Hrundið hefur verið af stað söfnun fyrir hinn 15 ára gamla Sigurgeir Sankla Ísaksson sem brenndist illa í síðustu viku. Brunasár Sigurgeirs eru alvarleg og dvelur hann nú á sérhæfðri brunadeild á háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum í Svíþjóð.
Sigurgeir er búsettur ásamt foreldrum sínum, Ísaki Sigurgeirssyni og Noi Senee Sankla í Kelduhverfi á Kópaskeri en þar starfrækja þau verslunina Ásbyrgi við samnefnda náttúruperlu. Sá sem vakti athygli á söfnuninni er Jón Ármann Gíslason, sóknarprestur og prófastur á Skinnastað í Öxarfirði. Óljóst er hvernig slysið bar að en eina sem víst er að framundan er erfið barátta hjá Sigurgeiri. Brunasárin þekja stóran hluta líkama hans en þau eru bæði annars og þriðja stigs.
Rándýr endurhæfing er framundan auk þess sem foreldrar hans dvelja hjá honum ytra og þá verður lítið um verslunarrekstur á meðan.
„Þess vegna vil ég að höfðu samráði við vini og velunnara fjölskyldunnar minna á styrktarreikning prestakallsins. Hann er á kennitölu Skinnastaðarkirkju. Hvet ég þau sem eru aflögufær að láta eitthvert smáræði af hendi rakna, fjölskyldunni til hjálpar á þessum erfiðum tímum í lífi hennar. Allt sem verður lagt inn á reikninginn næstu vikurnar mun renna óskert til þeirra Ísaks og Noi. Munum að margt smátt gerir eitt stórt,“ skrifar Jón Ármann í færslu sem dreift hefur verið víða á samfélagsmiðlum.