Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt formlega upp störfum frá og með 1. september 2022. Þetta kemur fram á vef Landlæknis.
Ástæður uppsagnarinnar eru bæði persónulegar og faglegar sem eru þær helstar, að nú er núverandi bylgja Covid-19 að mestu yfirstaðin og nýr kafli að hefjast í starfsemi sóttvarnalæknis. Í þessum nýja kafla felast m.a. uppgjör á viðbrögðum við Covid faraldrinum með það fyrir augum að bæta viðbrögð við faröldrum framtíðarinnar og vinna við þau lögboðnu verkefni sem sóttvarnalækni er ætlað að sinna en hafa að miklu leyti fallið niður á tímum Covid-19.
Þó að Ísland sé nú á góðum stað í Covid faraldrinum þá er honum hvergi lokið á heimsvísu og á meðan að svo er, þarf að fylgjast náið með tilkomu nýrra afbrigða veirunnar og hversu vel og lengi ónæmið sem einstaklingar hafa náð mun vara. Að auki mun koma til lögskipaðra starfsloka sóttvarnalæknis á næsta ári er hann verður sjötugur.
Allt hér að ofan mælir því með að sóttvarnalæknir láti af af störfum á þessum tímapunkti. Embætti landlæknis mun á næstu dögum auglýsa starf sóttvarnalæknis.