Gunnlaugur Arnar Ingason, sem er alla jafnan kallaður Gulli Arnar, er óðum að skapa sér nafn sem fremsti bakari og konditor landsins en hann rekur afar vinsælt handverksbakarí undir eigin nafni í Flatahrauni í Hafnarfirði
Hann smitaðist eins og svo margir af Covid-19 um miðjan janúar og lauk einangrun í síðustu viku. Í byrjun síðustu viku fékk hann hins vegar slæma sýkingu í kjölfar veikindanna.
„Sýkingin lýsti sér þannig að hún lagðist illa á slímhúð og þá sérstaklega á munn, kok og háls sem gerði mér erfitt fyrir að nærast og taka viðeigandi lyf. Mér gekk illa að vinna á henni og á fimmtudaginn var ég lagður inná Landspítala þar sem batanum gengur betur og er ég búinn að liggja hér síðan þá en stefnir sem betur fer í heimkomu á morgun,“ skrifar Gulli Arnar í færslu á Instagram-síðu sína.
Hann segist sakna bakarísins óendanlega mikið en hann hafi fengið tvö mjög skýr fyrirmæli frá læknum. Að fara rólega af stað og að það ekki sé möguleiki fyrir hann að vinna 10-16 tíma á dag, alla daga vikunnar, eins og hann hefur gert undanfarið ár.
„Ég ætla að fylgja þessum fyrirmælum og taka því rólega í vikunni sem þýðir örlítið meiri seinkun í kökudeildinni, þið afsakið,“ skrifar bakarinn.
View this post on Instagram