fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Segist fyrst hafa vitað um hegðun Einars á föstudaginn – „Við erum bara að átta okkur á stöðunni“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 25. janúar 2022 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt lögum SÁÁ er Sigurður Friðriksson nú orðinn tímabundið formaður SÁÁ í kjölfar afsagnar Einar Hermannssonar, fráfarandi formanns. Sigurður var varaformaður en hann er sjálfkrafa formaður fram að næsta aðalfundi þar sem nýr formaður verður kjörinn. Þrátt fyrir þetta er stjórnarmaðurinn Anna Hildur Guðmundsdóttir talsmaður samtakanna í augnablikinu en fyrir því eru gildar ástæður:

„Sigurður er með Covid, hann er bara veikur eins og er og þess vegna er hann ekki að tala fyrir samtökin,“ segir Anna Hildur í samtali við DV. Hún segir að framkvæmdastjórn og aðalstjórn samtakanna munu hittast fljótlega:

„Sigurður er veikur núna en hann ætti að vera búinn að ná sér í lok vikunnar. Framkvæmdastjórnin mun hittast og ákveða að boða til fundar í aðalstjórn SÁÁ. Þetta er svo nýkomið upp og við erum bara að átta okkur á stöðunni. Það flækir málin að varaformaðurinn sé covid-veikur núna og maður verður að taka tillit til þess en staðan ætti að skýrast fljótlega,“ segir Anna ennfremur.

DV spurði hana hvernig henni og stjórnarmeðlimum líði með þær upplýsingar um fráfarandi formann sem komnar eru fram, en hann mun hafa keypt vændi af konu sem var í fíkniefnaneyslu á árunum 2016 til 2018. Tekið skal fram að á þeim tíma var Einar Hermannsson í stjórn SÁÁ en hann var síðan kjörinn formaður samtakanna árið 2020.

„Ég vísa bara í yfirlýsingu sem stjórnin birti á vef samtakanna. Við stöndum við hana,“ segir Anna. Yfirlýsingin er örstutt, eftirfarandi:

„Einar Hermannsson hefur í dag sagt af sér sem formaður SÁÁ af persónulegum ástæðum.

Vísað er til tilkynningar Einars þess efnis.

Framkvæmdastjórn mun boða til fundar í stjórn SÁÁ til að kjósa nýjan formann.“

Vissu fyrst um málið á föstudaginn

Sú spurning vaknar hvort einhverjir í stjórn eða framkvæmdastjórn hafi vitað af athæfi Einars. Anna segist fyrst hafa fengið vitneskju um málið á föstudaginn og það gildi um aðra í stjórninni:

„Við höfðum fyrst spurnir af þessu á föstudaginn og við héldum fund með honum í gær og þar tilkynnti hann okkur uppsögn sína.“

En hvað finnst Önnu um að uppsögn Einars hafi ekki verið sannleikanum samkvæm. Hann segist í henni hafa svarað auglýsingu á netinu þar sem vændi var boðið en í ljós kemur að hann hafði frumkvæðið að kynnum við konuna og falaðist að fyrra bragði eftir vændiskaupum, auk þess sem ekki kemur fram í yfirlýsingunni að hann hafi keypt vændi af konunni:

„Ég vísa bara í hans yfirlýsingu. Þetta er hans einkamál og ég get ekkert sagt til um þetta,“ segir Anna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga