fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

„Viltu að ég skáldi upp mína eigin játningu eða get ég fengið eintak af sögunni sem þú bjóst til“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 9. desember 2022 17:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður, sem sakaður var um nauðgun inn á lokuðum umræðuhópi sem hafði þann tilgang að standa vörð um öryggi einstaklinga innan BDSM-samfélagsins, höfðaði meiðyrðamál gegn tveimur konum, annars vegar konunni sem sakaði hann um nauðgun og hins vegar gegn vinkonu þeirrar konu. Dómur féll í báðum málum í Landsrétti í dag og sýnir niðurstaða málanna tveggja vel hvernig það skiptir máli hvort fólk er að tjá sig um eigin upplifun eða upplifun annars aðila.

Bæði maðurinn og konan voru virk í samfélagi BDSM og fjölkærra hér á landi og forsaga málanna sem hér um ræðir er sú að árið 2018 kom konan á heimili sem maðurinn hélt þá með þáverandi eiginkonu sinni og sambýlismanni þeirra. Þar hafi konan lagst til svefns með öllum þremur heimilisbúum. Eftir að það átti sér stað greinir konunni og manninum á um hvað átti sér stað.

Sakaði manninn um að hafa brotið á sér

Konan kærði manninn síðar fyrir nauðgun sem hún upplifði að hefði átt sér stað þessa nótt, en málið var látið niður falla. Maðurinn heldur því þó fram að konan hafi gengið á eftir honum og hafi þau stundað samfarir með samþykki, að hennar frumkvæði.

Konan skrifaði síðar pistil inn á vettvang fyrir opinská samskipti um kynlíf og BDSM. Þar fjallaði hún um samþykki, vald og misnotkun aðstæðna sem og mismunandi viðbrögð þeirra sem lenda í yfirþyrmandi aðstæðum.

Konan hafði síðar samband við manninn og greindi honum frá því að hún hafi upplifað að hann hefði brotið á sér þessa nótt. Í yfirliti málsatvika í héraðsdómi segir:

„Hún hafi verið verulega drukkin og í mjög miklu andlegu uppnámi, ekki verið skýr og ekki í ástandi til að taka meðvitaðar ákvarðanir. Þá sagði hún að „eftir að hafa verið mjög skýr við þig árum saman um að hafa ekki áhuga líður mér eins og þú hafir notfært þér ástand mitt til að fá þínu fram. Eins og ég segi var ég ekki í nokkru ástandi til að veita samþykki og upplifi mjög mikið að þú hafir misnotað aðstæður og brotið á mér. Ég er búin að kljást við áfallastreitu viðbragð og verulega vanlíðan í kjölfarið“

Óskaði hún eftir því að maðurinn tæi þetta alvarlega, liti í eigin barm og endurskoðaði hegðun sína og framkomu. „Ég hef heyrt frá öðrum sem upplifa að þú hafir verið óþægilegur og óviðeigandi í framkomu og framferði gagnvart þeim og ég tel fulla ástæðu til að þú veltir fyrir þér hvernig þú kemur fram:“

Bað hún manninn að láta sig framvegis í friði.

Birti færslu í fámennum hóp

Síðar hafi hún birt færslu á áðurnefndum umræðuhóp á Facebook, en meðlimir í hópnum voru tæplega þrjátíu. Sá hópur hafði þann tilgang að auka öryggi einstaklinga innan hópsins svo þeir gætu tekið upplýstar ákvarðanir um hverja þeir vildu hitta og eiga náin samskipti við. Hópnum var svo lokað sumarið 2020 þegar ljóst var að upplýsingar um þetta mál höfðu farið út fyrir hópinn. Ummælin sem konan skrifaði voru:

„Sæl. Mig langar að vekja athygli á manni sem heitir […]. Hann nauðgaði mér í byrjun maí á þessu ári og ég veit fyrir víst að hann hefur verið óþægilegur og óviðeigandi við fleiri og virðist takmarkað virða mörk. Held að það sé mjög mikilvægt að varað sé við honum. Það sem hann gerði mér er ekki leyndarmál og það má segja frá því og nefna mig á nafn þegar það er gert ef þið viljið. Farið varlega <3″

Skrifaði konan einnig færslu á Facebook-síðu sína þar sem hún greindi frá því að henni hafi verið nauðgað og lýsti aðstæðum frá sínum sjónarhól og afleiðingunum. Hún lýsti því hvernig hún hafi upplifað valdaójafnvægi og vanlíðan og skömm. Hún nafngreindi manninn ekki í þeirri færslu.

Vinkona konunnar birti einnig færslu inn á Facebook-síðu þar sem hún sagði manninn hafa nauðgað „stelpu sem er mér mjög kær.“

Maðurinn stefndi bæði konunni og vinkonunni.

Gildisdómur um eigin upplifun

Í dómi Landsréttar í máli konunnar er rakið að ummælin hafi verið látin falla á vettvangi sem hafði það markmið að gera viðvart um neikvæða reynslu af samskiptum við einstaklinga innan BDSM-samfélagsins til að auka öryggi. Þó ummælin hafi ekki fallið sem liður í víðtækari opinberri umræðu um kynferðisbrot og viðbrögð við þeim taldi Landsréttur þó óneitanlegt að þeim hafi falist framlag til slíkrar umræðu. Taldi Landsréttur að þó að maðurinn hafi verið þátttakandi í samfélagi BDSM iðkenda þurfi hann ekki að þola aukið tjáningarfrelsi í ummælum í sig og alltaf megi búast við frekari dreifingu ummæla sem sett eru fram á netinu, þó það sé í lokuðum hópum. Eins hafi konan bókstaflega tekið fram að dreifa mætti ásökun hennar áfram.

Hins vegar hafi konan verið að tjá sig um eigin upplifun af kynferðislegum samskiptum við manninn og hún hafi óneitanlega leitað sér aðstoðar vegna vanlíðunar í tengslum við þau. Hún hafi svo mánuði síðar lagt fram kæru á hendur honum fyrir nauðgun. Málið hafði ekki verið fellt niður fyrr en eftir að hún lét ummæli sín falla.

Þó menn séu saklausir uns sekt sé sönnuð þá hafi einstaklingar sem telja að þeir hafi orðið fyrir kynferðisbroti ákveðið frelsi til að tjá upplifun sína. Í niðurstöðu Landsréttar segir:

„Ella eykst hætta á þöggun um það samfélagslega mein sem í slíkum brotum felst. Þótt enginn sé frjáls að því að saka annan mann um kynferðisbrot án þess að geta vísað til staðreynda því til stuðnings verður að gæta þess að gera ekki of ríkar kröfur til þess að ætlaðir þolendur kynferðisbrota sýni fram á staðreyndargrundvöll að baki lýsingu á eigin upplifun, sér í lagi áður en niðurstaða rannsóknar á hinu ætlaða broti liggur fyrir.“

Því töldust ummæli konunnar vera gildisdómur um hennar eigin upplifun og hafi henni verið tjáningin heimil.

Annað uppi á teningnum í máli vinkonunnar

Annað var uppi á teningnum í máli vinkonunnar.

Þar tók Landsréttur fram að í málum sem þessum þurfi að greina á milli þess hvort um staðhæfingu um staðreynd sé að ræða eða gildisdóm. Gildisdóm sé ekki unnt að sanna þó gera verði kröfu um að hann eigi sér einhverja stoð í staðreyndum. Helst sé horft til þess hvort sá sem lætur frá sér gildisdóm hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi ummæla sinna eða ekki.

Landsréttur horfði til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Egils Einarssonar gegn Íslandi. Þar hafi verið byggt á því að yfirlýsing um að einhver hefði nauðgað annarri manneskju væri í eðli sínu staðhæfing um staðreynd sem hægt væri að sanna. Þó væri ekki útilokað að slík staðhæfing gæti talist gildisdómur ef til þess lægju sannfærandi rök í ljósi ummælanna. Þá beri að horfa til þess hvort ummæli falli í tengslum við meðferð sakamáls og hvort því hafi lokið með sakfellingu eða ekki.

Ummæli lýstu ekki eigin upplifun

Um ummæli vinkonunnar segir Landsréttur:

„Ummæli stefndu voru fyrirvaralaus og lýstu ekki eigin upplifun hennar. Með þeim hagaðu hún ekki orðum sínum eins og um væri að ræða gildisdóm eða lýsingu á upplifun annarra, heldur þvert á móti eins og áfrýjandi hefði gerst sekur um alvarlegan refsiverðan verknað.“

Vinkonan vísaði til þess að maðurinn hafi sent konunni skilaboð þar sem hann sagði: „Mig langar að játa og klára þetta helvítis mál. Ég kæri mig ekki um að lifa við þessar pyntingar“

Sagðist hann í framhaldinu hafa haft samband við lögreglu. Vinkonan taldi að þar hefði falist játning og hún því mátt láta kærðu ummælin falla. Hins vegar benti Landsréttur á að maðurinn hafi líka sagt: „Viltu að ég skáldi upp mína eigin játningu eða get ég fengið eintak af sögunni sem þú bjóst til“ og taldi Landsréttur að vinkonunni hefði þar geta orðið ljóst að hann væri ekki að játa á sig brot.

Landsréttur taldi því sannað að vinkonan hefði gerst sek um meiðyrði og voru ummæli hennar dæmd dauð og ómerk og henni gert að greiða manninum 400 þúsund krónur í miskabætur.

Skiptar skoðanir dómara

Í máli konunnar voru þó skiptar skoðanir meðal dómara því dómarinn Jóhannes Sigurðsson skilaði sératkvæði. Hann taldi að ummæli konunnar hefðu ekki verið gildisdómur því hún hefði hvergi gefið til kynna að hún væri að lýsa eigin upplifun sem aðrir gætu hafa upplifað með öðrum hætti.

Konan hefði viðurkennt fyrir dómi að hafa „spilað með“ þetta kvöld og skrifað í pistli að henni þætti ekki skrítið að hinir tveir aðilarnir sem deildu rúmi með þeim hafi ekki orðið varir við neitt og gefið skýrslu hjá lögreglu sem var mjög afdráttarlaus um að kynferðismökin hafi farið fram með skýru samþykki og konan hefði ekki verið mjög ölvuð.

Vildi Jóhannes því meina að ummæli hennar hafi hvorki verið sönn né að hún hafi mátt vera í góðri trú um sannleiksgildi þeirra. Hún hafi því vegið að persónu mannsins og æru og ætti að ómerkja ummælin og dæma konuna til greiðslu miskabóta.

Dóma Landsréttar má lesa hér og hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“
Fréttir
Í gær

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var
Fréttir
Í gær

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður
Fréttir
Í gær

Ákeyrsla á bílastæði eyðilagði framtíðina sem hún stefndi að

Ákeyrsla á bílastæði eyðilagði framtíðina sem hún stefndi að
Fréttir
Í gær

Sigurður Fannar ákærður fyrir morð á dóttur sinni

Sigurður Fannar ákærður fyrir morð á dóttur sinni