fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Guðlaug vill banna góðgerðarbjór – „Endilega drífið ykkur að kaupa áður en smáborgarafasistarnir banna hann“

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 28. janúar 2021 16:00

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki eru allir á eitt sáttir við ummæli Guðlaugar B. Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins, í fréttum RUV í gær. Þar sagði Guðlaug að umbúðir Lofts lager, sem Mói ölgerðarfélag setti á markað í síðustu viku, á dánarafmæli Lofts Gunnarssonar, útigangsmanns, séu brot á tóbaksvarnarlögum.

Mói tók þarna höndum saman við Minningarsjóð Lofts Gunnarssonar og Ægi brugghús við markaðssetningu bjórsins og rennur hagnaður af sölu bjórsins óskiptur í minningarsjóðinn. Umbúðirnar vöktu mikla athygli, en á þeim er teiknuð mynd af Lofti sjálfum.

Í frétt DV um tilkomu bjórsins frá því í síðustu viku sagði að Loftur hefði látist langt fyrir aldur fram vegna sjúkdóms sem alla jafna er hægt að meðhöndla. Í tilkynningu frá minningarsjóðnum sagði:

Hann var andlit sem margir, sem áttu leið um miðbæ Reykjavíkur þekktu. Hann var einn af þeim sem oft sáust mæla göturnar í höfuðborginni, auðþekkjanlegur af hávöxnum líkama, fallegum himinbláum augum, miklu skeggi, hermannajakkanum skrautlega, mörgum húðflúrum og breiðu og stóru brosi. Hann var alltaf líklegur til að kasta kveðju á náungann, er hann mætti honum, og hélt svo áfram sína leið. Falleg sál í litríkum umbúðum. Hjartahlýr og örlátur á það litla sem hann átti. Allir voru jafnir í hans huga og hann sá alltaf það besta og bjarta í fólki.

Minningarsjóðurinn hefur á starfstíð sinni unnið með Reykjavíkurborg, VOR-teyminu, og öðrum aðilum sem bjóða úrræði fyrir heimilislausa, svo sem gistiskýlunum og konukoti, að því að bæta hag heimilislausra. Sjóðurinn hefur nýtt fjármuni sína í að kaupa rúm, sjónvörp, húsgögn, fatnað og fleira í þau úrræði sem eru til staðar, að því er segir í tilkynningu sjóðsins. „Á síðasta ári ári keypti sjóðurinn húsgögn og margt fleira inn í gistiskýlið á Lindargötu, keypti rúm og tæki inn í nýju smáhýsin í Gufunesi og styrkti hið mikilvæga verkefni Frú Ragnheiði um 4 milljónir til kaups á nýjum bíl. Frá upphafi þá hefur sjóðurinn ráðstafað yfir 20 milljónum til bæta aðbúnaðinn við hópinn.“

Gunnar Hilmarsson, einn aðstandandi sjóðsins, sagði í samtali við DV í síðustu viku að einhverjum gæti fundist það skjóta skökku við að útgáfa áfengs drykkjar væri nýtt í svona málefni. „En þetta er eitthvað sem við hugsuðum vel. Við spurðum okkur: Hvað myndi Loftur gera? Hvað myndi honum finnast? Og honum hefði alltaf fundist þetta skemmtilegt,“ sagði Gunnar.

Nú ríkir mikil óvissa um framtíð bjórsins, sem þó er enn fáanlegur í ríkinu.

Í viðtali á RUV í gær sagði Guðlaug að þetta væri klárt brot á tóbaksvarnarlögum. „Það kemur skýrt fram í lögunum í 7. greininni að það sé bannað að sýna neyslu, það er bannað að auglýsa, það er bannað að sýna myndskreyttan varning þar sem fram kemur tóbaksneysla, svo þetta er skýrt brot á tóbaksvarnarlögum.“

Í samtali blaðamanns DV við aðstandendur Móa ölgerðarfélags í síðustu viku kom fram að hugmyndin hafi fyrst kviknað er þeir voru í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon á útvarpsstöðinni X-inu. Þáttastjórnendur þar eru úr Garðabæ, eins og Loftur, og þekktu hann vel.

Harmageddon bræður tóku einmitt orð Guðlaugar fyrir í þættinum í morgun og var þeim ekki skemmt. „Einu sinni mátti ekki selja Motorhead rauðvín,“ segir Frosti Logason, annar þáttastjórnendanna „enda þótti það upphefja spíttneyslu,“ í einlægum en kaldhæðnum tóni. „Sömuleiðis var einhverskonar engiferdrykkur [áfengur], þá voru svona myndir af karnívalstúlkum í sokkaböndum og þetta þótti of klámfengið. Ætlaði allt um koll að keyra yfir þessu, og svo nýlega dæmið af Bubba Morthens reykjandi á mynd utan á Borgarleikhúsinu.“

Máni Pétursson, hinn stjórnandi þáttarins, segir greip þá orðið og sagði Guðlaugu hafa líka fundið að því að verið væri að styrkja gott málefni með útgáfu sem þessari. „Krabbameinsfélagið beið þarna álitshnekki hjá mér, ég átti ekki til orð yfir þessari framkomu.“ Vekja þeir athygli á því að bjórinn sé enn til í ríkinu og hægt er að nálgast hann þar. „Þið heyrið það, að það er ennþá hægt að fara að kaupa Loft í ríkinu, og endilega drífið ykkur í því áður en smáborgarafasistarnir ná að banna þetta,“ sagði Frosti.

„Drífið ykkur svo út og takið mynd af þessu og póstið þessu út um allt,“ skaut Máni svo inn, „sérstaklega ef þú ert á móti þessari djöfulsins forræðishyggju. Þetta er ekki í lagi.“

Uppfært kl 19:53: Samkvæmt heimildum DV hefur bjórinn nú verið tekinn úr sölu hjá Vínbúðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“