fbpx
Sunnudagur 28.nóvember 2021
Fréttir

Alþingi birtir kærurnar tólf: Rúnar Björn kærir framkvæmd kosninga – fékk ekki að kjósa leynilega

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 15. október 2021 11:02

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþingi hefur birt á vef sínum kærurnar tólf sem hafa borist vegna nýafstaðinna þingkosninga. Eins og greint hefur verið frá hafa þeir fimm frambjóðendur sem að misstu jöfnunarsæti sitt vegna endurtalningarinnar umdeildu í Norðvesturkjördæmi lagt fram kæru eða þau Karl Gauti Hjaltason, Lenya Rún Taha Karim, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Guðmundur Gunnarsson og Hólmfríður Árnadóttir.

Þá hefur borist kæra frá oddvita Pírata í Norðvesturkjördæmi, Magnúsi Davíð Norðdahl, lögfræðingnum Katrínu Oddsdóttur og hagfræðingnum Þorvaldi Gylfasyni. Þá hafa einnig borist kærur frá þremur kjósendum, þeim Sveini Flóka Guðmundssyni, Ólafi Jónssyni og Sigurði Hreini Sigurðssyni.

Flestar kærurnar snúa að ágöllum í framkvæmd endurtalningarinnar í Norðvesturkjördæmi en einnig gera kjósendurnir meðal annars athugasemdir við að blýantar séu notaðir til að merkja við kjörseðla.

Engin tjöld fyrir kjörklefum

Ein kæra sker sig nokkuð frá hinum en hún kemur frá Rúnari Birni Herrera Þorkelssyni, formanni NPA miðstöðvarinnar. Í kærunni, sem lögmaður hans áðurnefnd Katrín Oddsdóttir er skrifuð fyrir, kemur fram að Rúnar Björn hafi verið meinaður rétturinn til leynilegra kosninga.

Rúnar Björn er lamaður fyrir neðan axlir vegna mænuskaða en hann naut aðstoðar eiginkonu sinnar þegar hann kaus á kjörfundi í Borgarbókasafninu í Kringlunni. Í málsatvikum er því lýst hvernig kjörklefar hefðu verið reistir úr léttum bráðabirgðaveggjum sem staðsettir voru í miðju rýmisins. Kjörklefinn fyrir fatlað fólk hafi verið við hliðina á þessari eyju og þannig myndaðist þröngur gangur aftan við klefann.

Sá kjörklefi sem ætlaður var fólki sem notar, hjólastól var hins vegar ekki með tjaldi svo Rúnar Björn  gat ekki dregið fyrir þegar hann kaus. Segir í kærunni að á sama tíma og hann greiddi atkvæði hafi ókunn manneskja gengið  fram hjá kjörklefanum og hafi viðkomandi augljóslega getað séð hvernig Rúnar Björn kaus. Kemur ennfremur fram að gangurinn sem viðkomandi
manneskja gekk á var svo þröngur að umræddur einstaklingur hefur verið í um það bil eins til tveggja metra fjarlægð frá Rúnari Birni þegar hann merkti við kjörseðilinn. Er gerð athugasemd við að engar hindranir virðist hafa verið settar upp á þennan gang til að minnka líkur á því að slík umferð ætti sér stað á meðan fólk kaus.

Þá kemur fram að Rúnar Björn hafi upplifað talsverð óþægindi í tengslum fyrirkomulagið. Meðal annars á grundvelli þess að á meðan hann kaus sá hann þá kjósendur sem stóðu í biðröð við kjördeildina. Hann upplifði fyrir vikið alls ekki að hann væri að taka þátt í leynilegum kosningum.

Þessi reynsla Rúnars Björns virðist ekki hafa verið eina dæmið um ófullnægjandi framkvæmd kosninga fyrir fatlaða kjósendur.  Í frétt Kjarnans skömmu eftir kosningar er haft eftir Freyju Haraldsdóttur, rétt­inda­gæslu­manni fatl­aðs fólks, að borið hafi á því að  ekki hafi verið nægi­lega gott aðgengi fyrir fatlað fólk á kjör­stöð­um, þrengsli hafi sums staðar verið of mikil og kjör­klefar jafn­vel of litl­ir. Hæðin á borðum í kjör­klef­unum virt­ust jafn­framt ekki verið still­an­leg, sem hafði þær afleið­ingar að þau hent­uðu ekki alltaf fólki sem situr eða liggur í hjóla­stól.

Þá hafi hún verið upplýst um fleiri en eitt tilvik þar sem ekki voru tjöld fyrir kjörklefum eins og í tilfelli Rúnars Björns.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt