fbpx
Þriðjudagur 30.nóvember 2021
Fréttir

Málsvörn Angjelins – „Því sá hann ekki annan kost í stöðunni en að skjóta að brotaþola þar til hann lést“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 17. september 2021 21:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Angjelin Sterkaj, einn ákærðu í Rauðagerðismálinu, fer fram á að honum verði ekki gerð refsing í málinu, og til vara að refsing verði gerð eins væg og lög heimila. Fer hann fram á þetta á grundvelli þess að hann hafi verið skelfdur og í mikilli geðshræringu þegar hann skaut Armando Beqirai til bana þann 13. febrúar. Þetta kemur fram í greinargerð sem verjandi hans lagði fram í héraðsdóm og DV hefur undir höndum.

Hótuðu að myrða son Angjelins

Í greinargerð kemur fram að hinn látni Armando og aðilar tengdir honum hafi ítrekað hótað Angjelin, fjölskyldu hans og syni í aðdraganda morðsins. Hafi Angjelin tekið þessar hótanir gífurlega alvarlega. Í greinargerð segir að vísendingar um þessari hótanir hafi verið svo margar í gögnum málsins að það væri ófært að telja þær allar upp.

Meðal þeirra hótanna sem greint er frá í greinargerð er myndband sem Angjelin fékk sent.

„Hótunin á að hafa verið myndsímtal eða myndband, sem sent hafi verið Angjelin. Á myndbandinu á heimili sonar barnsmóður ákærða að hafa sést ásamt því sem sonur ákærða sást. Þá á því að hafa verið hótað að þau yrðu myrt. Talað var um að þetta hafi gerst skömmu fyrir morðið á Armando,“ segir í greinargerð en um er að ræða beina tilvitnun í upplýsingaskýrslu í málinu.

Örþrifaráð

Í greinargerð er einnig rakið að í málsgögnum komi fram að lögreglu gruni að Armando hafi verið tengdur skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta hafi Angjelin vitað og það gert að verkum að hann tók allar líflátshótanirnar gífurlega alvarlega.

„Eftir stendur að ákærði er einstaklingur og faðir sem varð fyrir líflátshótunum sem beindust að honum og syni hans af hálfu manna sem lögregla telur að tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Verknaðurinn var að lokum verið algert örþrifaráð.“

En á blaðamannafund sem lögregla hélt vegna málsins kom fram að lögregla teldi að Armando hefði haft tengsl við skipulagða glæpastarfsemi.

Telur að byssa Armandos hafi verið fjarlægð af vettvang

Í greinargerð segir enn fremur að lögregla hafi ekki tekið mið af þeim möguleika við rannsókn málsins að manndrápið kynni að hafa verið örþrifaráð. Angjelin hafi séð Armando taka byssu úr bifreið sinni þetta örlagaríka kvöld í febrúar og komið fyrir í hilli í bílskúrnum. Byssa sú fannst ekki við vettvangsrannsókn lögreglu en því er haldið fram í greinargerð að vinir Armando, sem komu á vettvang á undan lögreglu, hafi falið skotvopnið.

„Lögregla tryggir ekki vettvang strax og fann því ekki byssuna þegar leitað var í bílskúrnum síðar. Eiginkona brotaþola hafði hringt strax í vin brotaþola, vitnið Vladimir, sem var með þeim fyrstu á staðinn og telur ákærði að hann hafi „hreinsað til“ í bílskúrnum áður en lögreglan skoðaði hann.“

Vildi sættast við Armando

Angjelin hafi haldið til fundar við Armando þann 13. febrúar til að reyna að ræða málin og taldi lífshættulegt að mæta á fyrirframákveðinn fund, slíkt hafi hann gert í janúar og þá verið ráðist á hann og syni hans hótað lífláti. Angjelin hafi mætt vopnaður því hann vissi ekki hvernig Armando myndi bregðast við er hann sæi hann.

„Þegar ákærði hitti brotaþola og ætlaði að viðra sættir rauk brotaþoli, sem var rammur að afli og hafði oft lent í líkamlegum átökum, í átt að ákærða með líflátshótunum. Komst ákærði þá í mikið uppnám, sér í lagi vegna þeirra hótanna sem hann hafði fengið í sinn garð og fjölskyldu sinnar, hann áttaði sig á því að brotaþoli og gengi hans myndu ekki bakka út úr hótunum sínum eða ráðagerðum um að drepa hann eða son hans og því sá hann ekki annan kost í stöðunni en að skjóta að brotaþola þar til hann lést.“

Alvarlegar ávirðingar

Í greinargerð má einnig finna alvarlegar aðfinnslur við rannsókn lögreglu. Greinargerð rannsóknaraðila er sögð „skriflegur málflutningur“ þar sem lögregla hafi brotið gegn hlutlægnisskyldu.

„Er ofangreint brot lögreglu afar ámælisvert og skaðlegt í ljósi þess að eftir að greinargerðin gerð var enn verið að framkvæma rannsóknaraðgerðir í því skyni að upplýsa málið, ýmist að beiðni sækjanda eða verjanda, og kann að verða framhald á því. Vart verður séð hvernig það samrýmist stjórnarskrárvörðum meginreglum um réttláta málsmeðferð ef einstaklingar verða sakfelldir á grundvelli gagna sem aflað er af rannsóknaraðila sem hefur gert sig svo vanhæfan sem raun ber vitni í tilviki Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.“

Svört minnisbók með skuldalista

Einnig kemur fram í greinargerð að verjanda hafi reynst erfitt að fá gögn frá lögreglu, einkum gögn um samskipti Armandi við félaga hans, afrit af svartri minnisbók þar sem Armandi hafði skráð það sem talið er vera listi yfir skuldir, dagbók lögreglu úr LÖKE kerfinu varðandi bæði Armandi og Angjelin, gögn sem skýra ummæli lögreglu á blaðamannafundi um að Armandi hefði tengsl við skipulagða glæpastarfsemi og upplýsingar um hvaða aðilar hefðu gefið nafnlausar ábendingar í málinu.

Angjelin byggir kröfu sína um refsileysi eða lækkaða refsingu á því að hann hafi verið í mikilli geðshræringu. Honum hafi ítrekað verið hótað lífláti og ekki bara honum heldur fjölskyldu hans líka og syni. Honum hafi verið send myndskeið sem sýndu að Armando og félagar kæmust auðveldlega að fjölskyldu hans, hann hafði veitt því eftirtekt að fylgst var með honum sjálfum.

Jafnframt er tekið fram að óskiljanlegt sé að Angjelin sé ákærður með þremur öðrum einstaklingum þar sem ógjörningur hafi verið fyrir hin þrjú að vita að Armando myndi láta lífið þetta kvöld þar sem Angjelin hafi ekki haldið til fundar við hann með það fyrir augum að myrða hann.

„Að mati ákærða verður ekki með nokkru móti séð hvernig aðrir en hann gætu mögulega verið fundnir sekir í málinu á grundvelli ákærunnar í málinu. Ákærði fullyrðir að ekkert hinna meðákærðu hafi getað vitað eða séð fyrir að hann myndi fremja þann verknað sem ákært var fyrir.“

Munnlegur málflutningur fer fram í málinu í næstu viku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nágranninn sem montaði sig á laugardeginum, myrti dóttur sína á mánudeginum og framdi sjálfsvíg á þriðjudeginum

Nágranninn sem montaði sig á laugardeginum, myrti dóttur sína á mánudeginum og framdi sjálfsvíg á þriðjudeginum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svona munu ríkisstjórnarsætin skiptast – Sjálfstæðisflokkurinn fær flest ráðuneyti

Svona munu ríkisstjórnarsætin skiptast – Sjálfstæðisflokkurinn fær flest ráðuneyti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Örlagastund Önnu Lindu á Arnarnesbrú – „Bláókunnug manneskja ákvað að fá sér í glas og keyra undir áhrifum“

Örlagastund Önnu Lindu á Arnarnesbrú – „Bláókunnug manneskja ákvað að fá sér í glas og keyra undir áhrifum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Meint vínbúð á Granda vekur mikla reiði hjá miðborgarbúum – „Ég er brjáluð“ – „Er að senda kvörtunarbréf núna“

Meint vínbúð á Granda vekur mikla reiði hjá miðborgarbúum – „Ég er brjáluð“ – „Er að senda kvörtunarbréf núna“