fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Landsréttur staðfestir dóm yfir lögreglumanni sem beitti handtekinn mann ofbeldi – Var þjálfari hjá IRS Matrix

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 14. maí 2021 16:30

Tómas Helgi Tómasson. Mynd: Facebook-síða IRS -Matrix

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms yfir lögreglumanninum Tómasi Helga Tómassyni fyrir ofbeldi gegn handteknum manni inni í lögreglubíl. Tómas starfaði sem þjálfari hjá bardagafélaginu IRS Matrix meðfram lögreglustörfum en hefur ekki gert það síðan málið kom upp.

Atvikið átti sér stað í mars árið 2018. Lögreglumenn voru kallaðir að veitingastað vegna árásar manns á dyravörð. Maðurinn vildi ekki hlíta fyrirmælum um að fara ekki með glas út af staðnum. Maðurinn streittist jafnframt gegn handtöku en hann var færður með valdi inn í lögreglubílinn.

Við aðalmeðferð í Landsrétti voru spilaðar myndbandsupptökur frá vettvangi úr svokölluðum Eyewitness-búnaði lögreglunnar. Er það mat dómsins að Tómas hafi beitt óþarfa valdbeitingu, en þessu er lýst svona í dómnum:

„Á síðarnefndu upptökunni má sjá að ákærði og starfsfélagi hans halda brotaþola handjárnuðum á milli sín þegar lögreglubifreiðin er opnuð. Virðist brotaþoli eiga erfitt með að halda jafnvægi og streitast lítillega á móti því að vera færður inn í bifreiðina. Þegar brotaþoli hlýðir ekki fyrirmælum ákærða og starfsfélaga hans um að leggjast á magann inn í bifreiðina slengir ákærði höfði brotaþola fram af nokkurri hörku áður en þau færa hann inn í bifreiðina og leggja hann þar á magann.

Eftir það má sjá ákærða þrýsta hné sínu á háls og höfuð brotaþola í sex til sjö sekúndur. Ákærði losar síðan um þrýsting frá hnénu en slær brotaþola tvívegis í andlitið með handarbaki eða vinstri hlið hægri handar.

Þegar þessi atvik áttu sér stað hafði lögreglubifreiðin ekki ekið af stað. Á sama tíma og fyrst á eftir eiga ákærði og brotaþoli jafnframt í orðaskiptum um hvort brotaþoli hafi hótað lögreglumanni en hvorki verður með óyggjandi hætti greint á upptökunni hvort ákærði hafi lagt hnéð aftur á háls og höfuð brotaþolané hvort brotaþoli hafi hljóðað af sársauka vegna þrýstings frá hné ákærða.

Að loknum orðaskiptum um hótanir segir brotaþoli meðal annars við ákærða „dreptu mig bara“. Þá spyr ákærði brotaþola meðal annars hvað honum gangi til og þvingar handjárnaða handleggi brotaþola upp fyrir aftan bak þannig að brotaþoli heyrist stynja og segja „ég er alveg að deyja“.

Þá spyr ákærði brotaþola að nafni en þegar hinn síðarnefndi svarar því ekki og segir við ákærða að hann sé „algjör hálfviti“ þvingar ákærði handleggi brotaþola aftur upp þannig að brotaþoli stynur aftur og segir „já, ekki lemja mig“. Loks innir ákærði brotaþola aftur ítrekað eftir nafni og þvingar handleggi brotaþola lengra upp fyrir aftan bak, þannig að brotaþoli emjar hátt af sársauka og gefur upp nafn sitt.

Af upptökunni verður ekki ráðið að starfsfélagi brotaþola spyrji þá hvort allt sé í lagi, eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi. Jafnframt athugast að á upptökunni sést að eftir að brotaþoli var færður inn í lögreglubifreiðina braust hann hvorki um með teljandi hætti né var á annan hátt ógnandi.“

Það var niðurstaða Landsréttar að dómur Héraðsdóms í málinu skuli vera óraskaður. Tómas er sakfelldur fyrir brot í starfi og dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi. Hann þarf jafnframt að greiða allan áfrýjunarkostnað fyrir Landsrétti, tæplega eina og hálfa milljón króna.

Dóminn má lesa hér

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu