fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Steinar grét af gleði yfir ákvörðun Jóns – „Innilegar þakkir Jón Gunnarsson“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 5. desember 2021 10:30

Samsett mynd: Steinar Sörensen (t.v.) og Jón Gunnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skipan Jóns Gunnarssonar í embætti dómsmálaráðherra og ráðning hans á Brynjari Níelssyni sem aðstoðarmanni sínum eru ákvarðanir sem hafa vakið hörð viðbrögð í samfélaginu undanfarið. Undirskriftasöfnun hefur verið sett af stað þar sem forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, er hvött til að víkja Jóni úr embætti.  Meðal ástæðna fyrir þessari hörðu gagnrýni er neikvæð afstaða Jóns til frumvarps um breytingar á þungunarrofi sem varð að lögum árið 2019 og frumvarp Brynjars um breytingar á barnaverndarlögum sem fela í sér fangelsisrefsingar við því að tálma umgengnisrétt foreldra við börn sín. Það frumvarp náði ekki framgangi.

Áður en þessi umræða fór í gang höfðu Hjalteyrarbörn lýst yfir áhyggjum af ráðningu Jóns í embætti. Hátt ákall hefur verið eftir því að starfsemi barnaheimilis sem rekið var í Richard-húsi á Hjalteyri á áttunda áratugnum verði rannsökuð en fólk sem dvaldist þar á barnsaldri hefur lýst hræðilegu ofbeldi sem það og önnur börn var beitt.

Meðal Hjalteyrarbarnanna er Steinar Immanuel Sörensen. Hann lýsti yfir áhyggjum af ráðherraskiptunum í dómsmálaráðuneytinu en fráfarandi dómsmálaráðnerra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hafði lýst því yfir að greinargerð yrði gerð um málið og sett í forgang. Steinar óttaðist að málið yrði útundan við ráðherraskiptin.

Það voru því mikil gleðitíðindi fyrir Steinar þegar Jón Gunnarsson greindi frá því í gær að hann hefði sett á fót starfshóp til að rannsaka starfsemi barnaheimilisins á Hjalteyri. RÚV greindi frá. Vistheimilanefnd, sem á sínum tíma birti sláandi skýrslu um starfsemi drengjaheimilis í Breiðuvík, ákvað að rannsaka ekki starfsemi heimilisins á Hjalteyri þar sem það var ekki í rekstri ríkisins heldur einkarekstri.

Í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í gær sagði Jón Gunnarsson:

„Við tókum bara á því og erum búin að leggja drög að því að setja saman hóp sem mun taka til starfa eftir helgina, eða hann verður kynntur eftir helgina, hann er þegar tekinn til starfa til þess að skoða það mál. Þetta er mikið pandórubox sem verið er að opna og við þurfum að stíga varlega til jarðar en gríðarlega mikilvægt að við þessu sé brugðist.“

Þessi ummæli glöddu Steinar Sörensen mikið, sem sagðist gráta af gleði, en hann birti svohljóðandi Facebook-færslu um málið í gær:

„Þetta eru sko gleðifréttir. Ég fagna frá mínum hjartarótum nýjum dómsmálaráðherra, hann hefur þegar stofnað nefnd sem mun skoða Hjalteyrarmálið. Hann lætur greinilega verkin tala, og sú nefnd hefur þegar tekið til starfa og verður kynnt eftir helgina.

Vitiði ég græt af gleði að heyra hans orð…innilegar þakkir Jón Gunnarsson“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu