fbpx
Miðvikudagur 27.október 2021
Fréttir

Hildur Björns segir nóg komið af takmörkunum Þórólfs – „Afléttingar strax“

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 14. október 2021 14:16

Myndin er, merkilegt nokk, samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Er ekki komið nóg af þessum tilhæfulausa hræðsluáróðri?“ spyr Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi á Facebook síðu sinni í morgun. Vísar hún þar til frétta af yfirlýsingum Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis, um að hann væri tregur til afléttinga vegna hugsanlegra flensupesta seinna í haust.

Sjá nánar: Þórólfur vill Covid takmarkanir áfram því hann veit ekki hvernig haustflensan verður – Kári vill allar takmarkanir burt

„Jarðhræringar, inflúensa og RS-vírus eru ekki, og hafa aldrei verið, málefnalegar ástæður til takmörkunar á athafnafrelsi almennings,“ skrifar Hildur áfram. „Þátttaka í lífinu hefur alltaf verið hættuspil, en stærsta aðsteðjandi ógnin við líf og heilsu fólks er ekki farsótt, nú þegar 90% fullorðinna hafa verið bólusettir gegn kórónaveirunni. Það er ómögulegt að greina nokkurn ávinning eða ábata af áframhaldandi takmörkunum – hins vegar er miklu til kostað og mörgu fórnað.“

Þá segir Hildur að veitingamenn, listamenn og fjölmargir aðrir hafa orðið fyrir óbætanlegu tjóni af völdum Covid takmarkana, sem þjóni ekki lengur sínu markmiði – að vernda almenning.

„Atvinnurekendur um alla borg berjast í bökkum vegna heimatilbúinna skilyrða stjórnvalda, sem eiga sér ekki hliðstæðu í nágrannalöndum. Það er löngu tímabært að endurheimta takmarkalaust samfélag og eðlilegt líf,“ segir Hildur þá jafnframt og lýkur máli sínu afdráttarlaust: „Afléttingar strax.“

Ljóst er að molnað hefur verulega undan hrifningu þjóðarinnar á Þórólfi og þríeykinu undanfarna mánuði. Kári Stefánsson sagðist í gær vera ósammála Þórólfi í grundvallaratriðum um framtíð opinberra aðgerða til að sporna við faraldrinum. Sagðist hann vera á þeirri skoðun að nú væri þjóðin búin að gera það sem hægt er að gera, en nú þyrfti að læra að lifa með veirunni. Rétt eins og tókst að gera með öðrum hefðbundnum inflúensuveirum.

Íslendingar hvergi óhultir nema á Grænlandi

Þá er ljóst að skilaboð Þórólfs til þjóðarinnar í gær, þar sem hann bar fyrir sig árstíðabundnar, venjulegar og hefðbundnar kvefpestir eins og inflúensu sem réttlætingu fyrir áframhaldandi takmörkunum fór öfugt ofan í marga. Þannig skrifaði höfundur „Frá degi til dags“ dálksins í Fréttablaðinu í morgun að gærdagurinn hafi verið „áfall“ fyrir þá sem töldu sig sjá afléttingar fram undan. Slíkar vonir væru nú af og frá vegna inflúensu og RS-veiru. Í hæðni bætti höfundur við að berklar væru enn fremur farnir að láta á sér bera og farið væri að „bóla á bólusótt.“ Þá nefndi hann einnig kóleru, mislinga, alnæmi, einkirningasótt, ebólu, hettusótt, holdsveiki, hlaupabólu, þágufallssýki, léttasótt, aðskilnaðarkvíða og valdasýki sem hugsanlegar ástæður fyrir því að Þórólfur viðhaldi takmörkunum á daglegu lífi Íslendinga.

Þrátt fyrir áþreifanlega minni stuðning við orð og tilmæli Þórólfs, hefur lítið heyrst frá stjórnmálastéttinni undanfarið og sker Hildur sig þannig nokkuð úr með sínum afdráttarlausu orðum. Ísland er nú eina Norðurlandið með nokkurs konar innanlandstakmarkanir, og raunar ráða íslensk heilbrigðisyfirvöld Íslendingum alfarið gegn utanlandsferðum, nema til Grænlands. Þúsundir Íslendinga fara nú erlendis í hverri viku. Ekki er þó að sjá neina aukningu á framboði ferða til Grænlands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Maður sem heyrði raddir slasaði geislafræðing á Landspítalanum – Ríkið neitar að greiða henni skaðabætur

Maður sem heyrði raddir slasaði geislafræðing á Landspítalanum – Ríkið neitar að greiða henni skaðabætur
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Þarf að borga 3 milljónir vegna 9 ára gamallar líkamsárásar – Var frá vinnu í 452 daga

Þarf að borga 3 milljónir vegna 9 ára gamallar líkamsárásar – Var frá vinnu í 452 daga