fbpx
Föstudagur 16.apríl 2021
Fréttir

Jóhanna segist hafa lent í pípara og leigjanda frá helvíti – „Ég fékk lögregluna í Keflavík til að hreinsa þetta út“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 7. mars 2021 18:08

Þetta er á meðal þess sem leigjandinn skildi eftir sig. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir telja sig hlunnfarna í viðskiptum við iðnaðarmenn og þeir eru einnig margir sem hafa orðið fyrir skaða vegna framgöngu óheiðarlegra leigjenda. Jóhanna Kristín Snævarsdóttir segist hafa lent í hvorutveggja í einu og sama málinu. Hún segir pípara sem hún réð til starfa ekki hafa unnið þau verk sem hún greiddi honum fyrir og maður sem píparinn stakk upp á að Jóhanna gerði leigusamning við borgaði ekki leigu. Segist Jóhanna sitja uppi með kostnað vegna þessara svika upp á rúma milljón.

Jóhanna segir við blaðamann DV að hún hafi lent í pípara og leigjanda frá helvíti. Áður en DV hafði samband við hana tjáði hún sig um málið í Facebook-hópnum Vinna með litlum fyrirvara. Hún segist ekki hafa borið sig að öllu leyti rétt að og birtir hún sögu sína öðrum til varnaðar. Í færslunni segir hún meðal annars:

„Ég réði pípara hér á síðunni fyrir nokkru og langar til að vara ykkur á þeim manni því hann er búinn að kosta mig yfir 1.000.000! Í desember tók hann að sér verk í íbúð sem ég leigi út. Vildi svo gera samkomulag um að leigja íbúðina ásamt manni sem vann hjá honum, sem ég samþykkti. Borgaði honum í byrjun 250.000 kr. fyrir efni og vinnu. Hann vann eitthvað smá í íbúðinni fyrir áramót en ekkert meira, keypti aldrei efnið sem átti að kaupa og borgaði ekki krónu í leigu. Ég reyndi að gera aftur samkomulag um að hann myndi klára verkefnið svo ég gæti leigt íbúðina en ekkert gerðist. Hann einfaldlega tók peninginn og eyddi honum í eitthvað annað. Ég reyndi mikið að ná í hann til að fá lyklana til að geta gert íbúðina leiguhæfa, en það gekk ekki þannig að ég þurfti að fá lásasmið til fara inn. Inni var allt í drasli, efni og áhöld til neyslu og ræktunar. Nú er ég búin að reyna að fá peningana til baka en það gengur ekkert. Ofan á þetta þarf ég að borga tæpa milljón öðrum pípara sem er að vinna fyrir mig núna.“

Fékk lögregluna til að hreinsa út úr íbúðinni

Íbúðin sem um ræðir er í Njarðvík. Í samtali við DV segir Jóhanna að þar inni hafi fundist alls konar lyf, sprautunálar og það sem virtust vera pokar undan fíkniefnum sem og áhöld til ræktunar, meðal annars lampar og vatnsheldar spónaplötur.

Tekið skal fram að þessi ummerki skrifast að öllum líkindum á litháeska manninn þar sem ekkert bendir til að píparinn hafi búið í íbúðinni.

„Ég vildi ekkert vera að hreyfa við þessu þannig að ég fékk lögregluna í Keflavík til að hreinsa þetta út. Ég var búin að reyna hvað eftir annað að ná í píparann til að fá lyklana en það gekk ekki neitt. Það er blóðugt því svona upphæðir eru ekki fyrir alla að reiða fram eins og ekkert sé,“ segir Jóhanna.

Jóhanna segist hafa tapað 880.000 krónum í leigu. Sá sem skrifaði undir leigusamninginn er litháeskur maður sem var sagður starfa hjá píparanum. Píparinn sjálfur flutti hins vegar aldrei inn í íbúðina eins og hann sagðist þó ætla sér, að sögn Jóhönnu.

Jóhanna hefur látið píparann fá samtals 250.000 krónur og af því reiknast henni til að 150.000 krónur sé tapað fé. „Hann gerði eitthvað fyrir áramót, lagði eitthvert smotterí. Ég borgaði honum 100.000 krónur sem í fór í einhvern þrýstijafnara, ég kann ekkert á þetta, maður er svo varnarlaus gagnvart svona fólki.“

Hún segir að maðurinn hafi síðan beðið um 150.000 krónur í viðbót til að kaupa efni sem hann hafi síðan aldrei keypt heldur eytt í eitthvað annað.

Hún hefur nú loks fengið annan iðnaðarmann til að gera það sem þarf að gera í íbúðinni og segir hún að það muni kosta um 900.000 þúsund krónur.

Samtök iðnmeistara hafa ítrekað lagt áherslu á að fólk skipti við faglærða iðnaðarmenn. Jóhanna viðurkennir að hún hafi aldrei séð neina pappíra hjá manninum en hann hafi sagst vera faglærður.

Hún er reynslunni ríkari en yfir milljón krónum fátækari eftir þessi viðskipti. Hún hvetur fólk til að láta reynslu hennar verða sér víti til varnaðar.

