fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

„Trúr og hlýðinn“ dómari dæmdi Kristján Örn í skilorðsbundið fangelsi – Hyggst leita til Mannréttindadómstóls Evrópu

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 11. júní 2021 10:00

Kristján Örn Elíasson telur verulega annmarka á þeirri málsmeðferð sem hann hefur fengið í íslenska dómskerfinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fram til ársins 2010 gáfu héraðsdómarar það loforð að viðurlögðum drengskap sínum að þeir yrðu yfirmönnum sínum trúir og hlýðnir. Laganemi, sem á dögunum var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi og síðan aftur í Landsrétti, telur einsýnt að ákvæðið hljóti að setja allt dómskerfið í uppnám. Hann hyggst leita réttar síns til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna þessa og annarra ágalla í málsmeðferðinni.

Hlýðnir dómarar geti ekki verið sjálfstæðir

Kristján Örn Elíasson hlaut fyrr á þessu ári skilorðsbundin dóm fyrir líkamsárás á öryggisvörð Landsbankans. Segja má að atvikið hafi verið afleiðing af áralangri deilu Kristjáns Arnar og fjölskyldu hans við Landsbankann útaf veðlánum í tengslum við jörðina Elliða sem var í eigu fjölskyldunnar.

Kristján Örn hefur haldið sakleysi sínu fram í málinu. „Ég endurheimti eingöngu símtæki á snaggaralegan hátt úr höndum öryggisvarðarins eftir að hann hafði hrifsað það úr höndum föður míns, sem er áttræður og hjartveikur,“ segir Kristján Örn.

Það hafi því komið Kristjáni Erni í opna skjöldu þegar hann fékk skilorðsbundinn dóm vegna málsins í héraði. Dóm sem var síðan staðfestur í Landsrétti eftir áfrýjun.

Einn af þeim dómurum sem dæmdi Kristján Örn í Landsrétti var Skúli Magnússon, núverandi umboðsmaður Alþingis og fyrrverandi dómari og dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur. Í skipunarbréfi Skúla við Héraðsdóm Reykjavíkur árið 2004 stendur skýrum stöfum að Skúli sver það við drengskap sinn að hann ætli að vera „yfirmönnum sínum trúr og hlýðinn“.

Skipunarbréf Skúla Magnússonar frá árinu 2004. Krafan um að dómarinn sé yfirmönnum sínum trúr og hlýðinn er athyglisverð í meira lagi að mati Kristjáns Arnar Elíassonar.

Kristján Örn telur að að slíkt loforð um skilyrðislausa trúmennsku og hlýðni gagnvart yfirmönnum sínum hljóti að setja dómskerfið í uppnám. „Reglan um sjálfstæði dómara er hornsteinn réttarríkisins. Það að dómarar lofi því að vera trúir og hlýðnir er fullkomlega ósamrýmanlegt við þá reglu,“ segir Kristján Örn.

Ósáttur við að dómari flakki milli dómstiga

Kristján hefur sent ríkissaksóknara umsókn um leyfi til þess að áfrýja til Hæstaréttar dómi Landsréttar og bíður nú svars Hæstaréttar um áfrýjunarleyfið sem ætti að berast á næstu dögum.

Aðspurður um hvernig hann muni bregðast við ef Hæstiréttur veitir honum ekki áfrýjunarleyfi segir Kristján Örn: „Höfnun er næstbesta svarið sem ég get fengið. Þá get ég vísað málinu beint til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg en hann er ekki ókunnugur mannréttindabrotum íslenska réttarríkisins.“

Skúli dæmdi Kristján Örn ekki í héraði en var skipaður dómari við Landsrétt tímabundið í þrjá mánuði þar sem hann sór annað drengskaparheit þar sem ekkert var minnst á trúfestu eða hlýðni. Kristján Örn segir það engu skipta. „Þar staðfestir hann dóm félaga sinna úr héraðsdómi. Finnst þér líklegt að hann myndi snúa dómnum við og snúa síðan aftur á kaffistofuna í Héraðsdómi?,“ spyr Kristján Örn og gerir alvarlegar athugasemdir við flakk Skúla á milli allra dómstiganna þriggja undanfarin ár.

Kristján Örn bendir á að Skúli hafi verið skipaður héraðsdómari frá árinu 2004 og svo ýmist verið settur dómari við Landsrétt eða Hæstarétt eða allt eftir þörfum og geðþótta yfirmanna sinna hverju sinni. „Líklega er þetta hentugt fyrirkomulag fyrir ríkisapparatið því hann er svo trúr og hlýðinn. Eftir stendur spurningin hver sé þessi yfirmaður dómara?“

Taldi sjálfstæði dómara tryggt

Umræðan um drengskaparheit dómara hefur verið tekin fyrir á Alþingi. Árið 2017 lagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, fram fyrirspurn til þáverandi dómsmálaráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gísladóttur, um drengskaparheitin og mögulegar afleiðingar þeirra.

Í svari dómsmálaráðherra kom fram að hún telji það ekki á valdsviði sínu að gefa dómurum fyrirmæli um störf sín.  „Texti í drengskaparheiti um að dómari heiti að vera stjórnvöldum landsins trúr og hlýðinn víkur fyrir ákvæðum stjórnarskrár og landslaga samræmist hann þeim ekki,“ sagði Þórdís Kolbrún orðrétt í andsvari. Af þessum sökum taldi Þórdís Kolbrún óþarft að leysa dómarana undan drengskaparheitinu enda væri sjálfstæði þeirra tryggt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“