fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Málfrelsissjóður styður við þau sem eru kærð vegna ummæla um kynbundið ofbeldi – „Samfélagið er á suðupunkti“

Erla Hlynsdóttir
Miðvikudaginn 7. júlí 2021 16:30

Samsett mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Nafnlausar frásagnir af ofbeldismönnum eru öryggisnetið sem við vildum geta verið án,“ segir Anna Lotta Michaelsdóttir sem situr í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar Málfrelsissjóðs.

Markmið sjóðsins er að styðja við þolendur kynbundins ofbeldis, og stuðningsfólk þeirra, sem hafa verið dæmd fyrir ærumeiðingar vegna umfjöllunar um kynbundið ofbeldi á opinberum vettvangi.

Í úthlutunarreglum sjóðsins, sem lesa má hér, segir meðal annars: „Sjóðurinn úthlutar styrk fyrir málskostnaði eða skaðabótum sem hefur fallið á stefndu.“

Nokkur umræða hefur skapast um málfrelsissjóðinn á samfélagsmiðlum undanfarið, nú síðast í tengslum við mál Ingólfs Þórarinssonar, eða Ingó Veðurguðs, en hann hefur sagst ætla að leita réttar síns og sé kominn með lögmenn í vinnu eftir að nafnlausar sögur um áreitni og ofbeldi voru tengdar við hann, og Þjóðhátíðarnefnd ákvað í framhaldinu að slíta samningi við hann vegna Brekkusöngsins í ár.

Meiðyrðamál vinsæl kúgunartæki

„Það eru mörg ár frá fyrstu metoo bylgjunni og dómskerfið hefur ekki unnið sér inn frekara traust. Það er ekki skrítið að fólk fái nóg af því að búa í ofbeldissamfélagi og taki málin í sínar hendur, hætti að hvísla og hafi hátt í staðinn.

Merkilegt nokk eru meiðyrðamál að ryðja sér rúms sem vinsælt kúgunartæki gegn þeim sem þora að halda umræðunni gangandi. Umræðunni sem á að skila sér í traustu dómskerfi, svo að hvíslið verði óþarft.

Málfrelsissjóður vill leggja sitt af mörkum svo að fólk þori að halda samtalinu áfram. Svo að dómskerfið geti verið nýtt til réttlætis en ekki sem kúgunartæki ofbeldismanna til frekari þöggunar. Við viljum ekki að umræðan þagni af ótta við fjárhagsleg vandamál í kjölfar meiðyrða,“ segir Anna Lotta.

Einu sinni úthlutað úr sjóðnum

Sjóðurinn var stofnaður árið 2019 eftir að tvær konur voru dæmdar til greiðslu skaðabóta vegna ummæla sinna um hið svokallaða Hlíðamál. Þá var staðið fyrir söfnun í sjóðinn á Karolinafund og söfnuðust um 27 þúsund evrur, eða tæpar fjórar milljónir íslenskra króna á núvirði.  Sjóðurinn er fjármagnaður með frjálsum framlögum og deilir fólk nú á samfélagsmiðlum reikningsnúmeri sjóðsins fyrir þá sem vilja styrkja hann.

Anna Lotta segir að einu sinni hafi verið úthlutað úr sjóðnum. Þá segir hún að árlega sé upplýst um stöðu hans í ársreikningi samkvæmt lögum en ekki opinberlega þess utan.

Sýkna túlkuð sem sakleysi

Henni finnst dómskerfið á margan hátt gamaldags. „Við viljum geta kært ofbeldi vitandi að málið sé meðhöndlað á sanngjarnan máta. En að heimta dóm yfir ofbeldismanni í núverandi kerfi áður en þolandi er tekinn trúlega sýnir einungis fram á barnslegt traust og fáfræði á stöðu málaflokksins.

Dómskerfið á að vera rétti ferillinn fyrir afbrotamál til að fá sanngjarna niðurstöðu. Því miður hefur það misst traust þolenda kynbundins- og kynferðisofbeldis þar sem það tekur ekki mið af vísindalegum og samfélagslegum framförum og skilningi á málaflokknum.

Niðurfelling mála og þung sönnunarbyrði með gamaldags áherslum er byrði sem leggst ofan á afleiðingar ofbeldis. Sýkna ofbeldismanns er túlkuð sem sakleysi, sem sönnun á að þolandi hafi logið og ef dómur fæst er honum snúið við eða mildaður í Landsrétti, í rúmlega 40% tilfella síðustu þrjú ár,“ segir hún.

Falleg samstaða að vara aðrar við

Anna Lotta segir að miðað við þessa stöðu sé ekki skrýtið að margir þolendur ákveði frekar að reyna að hlúa að sér andlega en að fara í gegn um dómskerfið þar sem málin geta velkst árum saman.

„Einn sálfræðitími kostar allt að tuttugu þúsund krónur og sumar hafa hvorki fjárhagslega né andlega efni á að bæta mörgum árum við áfallið, vitandi að líkurnar eru á móti þeim. Það er ekki þar með sagt að ofbeldið hafi ekki gerst og hafi ekki alvarlegar afleiðingar. Það að þolandi vari aðrar við er í raun falleg samstaða, það eina sem hún getur gert til að koma í veg fyrir að önnur þurfi að ganga í gegnum það sama.

Hvísl er ófullkomið öryggisnet sem er óskandi að væri óþarft, en hefur komið í veg fyrir óteljandi afbrot. Á meðan það er ekki hægt að treysta dómstólum er hvíslið það eina öryggisnet sem við höfum. Samfélagið er á suðupunkti,“ segir hún.

Kennitala sjóðsins er 561219-2060 og reikningsnúmer 0133-26-201240

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Manndráp í Kiðjabergi – Mennirnir voru að byggja sumarbústað

Manndráp í Kiðjabergi – Mennirnir voru að byggja sumarbústað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum