fbpx
Föstudagur 07.maí 2021
Fréttir

Ástvinir Daníels í sárum og segja banamann hans ekki sýna neina iðrun – Lést eftir átök fyrir utan heimili sitt á föstudaginn langa

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 27. apríl 2021 20:00

Daníel Eiríksson. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Daníel Eiríksson fannst illa leikinn á jörðinni fyrir utan heimili sitt í Kópavogi á föstudaginn langa, þann 2. apríl síðastliðinn, aðeins tveimur klukkustundum áður en hann átti að mæta í viðtal hjá ráðgjafa í aðdraganda innlagnar inn á meðferðarheimilið Vog. Daginn eftir, þann 3. apríl, var Daníel úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi.

Daníel var þrítugur að aldri en hann yrði 31 árs þann 19. október næstkomandi. Daníel hafði glímt við fíknivandamál en hafði náð mjög góðum tíma þar sem hann var án hugbreytandi efna í sjö mánuði með unnustu sinni og framtíð þeirra var björt. En hann féll sólarhring áður en hann lenti í atvikinu á föstudaginn langa.

Daníel lét lífið í átökum við mann sem kom að heimili hans í Kópavogi í þeim tilgangi að selja honum fíkniefni til neyslu. Er maðurinn, sem er rúmenskur, kom á vettvang og áttaði sig á því hver átti í hlut, vissi hann upp á sig sökina, en Daníel og maðurinn höfðu átt í deilum áður þar sem Daníel sakaði manninn um að stela af sér verðmætum.

Bíll mannsins kom við sögu í dauða Daníels og hefur Rúmeninn staðhæft að um slys hafi verið að ræða. Daníel hafi hangið utan á bílnum og fallið í jörðina þegar maðurinn ók burtu.

Daníel Eiríksson. Aðsend mynd.

Unnusta Daníels, Lilja Björg Randversdóttir, sem kom að Daníel eftir atvikið, trúir ekki frásögn Rúmenans. „Í þessum heimi  er ekkert svona óvart slys. Það sem lögreglan segir mér að hafi gerst stenst bara engan veginn en hann var með mikla áverka. Hann var út úr heiminum þegar ég kom að honum en var með lífsmarki. Svo ég fékk ekki einu sinni að kveðja hann. Ég heyrði í löggunni í gær og þau gefa lítil svör. Mér finnst eins og löggan nenni lítið að gera, kannski eru það fordómar hjá henni af því fíkniefni tengjast málinu,“ segir Lilja í viðtali við DV.

Lilja bendir á að Daníel var með mikla áverka á höfðinu (blóð) og var viðbeinsbrotinn. „Ég veit hvar hann lá og það stenst engan veginn að um slys hafi verið að ræða. Ef hann Danni hefur hangið utan á bílnum þessa stuttu vegalengd á svæðinu þá hefði hann klárlega ekki fengið þessa gríðarlegu miklu höfuðáverka og viðbeinsbrotnað.“

Segja Rúmenann sýna enga iðrun

Aðrir aðstandendur Daníels benda á að jafnvel þó að saga Rúmenans væri sönn þá hafi hann ekki tilkynnt um atvikið sem honum var þó skylt og er glæpsamlegt enda hafi hann skilið eftir mann sem lá meðvitundarlaus og slasaður eftir hann. Þá hefur aðstandendum Daníels einnig gramist að eftir að Rúmeninn var látinn laus úr gæsluvarðhaldi þá hefur hann látið mikið á sér bera á samfélagsmiðlum og birt af sér mjög glaðhlakkalegar myndir og myndbönd. „Ég myndi halda að maður sem hefur orðið valdur að dauða annars manns ætti að hafa hægt um sig í langan tíma á eftir,“ segir Sverrir Einar Eiríksson, eldri bróðir Daníels heitins.

„Þessi maður sýnir enga iðrun, það sást til hans á djamminu og í World Class um leið og hann var laus úr gæsluvarðhaldi. Ekkert í framferði hans ber þess merki að hann hafi orðið manni að bana og sé eyðilagður út af því,“ segir Guðný  Sigríður Eiríksdóttir, systir Daníels. Hún segir ótrúlega sorglegt að unnusta Daníels, Lilja, hafi komið að honum eftir atvikið.

Hún staðfestir að Daníel hafi verið nýfallinn eftir góða batagöngu og hafi verið að hefja meðferð á ný, sem ekki varð úr. Er DV bað Guðnýju um að lýsa Daníel í örfáum orðum sagði hún:

„Hann var ljúfur og góður drengur. Hann talaði alltaf vel um fólk og hann var alltaf tilbúinn að hjálpa öllum. Hann var yndislegur og kurteis og allir töluðu vel um hann.“

Hættulegir menn sem eiga ekki að ganga lausir

Þrír rúmenskir menn voru handteknir vegna málsins laust fyrir páska. Tveimur var sleppt eftir yfirheyrslu en sá sem segist hafa orðið Daníel að bana fyrir slysni sat í gæsluvarðhaldi frá 4. til 9. apríl þegar honum var sleppt lausum. Aðstandendur Daníels segja að mennirnir hafi rænt Daníel nokkru fyrir atvikið á föstudaginn langa, hafi honum verið ógnað með byssu og hafðir af honum skartgripir að verðmæti um 50 þúsund krónur. Lilja sýnir blaðamanni skjáskot frá Daníel þar sem hann greinir henni frá þessu.

„Þetta eru hættulegir menn sem eiga ekki að ganga lausir. Eina vinnan þeirra er að selja eiturlyf. Um leið og þessi maður var laus úr gæsluvarðhaldi sást hann niðri í bæ að skemmta sér og síðan í ræktinni í góðum filing. Hann sýnir enga iðrun,“ segir Lilja.

Hún bendir á að á sama tíma sé hún svefnlaus og ástvinir hafi ekki fengið tækifæri til að syrgja Daníel þegar allt málið er svona í uppnámi og banamaður hans gengur laus. „Ég skil ekki af hverju löggan hélt honum ekki aðeins lengur svo fjölskyldan fengi einhvern frið í sálinni. Við höfum ekki náð að syrgja og ég hef lífið sem ekkert sofið. Á meðan gengur þessi maður laus og nýtur lífsins. Hann er búinn að játa á sig slys en þetta var ekkert slys. Ég skil ekki af hverju þessi maður gengur laus,” segir Lilja.

Þá vona aðstandendur Daníels innilega að farbannið yfir rúmenska manninum verði framlengt en það gildir til 6. maí næstkomandi.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Sölvi Tryggvason kominn á geðdeild

Sölvi Tryggvason kominn á geðdeild
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Vantar betri búnað til að takast á við gróðurelda og þörf á aukinni menntun slökkviliðsmanna

Vantar betri búnað til að takast á við gróðurelda og þörf á aukinni menntun slökkviliðsmanna
Fréttir
Í gær

Nýir eigendur Nóa Siríus boða meira vöruúrval – Taktu þátt í kosningunni!

Nýir eigendur Nóa Siríus boða meira vöruúrval – Taktu þátt í kosningunni!
Fréttir
Í gær

Tveir blaðamenn af Morgunblaðinu segja af sér

Tveir blaðamenn af Morgunblaðinu segja af sér
Fréttir
Í gær

Braut ítrekað gegn barnsmóður sinni fyrir framan börn þeirra

Braut ítrekað gegn barnsmóður sinni fyrir framan börn þeirra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þriðjungur stúlkna í 10. bekk hefur sent nektarmyndir eða ögrandi myndir af sér

Þriðjungur stúlkna í 10. bekk hefur sent nektarmyndir eða ögrandi myndir af sér