fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

„Svona framkoma er lífshættuleg“ segir Hulda – „Þessu verður að linna“

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 29. apríl 2021 10:15

Mynd/Fréttablaðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hulda G. Geirsdóttir, útvarpskona og fyrrverandi framkvæmdastjóri Félags hrossabænda, lenti í leiðinda atviki þegar hún fór í reiðtúr í gær með syni sínum í góða veðrinu. 

„Við nutum þess að fara rólega af stað, horfa í kringum okkur á fagurt útsýnið og nýta tímann til að spjalla um ýmis mál. Við vorum komin stutt á veg þegar við mættum fyrsta hlauparanum, tókum bara beygju inn á annan veg til að þurfa ekki að mætast enda sá vegur sameiginlegur og hlauparinn mátti vel skokka þar,“ segir hún í opinni færslu sem hún birti á Facebook en Hringbraut vakti athygli á færslunni.

Eftir að þau höfðu mætt fyrsta hlauparanum voru þau mæðginin einungis á sérmerktum reiðvegum. Hún segir að um sé að ræða reiðvegi sem hestamenn hafa sjálfir byggt upp fyrir reiðvegafé en ekki sölsað undir sig eins og einhverjir hafa viljað meina.

„Á þessum vegi mættum við þremur hjólreiðamönnum. Sá fyrsti var kurteis og stoppaði og spurði hvort hann væri á reiðvegi. Já sögðum við og þökkuðum honum fyrir að stöðva. Hann ætlaði að fara varlega þar til hann kæmist á annan slóða. Næsti reiðhjólamaður hjólaði framhjá okkur án þess að stöðva eða heilsa, en við vorum sjálf stopp í áningu og létum það ekki trufla okkur. Þann þriðja sáum við í fjarska. Áfram héldum við og sáum þá tvo hlaupara á reiðveginum framundan (ennþá á sérmerktum reiðvegi). Þær fóru út af veginum þegar þær urðu okkar varar og pössuðu að trufla ekki. Virkilega vel gert og tillitsamt.“

Þegar Hulda og sonur hennar fóru að nálgast hesthúshverfið aftur sáu þau svo í fjarska nokkra mótorkrossara tætast um á reiðveginum. Hún bendir á að til að komast inn á hann þurftu þeir að fara framhjá reiðvegaskilti, bannskilti fyrir akandi umferð bíla- og bifhjóla og bannskilti fyrir reiðhjól.

„Við hægðum á okkur og sáum að það var eitthvað mikið í gangi, bíll stopp úti í kanti, fólk og hestar á veginum og krossarar að tætast í burtu. Kom í ljós að þeir höfðu ekið á fullri ferð á móti ríðandi umferð og sinntu ekki hrópum og köllum reiðmanna sem veifuðu og kölluðu og báðu þá um að stöðva. Endaði með því að fólkið hálf henti sér af baki til að koma í veg fyrir stórslys.“

„Svona framkoma er lífshættuleg“

Hulda segir að einn knapanna hafi stigið í veg fyrir hjól og sagt honum að stöðva en það gekk ekki. „Sá ákvað hins vegar að ræsa hjólið aftur og keyrði utan í hestamanninn sem stóð á REIÐveginum. Þeir tættust síðan í burtu, yfir götuna og á reiðveg sem er hinum megin við veginn og upp í hlíðina hinum megin, utan vega,“ segir hún.

Í færslunni segir Hulda að það hafi verið hringt í lögregluna eftir þetta en hún veit ekki hvort það sé eitthvað sem hægt er að gera. Hún bendir á að svona framkoma er hættuleg. „Svona framkoma er lífshættuleg – LÍFSHÆTTULEG! Þarna höfðu börn á hestum verið á ferð skömmu áður og munaði litlu að illa færi,“ segir hún.

„Það er ekki að ástæðulausu að hestamenn kvarta undan ágangi á reiðvegina. Þessu verður að linna. Hlauparar, hjólarar og aðrir eiga sinn rétt á sínum sérmerktu stígum og sameiginlegum stígum og vegum, en reiðvegir eru fyrir ríðandi umferð. Virðum það og fræðum fólk í kringum okkur, ef þið þekkið ungt fólk sem á krossarahjól eða fjórhjól, útskýrið þessa hættu. Þarna munaði engu að yrði stórslys.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala