Rússa, og hefur komið að ritun tveggja bóka um júdó.

Þó hafa einhverjir dregið getu Pútíns í bardagaíþróttum í efa og bent á að engin myndbönd eru til af forsetanum þar sem hann er að sýna yfirburða hæfileika á því sviði.

Pútín er einnig sagður mikill dýravinur. Hann á marga hunda og veigrar sér ekki við að vera myndaður með loðnum vinum sínum. Hann hefur einnig beitt sér fyrir að lög verði sett um betri meðferð dýra, svo sem lagaákvæði sem banna að halda dýr til skemmtunar í verslunarmiðstöðvum og veitingastöðum, ákvæði sem bannar dráp á heimilislausum köttum og hundum, og ákvæði sem krefjast þess að vel sé farið með gæludýr.

Ótrúlegt en satt þá var Pútín á síðasta ári tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels, en hann hafði áður verið tilnefndur árið 2014.

Enginn engill

Rétt er að taka fram að yfirferðinni hér að ofan er ekki ætlað að mála Pútín upp sem fyrirmyndar einstakling.

Skemmst er að minnast þess að Pútín stendur nú fyrir stríði í Úkraínu undir því yfirskini að losa sig við „nasista“ en það markmið hefur komið mönnum spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að forseti Úkraínu er gyðingur.

Um Pútín hefur verið sagt að eftir tíma hans í KGB þá hugsi hann alltaf eins og njósnari. Þegar kemur að átökum þá er það yfirleitt Pútín sem á fyrsta höggið og gerir slíkt á úthugsaðan máta. Telja margir að hann hafi aldrei jafnað sig eftir fall Sovétríkjanna og að hann muni aldrei verða fyllilega ánægður fyrr en hann hafi náð að byggja upp veldið að nýju.

Þess vegna hafi hann brugðist ókvæða við þegar Úkraína hóf viðræður um mögulega aðild að hernaðarbandalaginu NATO sem myndi setja strik í þau áform hans.

Honum hefur síðustu daga verið líkt við Hitler og innrásinni í Úkraínu líkt við innrás Hitlers í Pólland árið 1939.

Hafa einnig margir áhyggjur af því að Pútín sé ekki í jafnvægi. Hann hafi umkringt sig ráðgjöfum sem séu sammála honum um allt og því séu ákvarðanir hans teknar úr bergmálshelli. Hann sé farinn að upplifa sig sem einræðisherra og trúi því að allt sem hann gerði verði réttlætt þegar hann hefur fært Rússland til vegs og virðingar að nýju eftir niðurlæginguna sem hann upplifði við fall Sovétríkjanna.

 

Forsetarnir á göngu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu