fbpx
Föstudagur 24.september 2021
Fréttir

Persónunjósnamálið á Bessastöðum – Engin svör berast frá lögreglu eða forsetaembættinu – „Ég sagðist ekki ætla að svara neinu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 9. júní 2021 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Engin svör hafa borist frá lögreglu vegna máls lögregluþjóns sem starfar við vöktun á Bessastöðum og sakaður er um einelti og persónunjósnir gagnvart starfsfólki. Yfirmaður lögreglumannsins bauð blaðamanni að senda sér skriflega fyrirspurn á föstudaginn en þegar gengið var eftir svörum í dag mátti skilja á honum að ekki hafi staðið til að svara fyrirspurninni.

Á Bessastöðum er starfrækt nokkurs konar útibú frá Lögreglustöð 2 í Hafnarfirði, en þar vinna nokkrir lögreglumenn á vöktum við að fylgjast með mögulega óviðkomandi umferð um svæðið. Umræddur lögreglumaður er sagður fara langt út fyrir verksvið sitt með því að skoða upptökur af efni, spóla fram og aftur í þeim og fylgjast þannig með ferðum tiltekinna starfsmanna. Hann er sakaður um að veita upplýsingar sem hann aflar með þessum hætti um ferðir tiltekinna starfsmanna til annarra starfsmanna á svæðinu og til yfirmanna sinna. Hann er ennfremur sakaður um að taka myndskeið á síma sinn upp úr myndefninu og sýna óviðkomandi.

Því er einnig haldið fram að lögreglumaðurinn hafi skrifað skýrslur um tvo starfsmenn á Bessastöðum, byggt á þessari skoðun á myndefni, og sent til fráfarandi forsetaritara.

Engin svör frá lögreglu né forsetaritara

DV hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að kvartað hafi verið bæði munnlega og skriflega yfir framferði lögreglumannsins til yfirmanns hans, Skúla Jónssonar, yfirlögregluþjóns og stöðvarstjóra á Lögreglustöð 2 í Hafnarfirði. Er DV bar málið undir Skúla sagðist hann vilja fá skriflega fyrirspurn sem hann myndi svara. Var það á föstudaginn og var fyrirspurnin send þá.

Svar við fyrirspurninni hefur ekki borist og þegar DV hafði samband við Skúla í dag til að ýta á eftir svörum þá sagði hann að ekki hefði staðið til að svara fyrirspurninni:

„Ég sagðist ekki ætla að svara neinu, ég bað þig bara um að senda fyrirspurnina,“ sagði Skúli.  Er blaðamaður bað um að segja af eða á um hvort hann hygðist tjá sig sagði hann:

„Talaðu bara við Ásgeir Þór yfirlögregluþjón. Við erum ekki að tjá okkur um þetta.“

Vísaði hann þar á Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjón hjá almennri löggæslu. DV hafði samband við Ásgeir sem sagði: „Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnir þessari öryggisgæslu í umboði Ríkislögreglustjóra sem er ábyrgur fyrir henni. Við höfum ákveðið að það sé rétt að þeir sem bera ábyrgð á öryggisgæslunni, sem eru Ríkislögreglustjóri og forsetaembættið, tjái sig um þessi mál.“

DV mun senda fyrirspurn á Ríkislögreglustjóra vegna málsins í dag en hefur þegar verið í sambandi við nýráðinn forsetaritara, Sif Gunnarsdóttur. Sif hefur nýtekið við starfinu og hafði síðast er DV hafði samband við hana ekki fengið ráðrúm til að setja sig inn í málið. Hefur hún gefið fyrirheit um svör á næstunni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lokayfirlýsing DV: Faðir sem opinberar barnið sitt

Lokayfirlýsing DV: Faðir sem opinberar barnið sitt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Eldur í íbúð í Kópavogi

Eldur í íbúð í Kópavogi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Hryllingshúsið“ í Kópavogi seldist á 41,5 milljónir

„Hryllingshúsið“ í Kópavogi seldist á 41,5 milljónir