Í ummælum undir færslu Jóhönnu í Facebook-hópnum eru fleiri sem hafa slæma sögu að segja af umræddum pípara. Ein kona segir:

„Get vitnað að þetta er allt rétt… Er líka búin að tala við hann oft og ekkert nema lygar og svik…“

Þá hefur maðurinn einn þessa sögu af segja af viðskiptum við umræddan pípara:

„Ég fékk hann í verk. Vann hægt og illa. Mætti ekki þegar hann átti að mæta. Vann aldrei fullan vinnudag. Ég hafði sem betur fer vit á því að greiða honum ekkert fyrirfram. Endaði á því að segja honum að drulla sér í burt og borgaði honum 100.000 fyrir þá vinnu sem hann hafði unnið (upphæð sem mér fannst sanngjörn fyrir þá vinnu) en hann vildi á þriðja hundrað þúsund og var alveg brjálaður. Ég sagði honum að hann fengi ekki eina krónu í viðbót og hann væri búinn að kosta mig stórfé fyrir vegna tafa sem hann væri búinn að valda. Hann skyldi bara taka þennan pening eða hann fengi ekki krónu.“

Maðurinn segir sökina alla hjá litháíska leigjandanum

DV náði sambandi við píparann sem Jóhanna átti í viðskiptum við.

„Hún er ekki að fara með rétt mál, þetta er litháeskur maður sem var að vinna hjá mér sem tekur hús á leigu hjá henni og hann borgaði ekki leigu, stakk af til Litháen. Við vorum búin að semja um það að hann leigði af henni. Þegar hann stakk af lét ég hana vita strax af því,“ segir maðurinn.

Blaðamaður átti nokkuð erfitt með að glöggva sig á atburðarásinni út frá frásögn mannsins. Hann sagði til dæmis:

„Ég sagði síðan við hana að ég skyldi gera eitthvað af því fyrir hana sem ég var búinn að lofa. Ég kom hita á húsið og þess háttar. Svo byrjaði hún bara að vera leiðinleg, skilurðu. Ég var ekki skráður fyrir neinu, þetta var ekki mitt mál. Ég ætlaði nú bara að reyna að hjálpa manneskjunni en þegar hún fór að verða leiðinleg þá varð ég bara leiðinlegur á móti.“

Hann segir að aldrei hafi annað verið inni í myndinni en að aðeins litháeski starfsmaðurinn hans væri að taka húsnæðið á leigu, ekki hann sjálfur. Hann hefði hins vegar aðstoðað við þau samskipti því erlendi maðurinn talaði enga íslensku.

„Ég vann alveg helling fyrir hana,“ segir hann ennfremur. „Ég reyndi að gera allt fyrir hana sem ég gat, húsið var nánast ónýtt, það var ekki einn ofn sem virkaði. Það var allt í klessu. Ég kom upp sturtu fyrir hana og ég kom gólfhita á fyrir hana, ég þurfti að rífa allt niður í frumefni því það var allt í klessu. Ég var einn og hálfan sólarhring að því. Ég er búinn að stórtapa á þessu og ég gat ekki séð að ég ætti að þurfa að leggja einhvern peninga í hana,“ segir maðurinn.

Blaðamaður spurði manninn hvort hann væri löggiltur pípari. Hann sagðist vera það, hann hefði lært í Danmörku og væri með sveinspróf þaðan.

Samtalið tók síðan nokkuð skjótan endi eftir að maðurinn sagði: „Ert þú lögreglumaður? Ég skil ekki af hverju ég er að svara öllum þessum spurningum, eins og í einhverri yfirheyrslu.“

Blaðamaður sagði honum þá að hann þyrfti ekki að tjá sig frekar en hann vildi. Kvaddi maðurinn þá í vinsemd.

Ljóst er að píparanum og Jóhönnu ber lítið saman. Hún segir að gólfhitinn í húsinu hafi verið settur upp fyrir mörgum árum, en píparinn hafi lagað eitthvað í grindinni. Hún segist einnig hafa vitni að því að píparinn hafi viljað leigja íbúðina með litháeska manninum. Þá hafi hún afrit af samskiptum þeirra þar sem hún segist vilja rifta leigusamningnum en hann vilji halda áfram að leigja.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Engar umsóknir bárust um stöðu verkefnastjóra á Flateyri – Umsóknafrestur framlengdur

Engar umsóknir bárust um stöðu verkefnastjóra á Flateyri – Umsóknafrestur framlengdur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gunnar fékk 13 ára dóm fyrir morðið á bróður sínum á síðasta ári en var sleppt úr haldi í dag

Gunnar fékk 13 ára dóm fyrir morðið á bróður sínum á síðasta ári en var sleppt úr haldi í dag
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fagradalsfjall Now Erupts From 8 Craters – Hair-raising Footage Shows Spectators at Edge of Lava Flow

Fagradalsfjall Now Erupts From 8 Craters – Hair-raising Footage Shows Spectators at Edge of Lava Flow
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýju gígarnir gjörbreyta ásýnd gossvæðisins – Sjáðu myndband af sjónarspilinu í gærkvöldi

Nýju gígarnir gjörbreyta ásýnd gossvæðisins – Sjáðu myndband af sjónarspilinu í gærkvöldi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fiskibátur með tvo um borð strandaði í Krossavík

Fiskibátur með tvo um borð strandaði í Krossavík
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Eva segir Kára til syndanna – „Æ, Kári, þetta eru ekki rök“

Eva segir Kára til syndanna – „Æ, Kári, þetta eru ekki rök“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þrír greindust utan sóttkvíar í gær – Nýjar tillögur Þórólfs ræddar í ríkisstjórn

Þrír greindust utan sóttkvíar í gær – Nýjar tillögur Þórólfs ræddar í ríkisstjórn
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Nýjar vendingar á gosstöðvum – „Tveir eða jafnvel þrír“ nýir gígar opnuðust í morgun

Nýjar vendingar á gosstöðvum – „Tveir eða jafnvel þrír“ nýir gígar opnuðust í morgun