fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Enn hitnar í kolunum hjá Icelandair – Ólafur kallar Stein Loga blöðrusel og gasprara

Heimir Hannesson
Mánudaginn 8. mars 2021 10:52

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV sagði frá því fyrir helgi að titringur væri nú meðal frambjóðenda til stjórnar Icelandair og stuðningsmanna þeirra. Lá þá fyrir að níu manns myndu keppast um stjórnarsætin fimm. Núverandi stjórnarliðar gefa allir kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, en það eru þau John F. Thomas, Nina Jonsson, Úlfar Steindórsson sem jafnframt er formaður stjórnar, Svafa Grönfeldt og Guðmundur Hafsteinsson.

Til viðbótar hafa þau Martin J. St. George, Steinn Logi Björnsson, Sturla Ómarsson og Þórunn Reynisdóttir tilkynnt um framboðin sín.

Steinn Logi rekur nú mikla kosningabaráttu og hefur meðal annars opnað vefsíðuna steinnlogi.is þar sem hann kynnir sig, framboð sitt og gefur hluthöfum færi á að veita sér umboð til að greiða atkvæði fyrir þeirra hönd. Allir hluthafar Icelandair hafa atkvæðarétt samkvæmt eignarhluti sínum á aðalfundinum sem fram fer 12. mars næstkomandi.

Frestur til þess að skrá sig á fundinn og veita öðrum umboð til að fara með atkvæði sitt rann út í gær.

Svo virðist sem mestan styr standi einmitt um framboð Steins til formanns. Bæði hefur formaður FÍA farið hörðum orðum um hann og hans feril í flugbransanum, líkt og DV greindi frá og nú í morgun fer Ólafur Hauksson, enn harðari orðum um keppinaut sinn fyrrverandi hjá Icelandair í aðsendri grein á Vísi.

Flugmenn virðast svo eiga sinn eigin fulltrúa í stjórnarframboðinu, hann Sturla Ómarsson. Sturla er stjórnarformaður Eftirlaunasjóðs FÍA og fyrrum flugstjóri. Hann hefur meðal annars bent á að það tíðkist meðal stórra flugfélaga á Norðurlöndunum að starfsmenn eigi fulltrúa í stjórnum félaganna og vísar meðal annars til SAS og Norwegian í þeim efnum.

Ólafur var einn stofnenda Iceland Express sem kom inn á farþegaflugsmarkaðinn með miklum látum rétt eftir aldamótin. Rifjar hann upp í greininni að Steinn Logi hafi þá verið framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Icelandair. Ólafur segir að viðbrögð Icelandair við stofnun Iceland Express hafi verið að misnota markaðsráðandi stöðu sína og undirbjóða Iceland Express.

Icelandair lækkaði sem sagt gömlu okurfargjöldin niður fyrir kostnaðarverð til að drepa af sér samkeppnina. Meiri trú höfðu Steinn Logi og samverkamenn hans ekki á sínu eigin félagi en að það þyldi ekki minnstu samkeppni.

Þannig hafi Icelandair farið á mis við heilbrigða og uppbyggjandi samkeppni sem félagið hafi svo liðið fyrir alla tíð síðan:

Mesta tap Icelandair fólst þó í því að félagið varð af einstæðu tækifæri til að kynnast samkeppnisumhverfi og laga sig að breyttum aðstæðum með tiltekt í eigin rekstri. Fátt er fyrirtækjum hollara en að búa við öfluga samkeppni. Þetta hefur reynst Icelandair dýrkeypt, því fyrirtækið hefur í mjög langan tíma átt í erfiðleikum með að ná tökum á kostnaði sem hefur lamað samkeppnisgetu þess. Það besta sem í raun gat komið fyrir Icelandair var ef Iceland Express hefði náð að vaxa sem heilbrigður keppinautur í farþegafluginu. Stjórnendur Icelandair sýndu vanhæfni og dómgreindarleysi með því að átta sig ekki á tækifærinu.

Þá segir Ólafur að aðgerðir Steins hafi verið framkvæmdir með vitneskju Pálma Haraldssonar, oft kallaður Pálmi í Fons, þáverandi stjórnarmanns í Icelandair og að undirboð Icelandair hafi þannig lækkað verðmæti Iceland Express, sem Pálmi keypti stuttu eftir að hann hætti í stjórn Icelandair, eins og þekkt er.

Pálmi var þá nýhættur í stjórn Icelandair, en þar hafði hann beitt sér af miklum krafti fyrir undirboðunum sem svo að sjálfsögðu lækkuðu kostnað hans til að komast yfir Iceland Express. Steinn Logi átti sér því dyggan samverkamann í Pálma, en sá síðarnefndi er nú aftur orðinn stór hluthafi í Icelandair Group.

Ólafur varar hluthafa Icelandair við að kjósa Stein Loga, og spyrt hvort annarlegar hvatir búi að baki stjórnarframboði hans: „En það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir hluthafa að spá í hvað búi að baki þessum ákafa hans til að komast í stjórn Icelandair Group. Framboðið er auglýst af jafn miklum móð og fyrir jafn mikla fjármuni og forsetaframboð. Hvaða snúning er verið að undirbúa og með hverjum?“

Grein Ólafs deilir hann svo á Facebook síðu sinni og segir að viðvörunarbjöllur hringi þegar „blöðruselir“ eins og Steinn gefi kost á sér til stjórnarsetu í Icelandair. „[Ég] trúi því seint að nokkrum hluthafa Icelandair þykir fengur að þessum gasprara í stjórn félagsins.“

DV náði tali af Steini sem sagðist ekki geta hafa lesið grein Ólafs og gæti hann því ekki tjáð sig um hana. Ljóst var þó af talandi Steins, að hann var ekki að láta orð Ólafs mikið á sig fá. Hann játti því að hiti hefði bersýnilega færst í leikana en kvaðst bjartsýnn fyrir komandi aðalfund.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala