fbpx
Föstudagur 24.september 2021
Fréttir

Friðbjörn sagði upp og flutti frá Bessastöðum eftir meinta kynferðislega áreitni samstarfsmanns – Ósáttur með viðbrögð forseta

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 14. september 2021 15:30

Bessastaðir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Friðbjörn Beck Möller starfaði lengi sem umsjónarmaður fasteigna á Bessastöðum og bjó þar ásamt eiginkonu sinni. Haustið 2019 urðu hann og eiginkona hans fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu samstarfsmanns í vinnuferð starfsfólks forsetaembættisins til Parísar. Töluvert hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum undanfarið en Friðbjörn var  ósáttur við hvernig forsetaembættið tók á málinu og að allar tilraunir til að því yrðu gerð, að hans mati, viðeigandi skil, voru árangurslausar.

„Forseti Íslands hefur hvað eftir annað lýst yfir stuðningi við þolendur í kynferðisbrotamálum og hefur lýst því yfir að hann standi fremur með þolendum en gerendum í slíkum málum. En hvar eru allir þolendur áreitisins sem kom upp hjá embættinu, við erum öll hætt,“ segir Friðbjörn í stuttu viðtali við DV.

Auk atviksins sem varð í París í umræddri ferð í september árið 2019 kvartaði önnur kona, sem var starfsmaður embættisins, undan áreitni sama starfsmanns. Umrædd kona og Friðbjörn voru lengi í veikindaleyfi sem rakið er til afleiðinga málsins á andlega líðan þeirra. Konan sagði upp og Friðbjörn sagði upp síðasta sumar og flutti frá Bessastöðum ásamt eiginkonu sinni. Hann er nú kominn í aðra vinnu.

Gerandinn í málinu var lengst við störf á Bessastöðum en starf hans hefur nú verið lagt niður. Eru því allir sem tengjast þessum málum hætt störfum: Konan sem maðurinn er sakaður um að hafa áreitt, Friðbjörn og eiginkona hans sem maðurinn er sakaður um að hafa áreitt, og hinn meinti gerandi sjálfur.

Forsetaembættið gaf út á sínum tíma að málið hefði verið leyst í sátt milli þolenda og geranda. Gerandinn fór í tímabundið leyfi en kom síðan aftur til starfa. Friðbjörn hafnar því með öllu að málið hafi verið leyst í sátt.

Í ferðinni til Parísar greip gerandinn í klof á Friðbirni og réðst á eiginkonu hans er þau voru saman þrjú í lyftu á hótelinu þar sem hópurinn gisti. Greip hann í líkama hennar, rass og læri svo hún hlaut mar af. Friðbjörn reif manninum ofan af konunni og ýtti honum út úr lyftunni sem þá var komin á hæðina þar sem þau gistu á hótelinu.

Það var niðurstaða skrifstofu forseta að Friðbjörn þyrfti áfram að vinna með hinum meinta geranda sem fór í tímabundið leyfi en var ekki sagt upp. Eins og áður greinir frá er hann núna hættur störfum, rétt eins og þolendur hans.

Segist hafa orðið fyrir persónunjósnum

DV greindi frá því í sumar að lögreglumaður sem starfar við vöktun við forsetabústaðinn á Bessastöðum væri sakaður um einelti, persónunjósnir og misnotkun á myndavélarkerfi á svæðinu. Heimildarmaður í fréttinni var Friðbjörn en hann var þá ekki tilbúinn að stíga fram. Friðbjörn sakar lögreglumanninn um að fara langt út fyrir verksvið sitt með því að skoða upptökur af efni, spóla fram og aftur í þeim og fylgjast þannig með ferðum sínum. Hann sakaði hann um að veita upplýsingar sem hann aflaði með þessum hætti um ferðir Friðbjörns til annarra starfsmanna á svæðinu og til yfirmanna sinna. Hann sakaði hann jafnframt um að taka myndskeið á síma sinn upp úr myndefninu og sýna óviðkomandi. Þá segir Friðbjörn að lögreglumaðurinn hafi skrifað skýrslur um sig og annan starfsmann á Bessastöðum, byggt á þessari skoðun á myndefni, og sent til þáverandi forsetaritara, Örnólfs Thorssonar.

Friðbjörn staðhæfir að tengsl séu á milli áreitnimálsins og þessa meinta óhóflega eftirlits með honum á Bessastöðum. Segir hann að þetta hafi verið að undirlagi fyrrverandi forsetaritara, Örnólfs Thorssonar. Friðbjörn kvartaði undan þessu meinta áreiti yfirmanns lögreglumannsins til yfirlögregluþjónsins á lögreglustöðinni í Hafnarfirði. Hann lagði jafnframt inn kæru til Persónuverndar en hann hefur ekki fengið upplýsingar um framgang kærunnar þar.

Gáfu sér brotthvarf frá Bessastöðum í brúðkaupsafmælisgjöf

„Við gáfum okkur það í brúðkaupsafmælisgjöf þann 4. júlí að vera alflutt og sváfum þá fyrstu nóttina okkar á nýjum stað,“ segir Friðbjörn um brottfluning sinn frá Bessastöðum. Hann segist hafa tekið endanlega ákvörðun um uppsögn í tengslum við atvik er varðar meint atferli lögreglumannsins sem hann hafði kvartað undan. Skömmu síðar var hann boðaður á fund á skrifstofu forseta þar sem honum var tilkynnt að starf hans yrði lagt niður vegna skipulagsbreytinga. Lögfræðingur Friðbjörns var með honum á þeim fundi. Eftir fundinn var ljóst að hann hafði í raun val um að láta uppsögn sína standa eða taka uppsögn vegna niðurlagningu starfsins af hálfu embættisins. Var það ákvörðun hans að uppsögn hans sjálfs stæði. „Ég vildi að uppsögn mín stæði, það væri ég sem færi frá embættinu vegna þeirra mála sem höfðu verið í gangi,“ segir Friðbjörn.

Hann segir ennfremur: „Þess má einnig geta að á engum tímapunkti hefur nokkru okkar sem erum þolendur í þessu máli verið boðin aðstoð eða þátttaka í útlögðum kostnaði við sálfræðimeðferð. Embættið hefur enga ábyrgð tekið á þessu máli og það hefur engin afsökunarbeiðni borist til okkar af hálfu embættisins.“

Sem fyrr segir varpar Friðbjörn sök á fyrrverandi forsetaritara, Örnólf Thorsson, bæði hvað varðar að ekki hafi verið tekið með réttum hætti á áreitnimálinu og að höfð hafi verið óeðlileg afskipti af honum í starfi af hálfu lögreglumanns sem starfaði á svæðinu. DV hafði samband við Örnólf og kveðst hann ekki tilbúinn að svara neinum spurningum varðandi embættið og vísar á núverandi forsetaritara, Sif Gunnarsdóttur, sem tók við starfinu í vor.

Kærði áreitnina til lögreglu

Fréttablaðið greindi frá því þann 8. september síðastliðinn að Friðbjörn hefði kært áreitnina sem hann varð fyrir til lögreglu. Var þar rætt við hann undir nafnleynd og sagði Friðbjörn að málið hefði tekið gríðarlegan toll. Í fréttinni segir:

„Angar málsins eru sagðir teygja sig mörg ár aftur í tímann eða allt til 2015. Mörg dæmi hafi verið um óviðeigandi orð og athafnir en steininn tekið úr í starfsmannaferð til Parísar 2018. Þá þuklaði gerandinn, karlmaður, á manninum og braut á fleirum. Gerandinn fékk skriflega áminningu frá forsetaembættinu, baðst afsökunar og var sendur í tímabundið leyfi. Að hann skyldi fá að snúa aftur til starfa kom þolandanum í opna skjöldu.

Maðurinn telur sig ekki hafa fengið viðeigandi málsmeðferð innan forsetaembættisins. Á hann þar einkum við afgreiðslu fyrrverandi forsetaritara. Þegar hann var orðinn úrkula vonar um raunverulegar úrbætur segist hann hafa sagt upp starfi sínu, leitað til Stígamóta og kært málið til lögreglu. Honum hefur nú verið skipaður réttargæslumaður.“

Í sömu frétt staðfesti Sif Gunnarsdóttir forsetaritari að gerandanum hefði verið leyft að snúa aftur til starfa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og þar með hefði formlegu ferli málsins verið lokið. Þá greindi hún einnig frá því að vegna skipulagsbreytinga hefðu verið lögð niður störf þeirra starfsmanna sem höfðu búsetu á Bessastöðum, en það gilti bæði um Friðbjörn og gerandann í málinu.

Tjáir sig ekki frekar

„Við erum komin með lögfræðing sem bannar okkur að tjá okkur frekar,“ segir Friðbjörn og hefur ekki meira að segja um málið en kemur fram hér að ofan. Hann hefur nú hafið störf á nýjum vettvangi en mál hans eru í farvegi sem óljóst er hvar endar, kæra hjá Persónuvernd vegna meintra persónunjósna og kæra hjá lögreglu vegna kynferðislegrar áreitni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Smitin á uppleið aftur

Smitin á uppleið aftur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Eldur í íbúð í Kópavogi

Eldur í íbúð í Kópavogi