fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Formaður Félags sjúkrahússlækna segir komið nóg – „Við áttum einfaldlega að hætta að lækna og hjúkra til að spara !“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 22. ágúst 2021 18:28

Skjáskot úr frétt RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Theódór Skúli Sigurðsson, svæfingalæknir og formaður Félags sjúkrahússlækna segir að nú sé nóg komið og furðar sig á þeirri ályktun Katrínar Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, á að mönnun sé eina vandamálið á gjörgæslu Landspítalans en ekki fjármagn, en bæði hafa þau vitnað í að hafa komist að þeirri niðurstöðu eftir samtal við forstjóra Landspítalans, Pál Matthíasson.

Theódór skrifar um málið á Facebook þar sem hann segir að ítrekað hafi verið varað við stöðunni á gjörgæslunni fyrir COVID faraldurinn. Sjálfur segir Theódór að hann hafi ítrekað átt samtöl við yfirmenn og stjórnendur Landspítalans um áhættuna sem fylgdi því að fækka gjörgæsluplássum úr 13 niður í 10 fyrir sumarið en þar hafi Theódór talað fyrir daufum eyrum og fengið að heyra að um nauðsyn væri að ræða sökum sparnaðarkrafna sem stjórnvöld hafi gert til spítalans.

RÚV greindu frá færslu Theódórs. 

Hélt að stjórendur Landspítalans hefðu loks áttað sig á stöðunni

„Síðustu daga hafa bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vitnað í fund með Páli Matthíassyni forstjóra Landspítalans og niðurstaða þess samtals mun vera að mönnun sé eina vandamál gjörgæslu Landspítalans en ekki skortur á fjármagni.“

Theódór segir að þetta hafi komið honum mikið á óvart.

„Hafandi upplifað ítrekaðar sparnaðaraðgerðir innan veggja Landspítalans síðustu ár koma mér þessi orð verulega á óvart.

Vandamálið mun nú vera leyst með ákvörðun um stofnun hágæslu og samnings við Klíníkina um starfsfólk.“

Theódór sneri heim úr sérnámi fyrir um fjórum árum og segist ítrekað hafa varað við stöðunni á gjörgæsludeildunum, bæði í ræðu og riti.

„Eftir nokkrar COVID bylgjur hélt undirritaður að stjórnendur Landspítalans hefðu loksins áttað sig á erfiðri stöðu en um leið lykilhlutverki gjörgæsludeildanna fyrir íslenska heilbrigðiskerfið.

Ákvörðun um að fækka úr 13 gjörgæsluplássum niður í 10 fyrir sumarið 2021 voru því mikil persónuleg vonbrigði enda setti þetta Ísland í botnsæti Evrópuþjóða hvað varðar fjölda gjörgæsluplássa.

Undiritaður ítrekaði í samtölum við yfirmenn og stjórnendur Landspítalans áhættuna við þessa fækkun gjörgæsluplássa í skugga heimsfaraldurs, opnun landamæra og fjölgun ferðamanna.

Á fyrrnefndum fundum og samtölum með stjórnendum Landspítalans voru ástæður þessa niðurskurðar ávallt miklar sparnaðarkröfur stjórnvalda á Landspítalann.“

Við áttum einfaldlega að hætta að lækna og hjúkra til að spara

Sú krafa hafi verið sett á Landspítala að spara 750 milljónir frá áramótum. Theódór segir að sú krafa sem var lögð á starfsmenn í kjölfarið hafi nánast falið í sér að þeir væru beðnir um að hætta að sinna störfum sínum.

„Læknar voru beðnir um að lækka starfshlutfall, ekki átti að greiða læknum aukagreiðslu fyrir að taka vakt vegna forfalla, loka skurðstofum, stöðva dýrari inngrip og fækka gjörgæsluplássum

Við áttum einfaldlega að hætta að lækna og hjúkra til að spara !

Yfirstjórn Landspítalans tók meðvitað sénsinn og tapaði, því fór sem fór og samfélagið tekur afleiðingunum.“

Vísuðu hjúkrunarfræðingum frá

Theódór nefnir svo fimm atriði sérstaklega, meðal annara að síðasta vetur hafi fjöldi hjúkrunarfræðinga sótt um vinnu hjá spítalanum en ekki fengið:

„1) Síðasta vetur sóttu mun fleiri hjúkrunarfræðingar um vinnu á gjörgæsludeildunum, en færri fengu en vildu þar sem takmarkaður fjöldi staða var í boði

2) Engin sumarbónus var í boði (sem oft hefur tíðkast) fyrir starfsmenn sem myndu velja að fresta sumarfríum yfir mesta álagstímann þótt ljóst væri að fleiri hundruð vakta væru ómannaðar

3) Hætt var að bjóða starfsmönnum 25% lengingu á fríum sem tekin væru utan sumarleyfistíma þótt margir hefðu örugglega valið þann möguleika

4) Starfsmannavelta gjörgæslunnar er tæplega 60 starfsmenn/sólarhring við núverandi aðstæður og samningur Klíníkurinnar við Sjúkratryggingar Íslands skilaði 2 starfsmönnum inná gjörgæsluna í síðustu viku.

4) Sá misskilningur virðist ríkja í stjórnkerfinu að þótt fjármagnið fyrir hágæsluna hafi verið samþykkt í upphafi vikunnar sé hægt að opna plássin í sömu viku. Marga mánuði mun taka að þjálfa upp nægjanlega mikið af starfsfólki (en skýrsla sem staðfesti þörf á hágæslu var tilbúin fyrir meira en 18 mánuðum).

5) Ítrekuð langdregin kjarabarátta heilbrigðisstétta með tilheyrandi verkföllum, lagasetningum og kjaradómum auk umdeildra einhliða kjarasamningstúlkana Landspítalans hafa skilið eftir sig ör sem seint munu gróa og nú er nóg komið!“

Hættið að tala um hvað er búið að gera og einbeitið ykkur að því sem þarf að gera

Theódór  segir að heilbrigðisstarfsmenn og landsmenn muni komast í gegnum faldurinn í sameiningu líkt og áður en hann beinir eftirfarandi orðum til ráðamanna landsins:

„En kæru stjórnmálamenn

(Katrín, Bjarni og Svandís)

Hlustið frekar á starfsmenn Landspítalans en ekki þá sem hafa stýrt síðasta áratuginn með núverandi afleiðingum.

Hættið að tala um hvað búið er að gera og einbeitið ykkur að því sem þarf að gera.

Byggjum upp sterkan Landspítala sem við getum öll verið stolt af og viljum starfa á inní ókomna framtíð.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala