fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Íslenska Klíníkin kærir Hörpu Lúthersdóttur til lögreglu fyrir tilraun til fjárkúgunar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 25. október 2022 20:20

Mynd: Getty. Tengist frétt ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tannlæknastofan „Íslenska Klíníkin í Búdapest“ hefur kært konu að nafni Harpa Snjólaug Lúthersdóttur til lögreglu fyrir tilraun til fjárkúgunar. Málið tengist Facebook-síðu sem Harpa setti upp þar sem hún rakti meintar vanefndir stofunnar við aðgerðir á tönnum sínum.

Er fulltrúi stofunnar viðraði óánægju sína með síðuna og skrif Hörpu þar varð það að umræðuefni milli þeirra hvað þyrfti að gera svo hún hætti þessum skrifum og lokaði síðunni. Harpa fór þá yfir það sem hún taldi að gera hefði þurft við tennur hennar vegna meintra vanefnda stofunnar og kostnaðinn sem af því hefði hlotist, stofan samþykkti í orði kveðnu að greiða fyrir viðgerðirnar í þessu spjalli, var niðurstaða Hörpu að kostnaðurinn væri 8.000 evrur eða rúmlega 1,1 milljón íslenskra króna. Í kjölfarið tilkynnti stofan Hörpu að hún yrði kærð fyrir tilraun til fjárkúgunar. Harpa segir Íslensku Klíníkina hafa samþykkt að greiða kostnaðinn en stofan segir að það hafi ekki verið meiningin heldur hafi verið látið að því liggja til að fá fram kröfur hennar í tölum.

Seinni hluta september barst Hörpu bréf frá lögmanni Íslensku Klíníkurinnar þar sem krafist var sömu upphæðar og hún hafði farið fram á, andvirði 8.000 evra í íslenskum krónum, í skaðabætur, „sem er sú upphæð sem þú hefur verið að reyna að kúga úr umbjóðanda mínum gegn því að eyða síðunni“. Jafnframt er henni tilkynnt í sama bréfi að lögð hafi verið fram kæra hjá lögreglu á hendur henni fyrir tilraun til fjárkúgunar. Samkvæmt bréfinu verður höfðað dómsmál á hendur Hörpu ef hún greiðir ekki kröfuna, þ.e. einkamál óháð lögreglukærunni.

Harpa hefur lýst meðferðarsögunni frá sínum sjónarhóli nokkuð ítarlega í grein sem birtist í Fréttinni í september. Samkvæmt hennar frásögn komu upp vandamál á borð við þau að of mikið bil varð á milli krónu og rótar á framtönnum sem höfðu fengið krónur, jaxlar voru festir saman og tennur brotnuðu. Harpa fór alls fjórar ferðir til Búdapest til aðgerða en hún var í ábyrgð á stofunni í eitt ár eftir fyrstu aðgerð. Sífellt þurfti nýjar ferðir og nýjar aðgerðir vegna þess, að mati Hörpu, að vinnubrögðunum var áfátt. Þar kom að því að Hörpu var tjáð að hún nyti ekki lengur ábyrgðar á stofunni þar sem hún hefði leitað til annarrar stofu vegna annars konar viðgerðar. Gerðist þetta um það leyti sem eins árs ábyrgð var að renna út. Harpa þurfti því að leita til annarrar stofu til að fá úrlausn sinna mála og standa sjálf straum af þeim kostnaði.

Hún opnaði síðan Facebook-síðuna „Íslenska Klíníkin í Búdapest – slæmar reynslusögur“ þar sem hún rakti meðferðarsöguna hjá stofunni og meint ámælisverð vinnubrögð Íslensku klíníkurinnar. Sem fyrr segir enduðu stuttar viðræður um að loka síðunni með því að Íslenska klíníkin boðaði lögreglukæru vegna meintrar fjárkúgunar.

Tannlæknastofa með gott orðspor

Tekið skal skýrt fram að DV hefur engar forsendur til að meta hvort þjónusta Íslensku Klíníkurinnar við Hörpu hafi verið ábótavant eða ekki og hvorum sé um að kenna það sem út af bar. Það kemur fram í stuttum andsvörum Íslensku Klíníkurinnar, sem og í samskiptum fyrirtækisins við Hörpu, að stofan telur að Harpa sé sjálf ábyrg fyrir því hvernig fór, meðal annars með því að fara í skoðun og samþykkja meðferð á annarri stofu vegna tanna sem íslenska klíníkin hafði ekki séð um viðgerð á. Einnig komi fleira til sem ekki sé hægt að upplýsa en verði upplýst í væntanlegum málaferlum. Harpa býr hins vegar yfir gögnum um allar meðferðirnar sem hún gekkst undir á Íslensku klíníkinni, þær voru þrjár, en aldrei varð af fjórðu meðferðinni, til að ljúka viðgerðum þurfti hún að leita á aðra stofu, þegar henni var tjáð að ábyrgð hennar hjá Íslensku klíníkinni væri ekki lengur í gildi. Nánar verður vikið að svörum stofunnar við ásökunum Hörpu hér neðar.

DV er ekki kunnugt um kvartanir annarra viðskiptavina undan þjónustu stofunnar og á Facebook-síðu fyrirtækisins eru margar jákvæðar reynslusögur. Harpa heldur því fram að óánægðir viðskiptavinir fái ekki að viðra skoðun sína á Facebook-síðu stofunnar og slíkum innleggjum sé eytt. Þessu harðneitar Íslenska klíníkin og segir að engum færslum þaðan hafi verið eytt. Harpa véfengir það og segist þekkja dæmi um slíkt. Hvað sem því líður virðist orðspor fyrirtækisins vera mjög gott og Harpa viðurkennir raunar sjálf að hún telji Íslensku Klíníkina í grunninn vera gott fyrirtæki:

„Stofan er að mörgu leyti fín, allir geta gert mistök, heiðarlegast væri að bæta fyrir mistökin, þess vegna skil ég ekki hvers vegna þeir velja að fara að þessa leið. Þetta snýst ekki um það hvort flestir séu ánægðir, þetta snýst um hvernig er komið fram við þá sem lenda í mistökum eins og hjá mér. Ég var í ábyrgð og þeim ber skylda að bæta þetta.“

Aðspurð segir Harpa að ekki hafi verið inni í myndinni að lögsækja Íslensku Klíníkina heldur hafi hún viljað komast að samkomulagi. Íslenska klíníkin telur hins vegar að leið Hörpu að sáttum hafi verið fjárkúgun þar sem hún hafi borið út óhróður um fyrirtækið og farið fram á fé til að hætta því.

DV hafði samband við Íslensku Klíníkina en forsvarsmenn hennar segjast ekki geta tjáð sig um málefni sjúklinga sinna í fjölmiðlum. Þó verði að halda því til haga að fullyrðingar Hörpu séu rangar, hún hafi sjálf ekki gert það sem til þurfti til að meðferðin heppnaðist, en þau mál verði opinberuð í dómsferli, ekki í fjölmiðlum. Í umfjöllun miðilsins Fréttin um málið frá því í byrjun september sagði eigandi stofunnar, Hjalti Garðarsson, að þetta væri sorglegt mál og Harpa hefði aðeins birt þau samskipti sem henni hentar. „Hún birtir ekki samskipti frá 27. apríl 2021 þar sem henni er tilkynnt um að ábyrgðin hennar sé fallin úr gildi vegna vanefnda hennar.“ Þar að auki hafi hún aldrei verið viðskiptavinur Íslensku Klíníkurinnar, sem var stofnuð 2021, heldur hjá norskri tannlæknastofu sem heitir Budapest Klinikken. „Ég get hrakið hverja einustu fullyrðingu Hörpu og það verður gert fyrir dómi, ekki í fjölmiðlum,“ sagði Hjalti í tölvupósti til Fréttarinnar.

Þess skal getið í þessu samhengi að Harpa var ekki í meðferð hjá Íslensku Klíníkinni heldur hjá hjá Budapest Klinikken, sem er norskt fyrirtæki. Hjalti Garðarsson starfaði fyrir Budapest Klinikken en hann stofnaði síðan Íslensku Klíníkina sumarið 2021, nokkru eftir að Harpa var í meðferð hjá Budapest Klinikken. Meðal þess sem Hörpu og Hjalta greinir á um er hvort ábyrgð hennar hafi í raun náð til Íslensku Klíníkurinnar. Harpa hefur teflt fram í samfélagsmiðlaumræðu ummælum sem virðast gefa til kynna að ábyrgðin flytjist áfram en þó er ekki hægt að fullyrða það án þess að þekkja baksviðið. Íslenska klíníkin hefur hins vegar gefið til kynna að hún hafi veitt Hörpu áframhaldandi ábyrgð um tíma án þess að þurfa þess.

Harpa segist enn vera tilbúin til sátta og vonast eftir að Íslenska Klíníkin falli frá kæru og málshöfðun gegn henni.

Vildu afléttingu á þagnarskyldu en Harpa hafnaði

Í vinnsluferli fréttarinnar óskaði Íslenska Klíníkin eftir því að þagnarskyldu læknis gagnvart sjúklingi yrði aflétt í þessu tilviki svo stofan gæti tjáð sig ítarlegar um málið. Var lagt til að Harpa sendi DV stutta yfirlýsingu í tölvupósti þar sem hún lýsti því yfir að hún samþykkti afléttingu þagnarskyldu í þessu máli.

Harpa neitaði að verða við þessu og sagðist ekki sjá ástæðu til að gera stofunni greiða eftir að forsvarsmenn hennar neiti að ræða við hana og hunsi sáttaumleitanir hennar:

„Ég hef enga samúð með þeim, enda hafa þeir ekki sýnt mér neina samúð. Það hefur bæst við kostnaðinn hjá mér, vegna þeirra er ég að borga hátt í 1,5 milljónir,“ segir Harpa ósátt.  Framhald málsins er í óvissu en margt bendir til þess að Íslenska klíníkin og Harpa Lúthersdóttir eigi eftir að takast á í dómsölum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“