fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Jóhannes Már var áminntur af lögmannafélaginu fyrir miðnæturpóst á Facebook – Hegðunin sögð „ámælisverð og ósamboðin lögmannastéttinni“

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 15. september 2021 20:30

Mynd: Hari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd lögmanna áminnti í byrjun mánaðarins lögmanninn Jóhannes Má Sigurðarson fyrir að hafa sent barnsmóður skjólstæðing síns skilaboð á Facebook um miðja nótt.

Skeytið var sent aðfaranótt fimmtudagsins 19. mars 2020 og voru svohljóðandi, samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar Lögmannafélagsins:

Sæl [A]. Ég hef ekki tölvupóstinn þinn svonég sendo þér skilaboð hér á Favebook. [B] heiti ég, lögmaður [D]. Sú krafa sem þú hefur falið [C] að innheimta fyrir þig á sér enga stoð í lögum. Áður en ég fer með málið lengra vil ég biðja þig vinsamlegast að afturkalla beiðnina til [C]. Verði það ekki gert fyrir lok föstudags mun ég f.h. umbj. míns höfða mál gegn yður fyrir innheimtu óheimillar kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, auk kostnaðar við málshöfðun gegn yður. Verði þessu erindi ekki svarað fyrir lok föstudags með staðfestingu um að framangreint sé afturkallað, er mér ekki annar kostur fær en að færa málið í framangreindan farveg. Virðingarfyllst, [B], lögmaður.

Samkvæmt heimildum DV hafði konan staðið í deilum um meðlagsgreiðslur við barnsföður sinn sem lyktuðu með því að manninum var gert að greiða meðlag mörg ár aftur í tímann. Niðurstaða í því máli lá fyrir nú í sumar.

Í kæru sinni sagði konan skeytasendingu Jóhannesar „hrollvekjandi inngrip,“ í sitt einkalíf og að í þeim hafi falist hótun. Hún hefði orðið hrædd og sér verið brugðið.

Jóhannes krafðist þess fyrir úrskurðarnefnd að málinu yrði vísað frá.

Í niðurstöðu úrskurðarins segir að með Facebook skilaboðunum hafi lögmaðurinn ekki sýnt konunni þá virðingu sem áskilin væri í siðareglum Lögmannafélagsins, og að þau væru ámælisverð. Segir jafnframt í úrskurðinum að ekki sé hægt að réttlæta skeytasendingar af þessu tagi á þessum tíma sólarhrings með því að segja að skrifstofa lögmannsins hafi verið lokuð:

Hefur kærði heldur engar haldbærar skýringar á því veitt fyrir nefndinni hvers vegna honum var ekki nægilegt að bíða opnunar lögmannsstofunnar næsta morgun, þ.e. fyrst hann kaus að senda ekki erindið í tölvupósti til lögmanns kæranda. Verður þá að líta til tímasetningar á sendingu hinna umþrættu skilaboða en með hliðsjón af henni gat kærði á engan hátt ætlað að þau kæmust til skila til kæranda fyrir opnun næsta morgun.

Þá segir í niðurstöðu nefndarinnar að í skilaboðunum hafi falist „ótilhlýðileg þvingun.“ Segir jafnframt:

Að mati nefndarinnar var sú háttsemi sem kærði viðhafði í lögmannsstörfum sínum gagnvart kæranda og hér hefur verið lýst verulega ámælisverð og ósamboðin lögmannastéttinni. Þá eru skýringar þær sem kærði hefur veitt á háttsemi sinni fyrir nefndinni með öllu haldlausar að mati nefndarinnar og í reynd fjarstæðukenndar með tilliti til efnis þeirra skilaboða sem hann sendi til kæranda aðfaranótt 19. mars 2020. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kærða veitt áminning vegna brota gegn 1. mgr. 26. gr., 34. gr. og 35. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Var lögmanninum, sem fyrr sagði, enn fremur gert að greiða konunni 50 þúsund krónur í málskostnað, en samkvæmt heimildum DV heyrir slíkt til algjörra undantekninga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala