fbpx
Þriðjudagur 19.október 2021
Fréttir

Forsjárdeila fyrir Landsrétt – „Heittrúuð“ móðir metin hæfari en faðirinn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 24. september 2021 15:30

mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur felldi í morgun dóm í forsjárdeilu tveggja foreldra, fyrrverandi hjóna, en faðirinn áfrýjaði dómi héraðsdóms í málinu.

Konan stefndi manninum fyrir dóm með þá kröfu að henni yrði einni falin forsjá sonar fólksins en þau höfðu sameiginlegt forræði. Konan er með erlendan bakgrunn en er íslenskur ríkisborgari. Hún hyggur á nám í útlöndum og vill flytja þangað með drenginn. Ekki hefur þó orðið úr þeim áformum ennþá. Faðirinn giftist aftur og á börn með seinni eiginkonu sinni.

Hjónin sömdu um sameiginlega forsjá. Fyrir héraðsdómi sagði konan að hún hefði samþykkt það fyrirkomulag hjá sýslumanni af ótta við barnsföður sinn sem hefði beitt sig ofbeldi. Þessum ásökunum neitaði maðurinn harðlega og sakaði konuna á móti um að hafa tálmað sér umgengni við son sinn.

Maðurinn sagði jafnframt að konan væri mjög heittrúuð og það hefði verið vandamál í hjónabandinu. Fyrir utan að hafna kröfum konunnar um að henni yrði dæmt fullt forræði þá krafðist maðurinn á móti að honum yrði dæmt fullt forræði. Hann tefldi meðal annars fram þeim röksemdum að rætur sonarins væru íslenskar og því væri eðlilegt að hann byggi á Íslandi, en konan hyggur á nám erlendis og gerir ráð fyrir að sonur þeirra flytjist þá með henni út.

Héraðsdómur mat bæði föður og móður hæfa foreldra og taldi samband drengsins gott við þau bæði. Hins vegar væri samband hans við móðurina mun nánara og því æskilegra að drengurinn væri hjá henni. Ekki væri æskilegt að halda sameiginlegri forsjá áfram þar sem slíkt fyrirkomulag krefðist samskiptahæfni sem hér væri ekki fyrir hendi enda hefðu verið miklir samskiptaerfiðleikar milli hjónanna. Í dómnum segir:

„Af gögnum málsins má ráða að umtalsverðir samskiptaerfiðleikar hafa verið á milli aðila nánast öll þeirra kynni. Aðilar hófu hjúskap og eignuðust son sinn eftir mjög stutt samband. Virðist sem djúpstæður ágreiningur um gildi og lífsviðhorf hafi snemma komið í ljós og valdið ágreiningi sem magnast hafi síðustu árin. Ólíkar áherslur þeirra hafa valdið miklum núningi varðandi uppeldi drengsins og komið í veg fyrir nær alla sameiginlega ákvarðanatöku. Það bera einnig með sér gögn sem frammi liggja í málinu og stafa frá barnaverndaryfirvöldum, framlögð skilaboð á milli málsaðila, auk gagna frá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna dagsektarmáls sem stefndi hóf gegn stefnanda hjá embættinu. Hvað hið síðastnefnda varðar skal þó tekið fram að ekkert haldbært liggur fyrir í málinu um að stefnandi hafi tálmað umgengni stefnda við son sinn. Þá koma samskiptaerfiðleikar milli aðila glögglega fram í matsgerð hins dómkvadda matsmanns og einnig að drengurinn líði mjög fyrir ósætti foreldra sinna. Fyrir dómi kom skýrt fram að báðir aðilar vantreysta hvorir öðrum mjög og að sáttaumleitanir þeirra á milli hafa runnið út í sandinn. Að lokum skal það nefnt í þessu sambandi að ekki verður annað ráðið af greinargerð stefnda í málinu en að hann telji stefnanda lítt færa um að eiga í eðlilegum samskiptum við hann um málefni drengsins.“

Dómurinn hefur skilning á áhyggjum föðurins yfir því að móðirin ætli til náms erlendis en bendir á að ekkert bendi til annars en hún muni snúa heim aftur að námi loknu enda hafi búin verið búsett hér á landi lengi og fengið íslenskan ríkisborgararétt árið 2018. Því verði áform hennar um nám erlendis ekki talin eiga að standa í vegi fyrir því að henni verði dæmd forsjá drengnsins.

Dómurinn telur það vera drengnum fyrir bestu að bundinn verði endir á sameiginlega forsjá foreldranna þar sem það fyrirkomulag sé uppspretta sífelldra deilna og samskiptaerfiðleika. Hins vegar þurfi að semja sérstaklega um umgengni föður við drenginn síðar þegar í ljós kemur hvort áform móðurinnar um nám erlendis raungerist eða ekki.

Var það niðurstaðan að móðirin fengi fullt forræði en faðirinn borgi meðlag með drengnum til 18 ára aldurs.

Landsréttur staðfesti þennan dóms Landsréttar í morgun en dómana má lesa hér. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 dögum

Einar gekk hart að Þórólfi í Kastljósi: Þórólfur skellir skuldinni á Svandísi – „Það er ekki ég sem geri þetta“

Einar gekk hart að Þórólfi í Kastljósi: Þórólfur skellir skuldinni á Svandísi – „Það er ekki ég sem geri þetta“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Föðurbróðir ráðherra finnst ekki – Fjölskylduerjur leiða til dómsmáls um innbrot

Föðurbróðir ráðherra finnst ekki – Fjölskylduerjur leiða til dómsmáls um innbrot