Kona hefur verið dregin fyrir dóm, sökuð um líkamsmeiðingar af gáleysi, vegna slyss sem átti sér stað á Ólafsfjarðarvegi síðasta sumar.
Aðalmeðferð var í málinu við Héraðsdóm Norðulands eystra á mánudag.
Slysið átti sér stað inni í Hörgársveit en atvikinu og eftirmálum þess er lýst svo í ákæru:
„…fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi, og umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 8. júní 2021, ekið bifreiðinni […], suður Ólafsfjarðarveg, án nægilegrar varúðar og aðgæslu og ekki virt nægilega biðskyldu á gatnamótum Ólafsfjarðarvegar og Hringvegar við Moldhaugaháls í Hörgársveit, með þeim afleiðingum að hann ekur í veg fyrir bifreiðina […] sem ekið var vestur Hringveg með þeim afleiðingum að árekstur verður þannig að bifreiðin […], ekur í hlið bifreiðarinnar […]. Meiðsli ökumanns og farþega í bifreiðinni […] voru eftirfarandi; ökumaðurinn […], varð fyrir samfallsbroti í brjósthryggjarlið nr. 8 og hlaut einnig mar frá vinstri öxl niður á hægri mjöðm og farþeginn […], rifbrotnaði á rifi 1 og 2 vinstra megin og brotnaði á liðbol brjósthryggjar, auk þess sem hann hlaut áverka yfir hægra viðbeini.“
Þess er krafist að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Dómur verður kveðinn upp í málinu á næstu dögum eða vikum.