fbpx
Miðvikudagur 12.maí 2021
Fréttir

Svarthöfði: Við erum öll almannavarnir, nema þeir sem sleikja smitkaðalinn

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 11. apríl 2021 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði, eins og aðrir, fylgist grannt með eldgosinu. Svarthöfði er uppreisnarmaður í anda og er meðvitaður um pönkið sem býr innra með honum.

Hann var því ekki í neinum vandræðum með að taka ákvörðun um að brjóta gegn tilmælum Þórólfs Guðnasonar og taka síðdegisröltið að eldgosinu síðastliðna helgi. Konan og elsta barn Svarthöfða þvældust með honum suður eftir í gegnum Grindavík og að bílastæðum sem útbúin voru við Suðurstrandarveg. Þaðan gekk Svarthöfði að smitkaðlinum, svokallaða. Hann gerði sitt besta að sleikja hann ekki. Hvort það hafi tekist eða ekki, fylgir ekki sögunni.

Eins og aðrir, dáist Svarthöfði að björgunarsveitunum, sem á svipstundu voru búnir að búa um hnútana (bókstaflega) þannig að þúsundir geta nú farið á hverjum degi, lagt bílnum sínum í bílastæði og gengið eftir stikaðri slóð að eldgosi. Án þeirra hefði þetta orðið svo miklu miklu erfiðara og leiðinlegra.

Svarthöfði er veraldarvanur og á hefur á ferðalögum sínum kynnst þó nokkuð mörgum útlendingum. Hann læðir því inn „status“ á ensku á samfélagsmiðla með myndum af sér við glóandi hraun og segir: „Just another day in Iceland,“ Svo bíður hann eftir að útlendingarnir lýsi yfir aðdáun sinni á sér og þjóð sinni. Svarthöfða leiðist rembingur af hverju tagi, sérstaklega þjóðrembingur, en það breytir því ekki að sæt er lykt úr sjálfs rassi.

Á bakaleiðinni rakst Svarthöfði á gráklædda sérsveitarmenn sem sendir voru með þyrlu til þess að rýma svæðið. „Gasmengun,“ sögðu þeir. „Allir burt.“

„Allir burt?“ hugsaði Svarthöfði.

Svarthöfði fylgdist svo með fulltrúum yfirvaldsins þeytast um á fjórhjólum og segja fólki að nú væri nóg komið. Heim skyldi fólkið halda.

Á göngunni til baka gafst gott rúm til íhugunar og lét Svarthöfði hugann reka. „Hvenær ætli öryggi mitt hafi orðið að svona miklu keppikefli stjórnvalda,“ hugsaði hann. Hvenær varð velmegun Svarthöfða og heilsa svo mikilvæg stjórnvöldum að sjálf sérsveitin var send inn á þyrlu til að reka mig burt af svæði sem fyrir var smekkfull af lögreglumönnum og umboðsmönnum þeirra í björgunarsveitunum.

Auðvitað er það svo að þar sem þúsundir koma saman á einum stað, sér í lagi utandyra í námunda við eldgos, geta stórslys átt sér stað. Engu að síður var það öllum ljóst sem þangað voru komnir að það væri eldgos í gangi. Það villist enginn upp á Fagradalsfjall í leit að Aktu-taktu eða apóteki. Hugsanlegar hættur af eldgosinu hafa svo undanfarna daga verið tuggðar ofan í almenning á hverjum einasta vefmiðli, hverjum einasta sjónvarpsfréttatíma, spjallþætti í útvarpi, tölvupóstum og svo fékk Svarthöfði SMS þegar hann labbaði inn á svæðið: „Munum sóttvarnir vegna Covid-19 við eldstöðvarnar. Við erum öll almannavarnir.“

„Hvernig getum við öll verið almannavarnir,“ hugsaði hann með sér á göngu sinni niður drullubrekkuna, með aðra hönd á sundursleiktum smitkaðli. „Hvernig erum við öll almannavarnir, ef engum er treyst fyrir horn lengur?“

Ef það þarf að loka fyrir umferð gangandi vegfarenda um fjöll og firnindi suðvesturhornsins, og skikka jafnvel þá sem koma til landsins og eiga hér tóm hús og sumarbústaði til þess að dvelja í farsóttahúsi, þvert á lög, er þá hægt að tala um að allir séu almannavarnir.

Væri ekki nær að segja: Þið eruð öll almannavarnir sem vinnið heima, pantið mat á Heimkaup og skoðið gosið á Instagram? Aðrir ættu að skammast sín.

Því næst birtist bíllinn á sjóndeildarhring Svarthöfða og bíltúrinn heim hófst, en þó ekki fyrr en að like-talningu lokinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hin ákærðu í Rauðagerðismálinu sökuð um samverknað um morð

Hin ákærðu í Rauðagerðismálinu sökuð um samverknað um morð
Fréttir
Í gær

Morðið í Rauðagerði: Kærasta Angjelin á meðal ákærðu

Morðið í Rauðagerði: Kærasta Angjelin á meðal ákærðu
Fréttir
Í gær

Fjórir ákærðir vegna morðsins í Rauðagerði

Fjórir ákærðir vegna morðsins í Rauðagerði
Fréttir
Í gær

Morðið í Rauðagerði: Angjelin sýndi lögreglunni hvað hann gerði með plastbyssu – „Sakborningurinn var á staðnum“

Morðið í Rauðagerði: Angjelin sýndi lögreglunni hvað hann gerði með plastbyssu – „Sakborningurinn var á staðnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Telur að Leirfinnur hafi ekki verið að hringja í Geirfinn – „Maðurinn í leðurjakkanum“ hvarfinu óviðkomandi

Telur að Leirfinnur hafi ekki verið að hringja í Geirfinn – „Maðurinn í leðurjakkanum“ hvarfinu óviðkomandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Almar ráðinn fagsviðsstjóri hjá Samorku

Almar ráðinn fagsviðsstjóri hjá Samorku