fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Ráðuneytið svarar – „Biðtími eftir þjónustu er óásættanlegur fyrir börn og aðra í sjálfsvígshættu“

Erla Hlynsdóttir
Föstudaginn 28. janúar 2022 10:45

Mynd úr safni/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er afar slæmt að heyra af því að börn í viðkvæmri stöðu þurfi að bíða eftir sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu BUGL og biðtími eftir þjónustu er óásættanlegur fyrir börn og aðra í sjálfsvígshættu,“ segir í skriflegu svari frá heilbrigðisráðuneytinu vegna fyrirspurnar DV um börn á löngum biðlista á BUGL þrátt fyrir alvarlegan vanda, jafnvel sjálfsvígshættu.

Sjá nánar: 13 ára drengur settur á langan biðlista þrátt fyrir ítrekaðar sjálfsvígstilraunur -„Ég bið bara um hjálp“

DV sagði frá því í vikunni að þrettán ára drengur væri á tíu til tólf mánaða biðlista eftir meðferðarinnlögn á BUGL þrátt fyrir að hafa gert þrjár sjálfsvígstilraunir á síðustu tíu mánuðum sem kröfðust sjúkrahússinnlagnar. Hann útskrifaðist í byrjun vikunnar af BUGL eftir stutta bráðainnlögn í kjölfar þriðju sjálfsvígstilraunarinnar. Harpa Henrysdóttir, móðir drengsins, sagði son sinn nauðsynlega þurfa á meðferðarinnlögn að halda, ákallaði heilbrigðisráðherra, og sagði óboðlegt að börn með alvarlegan geðrænan vanda væru sett á biðlista.

Spurningar DV til heilbrigðisráðherra

DV sendi eftirfarandi spurningar til Willum Þórs Þórissonar, heilbrigðisráðherra, og óskaði eftir skriflegu svari eða símaviðtali við ráðherra:

Hvað er að þínu mati ásættanleg bið fyrir börn með alvarlegan geðrænan vanda, jafnvel í sjálfsvígshættu og þar með lífshættu, til að komast í meðferðarinnlögn á BUGL?

Hvað finnst þér um að barn með þessa sögu fái ekki strax innlögn nema þá bráðainnlögn í örfáa daga og sé síðan útskrifað?

Er eitthvað í gangi af hálfu heilbrigðisráðuneytisins sem miðar að því að stytta biðlista á BUGL? Ef já, hvað? Ef nei, af hverju ekki?

Hvað þarf að gerast til að biðlistar á BUGL styttist?

Er að þínu mati neyðarástandi í geðheilbrigðismálum barna á Íslandi? Ef já, hvað ætlar þú að gera í því? Ef nei, hvernig skýrir þú að núverandi staða sé ekki neyðarástand?

Hefur verið gert mat á því hvaða áhrif löng bið á biðlista hefur á geðheilsu barna með alvarlegar geðraskanir? Ef já, hver var niðurstaðan? Ef nei, af hverju ekki?

Hversu mörg börn hafa framið sjálfsvíg á ári, síðastliðin tíu ár, vegna þess að þau voru á biðlista eftir innlögn á BUGL?

Svörin frá heilbrigðisráðuneytinu

Svör bárust skriflega frá heilbrigðisráðuneytinu og má sjá þau hér að neðan, auk fyrsta svarsins efst í greininni. Athugið að ekki er öllum spurningum svarað.

Heilbrigðisstarfsfólk leitar ávallt allra leiða til þess að brúa bilið þegar um bið eftir sérhæfðri þjónustu er að ræða og veita þá almennari geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslu og í geðheilsuteymum. Börn í lífshættu eiga að fá tafarlausa lífsbjargandi þjónustu.

Heilbrigðisráðuneytið leggur ríka áherslu á stöðugar umbætur og framþróun í geðheilbrigðisþjónustu. Verið er að leita leiða til samhæfingar og samþættingar geðheilbrigðisþjónustu svo hægt sé að veita börnum rétta þjónustu á réttum tíma og á réttu þjónustustigi.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni. Geðheilsuteymi verði efld um land allt, áhrif notenda á þjónustuna aukin, forvarnir bættar og áhersla lögð á að veita fjölbreytta gagnreynda þjónustu sem er miðuð að ólíkum þörfum. Heilbrigðisáðherra leggur sérstaka áherslu á að þörfum viðkvæmra hópa verði mætt.

Mönnunarvandi er því miður til staðar í geðheilbrigðisþjónustu eins og almennt í heilbrigðisþjónustu og hefur þetta leitt til þess að biðlistar myndast. Unnið er að úrbótum með fjármögnun þverfaglegrar mönnunar í geðheilbrigðisþjónustu á öllum þjónustustigum um land allt. Einnig er verið að vinna að fjölgun sérnámsstaða í geðheilbrigðisþjónustu.

Ráðuneytið vinnur að því með BUGL að stytta biðlista. Þannig var ríflega 100 m.kr varið til þess verkefnis síðast liðið haust. Verkefnið er hins vegar stærra og ráðuneytið mun leita allra leiða til að stytta bið eftir geðheilbrigðisþjónustu.

Geðheilbrigðisþjónusta hefur aukist til muna síðustu ár en sömuleiðis hefur þörfin fyrir hana aukist. Verið er að endurskipuleggja og bæta geðheilbrigðisþjónustu barna t.d. með uppbyggingu geðheilsuteymis barna sem starfa mun á landsvísu. Heilbrigðisráðuneytið hefur farið biðlistaátak á Þroska- og hegðunarstöð, veitt fjármagni til þess að efla þverfaglega heilsugæsluþjónustu á landsvísu, og verið er að færa skólaheilsugæslu nær framhaldsskólanemum með sérstakri fjárveitingu. Stofnuð var sérstök afeitrunardeild barna og ungmenna á Landspítala. Einnig er í ráðuneytinu nú til athugunar hvernig styrkja megi 2. stigs geðheilbrigðisþjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga svo hún nýtist sem best þeim sem mest þurfi á henni að halda.

Vonir standa til þess að öll þessi verkefni vinni saman til þess að draga úr bið barna eftir geðheilbrigðisþjónustu.  Verið er að leita allra leiða til þess að börn fái sem besta þjónustu þegar þau þurfa.

Ekki hafa verið gerðar rannsóknir hérlendis á áhrifum biðar á geðheilsu barna með alvarlegar geðraskanir. Mikilvægt er að öll geðheilbrigðisþjónusta hafi sem minnstan biðtíma, bæði þegar um snemmtæk inngrip er að ræða í fyrstu merki um versnandi geðheilsu en ekki síður þegar vandamálið er orðið stærra og þarfnast tafarlausrar athygli.

Heilbrigðisráðuneytið vekur að lokum athygli á 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, þar sem kemur fram að notendum heilbrigðisþjónustu sé heimilt að beina formlegri kvörtun til embættis landlæknis vegna meintrar vanræsklu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu.

13 ára drengur settur á langan biðlista þrátt fyrir ítrekaðar sjálfsvígstilraunir – „Ég bið bara um hjálp“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat