fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

COVID-19 – Hérna er allt það helsta sem kom fram á upplýsingafundinum – Þórólfur sendir frá sér minnisblað í dag

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 22. júlí 2021 10:59

Þórólfur Guðnason mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enn einu sinni er örlagastund runnin upp í baráttu þjóðarinnar við vágestinn COVID-19. Hátt í 80 innanlandssmit greindust í gær, meirihluti smitaðra fullbólusettur.

Búist er við samkomutakmörkunum á næstunni og útihátíðahald um verslunarmannahelgina er í hættu.

Upplýsingafundur Almannavarna vegna COVID-19 hófst kl. 11:03 og hér að neðan koma helstu tíðindi frá fundinum:

„Við vitum alveg hvað það er sem þarf að gera,“ sagði Víðir Reynisson í stuttu upphafsspjalli og síðan tók Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við.

Frá mánaðamótum hafa 236 greinst innanlands með Covid,  þar af 213 síðustu vikuna. Fram kemur í máli Þórólfs að öll smitin eru af Delta-afbrigðinu sem er meira smitandi en önnur afbrigði og veldur líklega meiri veikindum. Nýjar upplýsingar erlendis frá benda til þess að bóluefni virki síður gegn Delta-afbrigðinu en fyrri afbrigðum veirunnar.

Fullbólusett fólk á öllum aldri, en einkum á aldrinum 20-40 ára, hefur smitast undanfarið.

Þórólfur segir ljóst að eftir að slakað var á takmörkunum á landamærunum hafi margir komið inn í landið með veiruna. Veiran hafi náð að dreifa sér ótrúlega hratt innanlands þrátt fyrir útbreidda bólusetningu, sem bendir til þess að bóluefni virki síður gegn Delta-afbrigðinu. Ekki er ljóst núna hvort smit muni leiða til alvarlegra veikinda.

Þann 26. júlí þurfa allir að framvísa vottorði um neikvæða niðurstöðu úr Covid-skimun við komuna til landsins.

Þórólfur sendir frá sér minnisblað til heilbrigðisráðherra með tillögum að nýjum sóttvarnatakmörkunum í dag. Hann segist ekki tilbúinn að upplýsa um efni minnisblaðsins á þessari stundu en bendir á að við vitum hvað til þarf í  baráttunni við faraldurinn.

Þórólfur segir að ítrekað hafi verið bent á að ný afbrigði veirunnar geti breytt faraldrinum og viðbrögðum við honum. Mikilvægt sé að láta ekki hugfallast og samstaða þjóðarinnar sé eftir sem áður besta vopnið í baráttunni.

Í svör við spurningum blaðamanna kom fram hjá Þórólfi að alvarleg veikindi væru yfirvofandi hjá einhverjum sem eru í eftirliti á Covid-göngudeildinni. Þórólfur segir skynsamlegra að grípa harkalega inn í núna með aðgerðum en að láta faraldurinn ganga yfir okkur og grípa inn í eftir að spítalainnlögnum hefur fjölgað.

Þórólfur segir að væntanlegar aðgerðir séu í raun og veru ekkert frábrugðnar fyrri aðgerðum. Reynslan frá fyrri bylgjum verður nýtt.

Aðspurður um hvort til greina kæmi að skima sérstaklega á Þjóðhátíð í Eyjum sagði Þórólfur að það væri gífurlega mikið fyrirtæki og hann sæi ekki almennilega fyrir sér að það gæti gengið. Hann útilokaði það ekki og sagði málið í skoðun. „Þetta er mjög dýrt og ég er ekki viss um að það takist almennilega að útfæra þetta,“ sagði Þórólfur. Víðir benti á að útihátíðir væru víðar en í Eyjum og þetta þýddi að skima þyrfti tugi þúsunda manna sem væri gífurlega mikið verk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu