fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Ekki vinna þig í þrot – „Þetta er bara allt, það er allt erfitt“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 10. apríl 2021 13:15

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í slendingar vinna mikið. Þetta er staðreynd. Samkvæmt Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, vann 15,1 prósent vinnandi Íslendinga meira en fimmtíu vinnustundir að meðaltali í viku hverri sem er töluvert hærra en meðaltal OECD sem er 11 prósent. Við vinnum samkvæmt þessum tölum meira en öll hin Norðurlöndin, en sem dæmi vinnur aðeins eitt prósent Svía meira en fimmtíu klukkustundir á viku. Aðeins átta lönd vinna meira en við og meðal þeirra landa er Japan, Kórea og Tyrkland.

Þetta hefur óhjákvæmilega í för með sér að sumum reynist erfitt að finna tíma til að sinna sjálfum sér, enda frítími þá hlutfallslega minni. Það getur haft neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu.

Kulnun (e. burnout) er sálfræðileg lýsing á afleiðingum langvinnrar streitu og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er um að ræða ástand sem verður til vegna langvarandi álags í vinnu. Til glöggvunar má hugsa sér kulnun, með einföldun, sem nokkurs konar andlegt gjaldþrot. Kulnaður einstaklingur hefur örmagnast eftir viðvarandi streitu og er uppgefinn á líkama og sál. Þó að margar skilgreiningar á kulnun vísi til streituvalda í vinnu þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á að streita geti tengst öðrum þáttum.

Ekki það sama og þunglyndi

Kulnun er alls ekki nýtt hugtak þó það hafi orðið meira áberandi undanfarin ár, en skilgreiningin hefur verið til í að verða hálfa öld.

Margir gætu velt því fyrir sér hvort kulnun sé ekki í raun annað nafn á þunglyndi, en svo er ekki. Þunglyndi er sjúkdómur sem snertir alla fleti daglegs lífs þeirra sem við hann glíma en kulnun í starfi kristallast í kringum vinnustaðinn. Kulnun er heldur ekki skilgreind sem sjúkdómur, heldur ástand sem getur í sumum tilvikum valdið þunglyndi.

Óvíst með áhrif COVID

Við upphaf kórónaveirufaraldursins vöknuðu áhyggjur um að kulnun gæti aukist, þá sérstalega meðal starfsstétta framlínustarfsmanna. Berglind Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá VIRK, segir ekki tímabært sem stendur að meta langtímaáhrif faraldursins, en VIRK er endurhæfingarsjóður sem hjálpar fólki með heilsubrest að komast aftur eða í auknum mæli inn á vinnumarkað. Meðal annars tekur VIRK á móti einstaklingum í kulnun.

„Það er ekki tímabært að segja til um það hver langtímaáhrif eru af því álagi sem skapast hefur í kringum COVID. COVID hefur vissulega margvísleg áhrif, nánast jafn margvísleg og við erum mörg. Fólk er ýmist að takast á við langvarandi einkenni þess að smitast sjálft, atvinnumissi, skipulagsbreytingar á vinnustöðum og mögulega hafa þessar aðstæður haft áhrif á undirliggjandi heilsubresti.

Nýlega skerpti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin enn frekar á skilgreiningu kulnunar. Kulnun hafði verið skilgreind mjög vítt í flokkunarkerfi stofnunarinnar hingað til en þó ekki sem sjúkdómur eða röskun. Í dag skilgreinir hún kulnun sem ástand sem verður til vegna langvarandi álags í vinnu. Einnig er skerpt á því hvað myndi ekki flokkast sem kulnun í starfi og þar tilgreint að ef aðrir þættir lífsins skýri stöðu einstaklings eigi hugtakið kulnun ekki við.“

Engar formlegar tölur

Gallup birti niðurstöður könnunar sinnar á síðasta ári sem bentu til þess að kulnun sé nokkurt vandamál hér á landi en samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar töldu 60 prósent svarenda sig hafa upplifað kulnun einhvern tímann á ævinni og 35 prósent töldu sig vera í kulnunarástandi.

Samkvæmt Berglindi eru þó ekki til neinar eiginlegar opinberar tíðnitölur um kulnun á Íslandi. Því sé erfitt að meta hvort kulnun sé að aukast í samfélaginu eða ekki og þó svo mikill meirihluti þeirra sem leiti til VIRK séu konur þá sé almennt ekki talið að kulnun sé algengari meðal kvenna og ekki allir sem leiti til VIRK glími við kulnun.

„Erlendar rannsóknir hafa ekki verið á sama máli hvað þetta varðar og því almennt séð ekki fjallað um kulnun eftir kynjunum.“

Þrjár víddir kulnunar

Einkenni kulnunar eru margs konar og kulnun kemur ekki yfir mann eins og þruma úr heiðskíru lofti heldur er afleiðing af langvarandi streituástandi. Einkenni geta verið þreyta, gleymska, pirringur, áhugaleysi, svefnleysi, þunglyndi, kvíði og fleira. Berglind segir einkenni kulnunar finnist á þremur víddum.

„Samkvæmt WHO eru einkenni kulnunar á þremur víddum:

1) Orkuleysi eða örmögnun.
2) Að vera andlega fjarverandi í vinnu, hafa neikvæð viðhorf eða tortryggni tengd vinnustað.
3) Minni afköst í vinnu.

Þegar grunur vaknar um kulnun er fyrsta skrefið að ræða málið á vinnustað ef mögulegt er og sjá hvernig hægt er að bregðast við. Ef vandinn er orðinn alvarlegur og hindrandi þá er gott að leita til heilbrigðisstarfsmanns, til dæmis heimilislæknis.“

Hlaða batteríin

Til að minnka líkur á kulnun er best að horfa á vinnustaðinn og vinnuveitandann og hvað þar sé hægt að gera til að skapa heilbrigðara umhverfi.

„Ýmsar kenningar eru uppi um hvers vegna fólk kulnar í starfi. Helstu áhrifaþættirnir sem koma fram í erlendum rannsóknum eru samsvörun milli starfs og starfsmanns. Mikilvægt þykir að starfsmaður upplifi að hann hafi sjálfræði, tilheyri hópnum, fái endurgjöf og viti hvert hann leitar eftir aðstoð eða stuðningi.

Það sem vinnuveitendur og starfsmenn geta gert er að huga vel að þessum þáttum, huga að óeðlilegu álagi og að gripið sé inn í þegar við á. Huga þarf að því að tækifæri gefist til að hlaða batteríin milli tarna, að óeðlilegt álag verði ekki samfellt og langvarandi. Ýmis verkfæri (t.d. streitustiginn sem var nefndur að ofan) eru til sem geta hjálpað við að eiga samtal um þessa þætti. En samtalið og góð samskipti almennt eru mikilvægir þættir og gefur öllum aðilum tækifæri á að bregðast við snemma.“

Auka vitund

Berglind segir að það helsta sem þurfi að gera í málefnum kulnunar hér á landi á næstunni sé að ná utan um nýja skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á ástandinu.

„Það helsta og kannski næsta sem þarf að gera er að ná utan um kulnun í starfi á Íslandi samkvæmt nýrri skilgreiningu WHO. Síðastliðið haust fór af stað þróunar- og rannsóknarverkefni hjá VIRK sem ætlað er að dýpka þekkingu á kulnun í starfi. Með skarpari viðmiðum verður vonandi hægt að auka vitund um tíðni, starfsstéttir, kyn og fleiri þætti sem mögulega skipta máli þegar um kulnun er að ræða.“

Þrátt fyrir að engar formlegar opinberar tölur séu til hér á landi um tíðni kulnunar bendir könnun Gallup frá síðasta ári til þess að nokkuð sé um að Íslendingar upplifi kulnun. Eins benda tölur OECD til þess að almennt séu Íslendingar að vinna of mikið. Kórónaveiran hefur reynst mörgum erfið þó ekki sé tímabært að meta langtímaáhrif veirunnar á kulnun meðal Íslendinga, sérstaklega meðal heilbrigðisstarfsmanna, kennara og annara stétta sem mikið hefur mætt á undanfarið ár.

Nú er stytting vinnuvikunnar orðin raunveruleiki fyrir marga, en betur má ef duga skal þar sem Ísland er langt á eftir hinum Norðurlöndunum hvað varðar jafnvægi á vinnutíma og frítíma

Reynslusaga Björns Arnarsonar

Björn Arnarson hefur gengið í gegnum kulnun og hann var meðal þeirra sem deildu reynslu sinni í bókinni Þegar karlar stranda – leiðin í land, eftir Sirrý Arnardóttur.

„Þetta er misjafnt hvernig þetta lýsir sér hjá fólki en hjá mér var það þannig að þetta var bara örmögnun. Ég var búinn með allt sem heitir einhver orka og það var allt erfitt. Skipti ekki máli hvort það var að fara að sofa, vaka, tannbursta sig eða raka sig. Skipti engu máli, það var allt eiginlega óyfirstíganlegt. Og það er alveg skelfileg tilfinning. Viðfangsefnið sem er fyrir framan þig er bara óyfirstíganlegt. Fyrir þann sem að hefur ekki lent í þessu þá er erfitt að skýra. Þetta er bara allt, það er allt erfitt.

Ég er með minningu bara af því að tannbursta mig. Ég þurfti bara að stoppa því það var of erfitt, eða að raka mig – það var of erfitt. Fyrir venjulegan aðila hljómar það ótrúlega heimskulega held ég. Þessar daglegu athafnir voru óyfirstíganlegar.

Ég er mjög ánægður með þessar breytingar sem hafa orðið á orðræðunni. Áður var talað bara um kulnun í starfi en nú er talað um kulnun. Því þetta er ekki bara vinnan, ekki bara eitt atriði, ekki tvennt eða þrennt heldur allur pakkinn. Þetta kemur kannski skýrast fram í vinnunni því þar ertu að reyna að halda andlitinu, halda grímunni uppi þar til allt brestur.

Ég held að þetta sé mjög algeng á Íslandi, að Íslendingar séu með mjög háa prósentu af kulnun miðað við aðra. Þessi íslenska geðveiki, eða íslenski krafturinn – ég held að þetta sé hluti af því. Við erum alltaf að taka allt á hnefanum, gefumst aldrei upp og erum alltaf að reyna að halda öllum boltunum á lofti. Á endanum fer eitthvað að gefa sig. Við þurfum að læra að slaka mun betur á og gera þetta öðruvísi en við höfum verið að gera þetta.

Það var eiginlega konan mín sem áttaði sig á því að ég væri komin í kulnun. Ég er alltaf mjög aktífur – alltaf að. Ég náði alltaf að halda mér á floti en svo lenti ég í slysi sumarið 2016 og fór í mánaðar veikindaleyfi til að jafna mig. Þá mátti ég ekki gera neitt.

Svo þegar ég kom til baka í vinnuna þá var ég alveg steiktur. Ég mundi varla hvar hverfið mitt væri eða að ég væri að fara að halda fundi. Þessu er lýst eins og þoku – blackout. Þá varð ég mjög smeykur. Ég fór til heimilislæknis og við héldum jafnvel að ég hefði orðið fyrir einhverjum heilaskaða í slysinu.

Þá tók ég mér frí í vinnunni og fór að skoða mín mál. Á endanum benti heimilislæknirinn minn mér á að skoða þetta VIRK, sem ég hafði aldrei heyrt um áður. Ég sprengdi svo alla skala á þessum skimunarlistum þeirra fyrir kulnun og í framhaldinu komst ég þar að og fór í gegnum þeirra ferli.

Til að gera langa sögu stutta þá var ég kominn til baka í fulla vinnu um ári síðar. Fyrst byrjaði ég í hlutastarfi og jók svo hægt og rólega við mig þar til ég var aftur kominn í fullt starf.

Þetta er langur bataferill þegar maður er búinn að klessa harkalega á vegginn. Þetta er ekki bara að skreppa í sumarbústað í eina viku sem leysir allt. Þetta er hörkuvinna að koma sér til baka. Það hljómar kannski skringilega að maður þurfi að púla við að hvíla sig en hjá mér, þá hef ég alltaf verið virkur – alltaf á milljón – og að þurfa að kúpla mig niður var bara með því erfiðara sem ég hef gert.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur
Fréttir
Í gær

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt