Á árinu 2021 komu 64 mál inn á borð til Íþróttabandalags Reykjavíkur, ÍBR. Á árinu 2020 komu níu mál inn á borð til ÍBR og árið 2019 voru málin fjögur. Fjölgunin er því gríðarleg.
Algengast var að um andlegt ofbeldi væri að ræða, eða í 19 tilfellum, en næst algengast var kynferðisleg áreitni, eða í 15 tilfellum. Þar á eftir koma níu mál vegna kynferðislegs ofbeldis, níu mál vegna líkamlegs ofbeldis, átta mál vegna eineltis og fjögur sem flokkast undur „annað.“
Þetta kemur fram í ársskýrslu ÍBR sem kom út í dag.
„Þessi mikla aukning í málafjölda má rekja til útgáfu bæklingsins „Kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg áreitni í íþróttum“. Í bæklingnum eru meðal annars skýrir verkferlar um hvað skal gera ef upp koma mál. Bæklingurinn hefur verið kynntur fyrir aðildarfélögum ÍBR og gætt þess að félögin fylgi verkferlum ÍBR,“ segir í ársskýrslunni.
Hér má nálgast bæklinginn „Kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg áreitni í íþróttum“
Á árinu 2021 var kostnaður við þessi 64 ofbeldismál 797.259 kr. Allir þeir fagaðilar sem vinna fyrir ÍBR í þessum málaflokki gefa afslátt af vinnu sinni eða gefa vinnu sína. Kostnaður við þennan málaflokk hefði verið rúmar í 5.000.000 hefðu fagaðilarnir ekki gefið afslátt eða gefið sína vinnu.
„Hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur geta aðildarfélög ÍBR og iðkendur í aðildarfélögum ÍBR fengið ráðgjöf og aðstoð fagaðila án endurgjalds hafi þeir orðið fyrir, fengið vitneskju eða orðið vitni að ofbeldi eða áreitni í íþróttum. Íþróttabandalag Reykjavíkur er með fagaðila á sínum snærum sem koma inn í öll mál sem koma inn á borð ÍBR. Þeir fagaðilar sem að aðstoða ÍBR eru lögfræðingar, sálfræðingar, kynjafræðingar og félagsráðgjafar. Mikilvægt er að fá óháðan fagaðila inn í öll mál til að gæta hlutleysis og sinna málinu á faglegan hátt,“ segir í skýrslunni.
Í umræddum bæklingi má meðal annars finna siðareglur ÍBR gegn kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi í íþróttum: