Örn Þorvarðarson, fyrrverandi skrifstofustjóri Læknaráðs Landspítalans, hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir milljóna fjárdrátt fyrir læknaráðinu. RÚV greinir frá þessu en dómurinn hefur ekki verið birtur á vef dómstólanna.
DV greindi frá málinu eftir ákæru. Örn var sakaður um að hafa dregið sér rúmlega 4,1 milljón króna af fjármunum starfs- og gjafasjóðs læknaráðs Landspítalans á árunum 2012 til 2016. Millifærslurnar voru allar skráðar í ákæru og eru samtals 34 talsins. Lægsta upphæðin nemur 55 þúsund krónum og sú hæsta tæplega 600 þúsund.
Samkvæmt RÚV játaði Örn sök en krafðist sýknu þar sem málið væri fyrnt en hann var kærður til lögreglu árið 2019. En samkvæmt héraðsdómi fyrnist brot af þessu tagi á 10 árum.
Örn var dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða Landspítalanum 2,5 milljónir króna í skaðabætur.