Föstudagur 26.febrúar 2021
Fréttir

Ásta Fjeldsted – „Læknirinn horfði á mig og sagði mér að það væri mjög ósennilegt að ég gæti eignast börn“

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 23. janúar 2021 08:30

Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásta Fjeldsted var í forsíðuviðtali DV 15 janúar. Viðtalið birtist hér í heild sinni.

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, á að baki ævintýralegan og farsælan feril sem verkfræðingur og ráðgjafi úti um allan heim. Hún lýsir ótrúlegu vinnuumhverfi í Japan, heimilisaðstæðum kollega sinna sem hún neitaði að beygja sig undir og þörfinni fyrir að vera framúrskarandi, sem getur hæglega sligað hvern sem er og kostaði hana heilsuna um tíma.

Ásta er 38 ára ára gömul orkusprengja úr Breiðholtinu. Hún er yngst þriggja systkina og dóttir skólastjóra og kennara. Í stuttu máli má lýsa Ástu sem afreksmanneskju í flestöllu sem hún tekur sér fyrir hendur en hún hefur einnig þurft að læra að gera minna. „Ég þurfti alltaf að hafa meira en nóg fyrir stafni. Alveg frá því að ég var barn þurfti ég stanslaust að vera að. Eftir skóla var það ballettæfing, píanótími, tónfræðitími og jafnvel leikhúsið um kvöldið,“ segir Ásta og vísar til þess að hún hafi tekið þátt í nokkrum leikhúsuppfærslum sem barn.

„Í kringum 12 ára aldurinn fékk ég áminningu um að þetta væri mér um megn þegar ég upplifði andarteppu í fyrsta skipti. Gleymdi hreinlega að anda. Út á við var ég toppnemandi og allt í öllu. En pressan sem ég setti á sjálfa mig var hreinlega of mikil. Allt virkaði sem tipp topp og gerir það mögulega enn í dag en undir niðri er staðreyndin sú að þetta er gífurleg vinna, sem maður ræður ekki við til lengdar og verður því að læra að forgangsraða. Það er ekki hægt að gera allt, sem hugur manns stendur til,“ segir Ásta sem lærði snemma að það þarf að beisla metnaðinn.

Missti hárið vegna streitu

„Þegar ég var 12 ára byrjaði ég að finna fyrir andarteppu sem varð til þess að það leið yfir mig, ég fékk útbrot og byrjaði að missa hárið. Þá var ég búin að hlaða svo á mig verkefnum að líkaminn gaf eftir. Ég var í Þjóðleikhúsinu og það var verið að greiða mér, þegar hárgreiðslukonan heldur á hluta af hárinu á mér sem hrundi af.“

Það varð Ástu til happs að Auður Bjarnadóttir, dans- og jógameistari, tók eftir því hvað var að gerast og tók hana undir sinn verndarvæng. „Hún hafði verið ballettkennarinn minn en fór að kenna mér jóga, öndun og að veita því athygli hvernig mér leið. Hún sá að ég var á góðri leið með að fara í þrot. Þetta var auðvitað blanda af alls konar álagi, eins og er víða á heimilum og ég gekkst upp við það að standa mig vel og fá hrós. Kennararnir í skólunum hringdu heim því þeir höfðu áhyggjur af því að ég væri að læra of mikið. Ég var stanslaust að reyna að tékka í box.“

Hún segir foreldra sína hafa ítrekað það við sig að hún þyrfti ekki að leggja svona hart að sér og þá sérstaklega þegar hún var barn. „Ég ætlaði upprunalega að velja listabrautina, ef svo má segja. Var í tónlistarnámi í FÍH, æfði ballett af miklum metnaði og ætlaði mér að fara í ballettnám erlendis þar til ég áttaði mig á að mér fyndist það ekki nógu praktískt. Hvað ef ég myndi fótbrotna og enda á að skúra sviðið sem ég ætlaði að dansa á?“ segir hún og vísar í klassíska sögu. „Vinafólk foreldra minna benti mér á að ég gæti bara fundið einhvern efnaðan lækni sem gæti séð um mig. Þá gerðist eitthvað innra með mér.“

Sjálfstæðið í Ástu kveinkaði sér undan hugmyndinni og hún hætti strax í ballett. „Ég ætla aldrei að vera fjárhagslega háð öðrum og skipti því alveg um gír. Foreldrar mínir vissu eiginlega ekki hvað gerðist. Ég skráði mig í MR í eðlisfræðideild og fór svo í verkfræði. Ég hef alltaf verið mjög raunsæ og haft mikinn áhuga á að læra eitthvað nýtt og verið óhrædd við að láta reyna á hlutina. Ég hef hins vegar aldrei verið með neitt langtímaplan,“ segir Ásta sem sækist frekar eftir nýjum og krefjandi verkefnum en því hvernig þau líti út á ferilskránni.

Hvar eru konurnar?

Ásta hefur alla tíð starfað í mjög karllægu umhverfi um allan heim og segist kunna vel við sig í því en að það kalli vissulega á ákveðna hörku. Hún hafi ekki fyrr en nýverið áttað sig á því að það verði að standa vörð um kynjaskiptingu í ríkari mæli. „Ég æddi bara áfram og var lítið að hugsa út í hvort ég var að vinna með konum eða körlum en með aldrinum fór ég að horfa í kringum mig og hugsa: Hvar eru konurnar?“

Hún segist verða meiri kvenréttindakona með aldrinum en áður hafi hún lítið hugsað út í kynjamisrétti. „Við pabbi vorum algerir perluvinir og hann hafði alltaf trú á mér, alveg sama hvað ég var að gera. Hann veitti mér sjálfstraust til að gera það sem ég vildi óháð kyni. Mamma vann alltaf fullan vinnudag þó að hún væri með þrjú börn á meðan pabbi var skólastjóri, borgarfulltrúi, las fréttir í sjónvarpinu og var að byggja hús. Það var alltaf mikið að gera en mamma gaf aldrei afslátt af því að hún væri að vinna líka. Ég vil segja að ég hafi alist upp á jafnréttisheimili en þegar ég lít til baka sé ég auðvitað að mamma eldaði alltaf og hélt utan um heimilið, svo þetta var að því leyti gamaldags.“

Ásta fór í MR eftir grunnskóla og bauð sig þar fram sem Inspector Scholae, formaður skólafélagsins, en á móti henni bauð sig fram mjög ákveðinn ungur maður, Bolli Thoroddsen. Barátta þeirra átti eftir að breyta lífi þeirra beggja. „Ég ætlaði mér aldrei neitt mikið í félagslífinu þó ég tæki þátt í öllu. Ég hafði kannski ekki sjálfstraustið í það. Ég býð mig samt fram og vinn forkosningarnar og við Bolli endum tvö í lokasamkeppninni. Hann var í smá áfalli. Hann ætlaði að verða Inspector og var vanur að vinna kosningar. Hann var ekki par sáttur við að einhver ljóska úr Breiðholtinu ætlaði að hafa betur svo hann setti sína kosningamaskínu í gang og malaði mig,“ segir Ásta og hlær.

Ásta segir að eftir þessi átök hafi skapast ákveðin virðing þeirra á milli. „Hann segir að hann hafi verið ástfanginn frá fyrsta degi, þó ekkert hafi gerst okkar í milli fyrr en ég heimsótti hann til Japans 2013,“ segir hún og hlær, en í dag eiga Ásta og Bolli tvö börn, tveggja og fjögurra ára, og þurftu að fresta brúðkaupinu sínu tvisvar á síðasta ári sökum faraldursins en verða vonandi gift áður en árið líður.

Þrumuræða Eftir MR fór Ásta í verkfræði í Háskóla Íslands líkt og margir í kringum hana. „Það voru flestir á leið í læknisfræði, lögfræði eða verkfræði,“ segir Ásta sem fór í verkfræði. „Þetta var frekar þurrt og kennsluhættir gamaldags. Ég settist í stjórn Vöku og fór að láta í mér heyra varðandi upplifun mína sem fyrsta árs nemi.“ Á opnum fundi með rektor, starfsfólki skólans og nemendum fór Ásta hörðum orðum um allt það sem mætti betur fara; svo sem móttöku nemenda, kennsluefnið og kennsluhætti.

„Ég var kölluð til eftir þessa þrumuræðu – og þá til að koma með tillögu að umbótum. Þetta þótti holl lesning. Að segja hvað væri að. Í dag sit ég í stjórn Háskólans í Reykjavík og það er augljóst að mikil breyting hefur orðið á HÍ, ekki síst með tilkomu HR og virkrar samkeppni. Ég held að HÍ sé í dag allt annar og betri skóli en hann var.“

Ásta segist hafa upplifað það sterkt á þessum tíma að ef ein leið væri valin fylgdu henni aðrar. „Og fyrr en varir var búið að mála fyrir þig mynd af framtíð þinni. Þú þarft að vera í þessum vinahópum, átt að huga að ákveðnu starfi og fylgja ákveðinni ímynd. Ég gat það ekki og fannst ég vera að kafna. Eftir að hafa klárað fyrsta árið í verkfræði stakk ég af til Frakklands þar sem ég fór í fjölmiðla- og stjórnmálafræði og þá má segja að ég hafi fyrst fundið almennilegt frelsi. Engin pressa frá neinum. Fjölbreytt flóra af fólki með alls konar hugmyndir. Stjórnmálafræðinámið var þó ekki endilega fyrir mig þó ég hafi lært mikið af því svo ég dreif mig aftur í verkfræðinámið en nú til Danmerkur, í Danmarks Tekniske Universitet, og kláraði grunnnámið í verkfræði þar. Í kjölfarið fór ég að vinna hjá Össuri í Frakklandi í tvö ár, svo hjá IBM í Danmörku og lauk loks mastersnámi við sama skóla í verkfræði.“

Í stanslausri leit Þarna segist Ásta hafa verið orðin fyrirtaks Dani og dugleg að nýta sér auðvelt aðgengi að löndunum í kring til að fara á skíði og skoða sig um. „Þetta var önnur veröld. Ég fann hvað það var hollt að kynnast nýju fólki og upplifa eitthvað nýtt. Um tíma lét ég eins og ekki væri nóg að gera í verkfræðinni, og sótti um og fékk að vinna verkefni víða um heim, meðal annars í Taílandi og Malasíu fyrir háskólann. Ég fór í heimsreisu í hálft ár og var stanslaust í leit að einhverju meira. Frá transsíberískri lestarferð í gegnum Síberíu frá Mongólíu, yfir til Vestur-Afríku, Benín – þar sem ég fékk óvænta heimsókn frá vúdú-flokki og hélt að lífi mínu myndi mögulega ljúka – yfir í fallhlífarstökk við Lake Tapo á Nýja-Sjálandi og margra daga kajakferðir. Sífellt á spani. Leitandi að nýjum áskorunum.“

Það leið þó ekki á löngu þar til sú áskorun kom með hvelli. „Ég hafði áður sótt um styrk hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey & Company fyrir Malasíuverkefnið mitt og til að fá hann þurfti ég að taka þátt í ritgerðarsamkeppni sem ég svo heppilega vann. Þannig fór að yfirmaður minn, aðstoðarforstjóri IBM í Danmörku og góður vinur, ýtti mér í viðtal og sagði að ef ég ætti kost á starfi en myndi ekki þiggja það, myndi hann reka mig. Þetta væri sá skóli sem ég þyrfti.“

Ásta vissi á þeim tíma lítið um fyrirtækið en ákvað að mæta í viðtalið. „Þá lendi ég í þessari sjö tíma þvottavél sem viðtalið var og er ráðin á staðnum. Þetta er þannig fyrirtæki að það nánast yfirtekur líf þitt og þú vinnur mestallan sólarhringinn. Þeir fljúga þér á sunnudagskvöldi eða mánudagsmorgni á þann stað sem þú ert að fara að vinna á og þar eyðir þú vikunni með þínu teymi. Stundum var hrikalega gaman, stundum alls ekki, en þetta var frábær skóli.“

BollaleggingarÞegar Ásta flutti loks heim til Íslands eftir 14 ára dvöl erlendis var hún ekki ein. Metnaðarfulli maðurinn úr MR hafði aftur skotið upp kollinum. „Við Bolli höfðum verið í sambandi í gegnum árin. Eitt og eitt símtal eða kaffibolli þar sem við vorum aðallega að metast. Hann bjó í Japan á þessum tíma og ég hálfpartinn gerði mér upp ástæðu fyrir ferð til þess að heimsækja hann,“ segir Ásta sem segist ekki hafa séð menntaskólavin sinn sem tilvonandi eiginmann framan af heldur einhvern sem lifði í svipuðum heimi og hún sjálf og gat skilið hugarheim hennar.

„Við vorum oft búin að tala um að ég myndi heimsækja hann þar sem hann bjó í Japan og ég á fleygiferð um heiminn með McKinsey. Svo kom að því í lok sumars 2013. Ég þóttist auðvitað vera að heimsækja aðra vini mína líka, Japani sem ég hafði kynnst í gegnum árin, en það varð fljótt ljóst að ferðin snérist um okkur tvö. Þetta gerðist mjög hratt. Hálfu ári seinna var ég komin í starf á McKinsey-skrifstofunni í Tókýó að vinna verkefni með ríkisstjórninni þar, svipað og ég hafði gert hérlendis eftir hrunið, og það gekk það vel að ég fékk fastráðningu. Ég mætti eiginlega bara með töskurnar, Bolli fékk viku til að græja íbúð fyrir okkur og kaupa húsgögn. Við urðum svo eins og gömul hjón á núll einni.“

Hvað sögðu foreldrar þínir við því að þú værir f lutt til Tókýó til gamals bekkjarfélaga?

„Mamma spurði strax þegar ég heimsótti hann fyrst hvort ég væri í einhverjum Bollaleggingum. Mamma og pabbi höfðu oft sent mér úrklippur með fréttum af Bolla og skildu þetta vel þó þau hafi líklega ekki grunað að við yrðum hjón. Þau vissu að ég þyrfti svona karakter eins og Bolla. Við konur viljum oft svo mikið, fjölskyldu, gott félagslíf, frama og fleira og við þurfum algjöra kletta með okkur í þessi verkefni. Bolli er mín stoð og stytta, hvetur mig áfram í einu og öllu. Það er aldrei öfund. Við erum ólík á margan hátt. Ég er skipulagða vélin og keyri hlutina áfram en hann er slakari, svo mannlegur og hjálpar mér oft að sjá hlutina frá öðrum hliðum.“

Ósofin á fund

Ásta segir lífið á Íslandi vera gífurlega ólíkt því sem hún vandist í vinnu sinni hjá McKinsey. „Ég sef líklega meira núna en ég hef gert síðastliðin 15 ár þó ég sé komin með börn. Það er af því að ég var lengi í mjög óhollu vinnuumhverfi. Það er unun að vera komin til Íslands. Að fljúga út um allan heim og vera að koma úr næturflugi og fara nánast ósofin inn á næsta fund. Það er ekki hollt til lengdar. Um tíma var ég komin með kalda lungnabólgu og var búin að ganga á líkamann. Þetta leit kannski vel út, ég flaug út um allan heim, gisti á glæsilegum hótelum og að vinna við krefjandi verkefni. Þetta er í lagi kannski í nokkur ár þegar maður er ungur, en þegar ég komst vel yfir þrítugt fór ég að hugsa hvort þetta væri þess virði.“

„Ég var farin að hugsa út í barneignir og man að mamma sagði við mig: „Ásta, það er ekkert að því að eiga líf án barna ef það er það sem þú vilt. Ef þú vilt vera „career“ kona þá styð ég þig í því.“ Ég virði hana svo fyrir það að setja engan þrýsting á mig. Þetta á líka að vera val. En svo hitti ég Bolla,“ segir Ásta og brosir – þá breyttist lífið.

Áfall eftir læknisheimsókn

„Okkur langaði að fara að eignast börn og þá þurfti ég að fara að horfa í spegilinn og átta mig á stöðunni. Ég var hætt að hafa blæðingar og læknarnir staðfestu að allir hormónar væru í miklu ójafnvægi. Líkaminn var illa á sig kominn eftir of mikla vinnu. Ég gleymi því aldrei þegar læknirinn horfði á mig og sagði mér að það væri mjög ósennilegt að ég gæti eignast börn.“

Ásta segist hafa fengið áfall og gat ekki fengið sig til þess að segja sambýlismanninum frá svörum læknisins. „Ég var miður mín. En þetta er því miður að gerast í auknum mæli bæði hjá konum og körlum sem eru að keyra sig í kaf.“

Ásta, eins úrræðagóð og hún er, ákvað í fyrsta skipti í lengri tíma að hægja á – og varð hugsað til Auðar jógakennara. „Þarna hafði ég misst niður það sem hún kenndi mér. Ef ég fór í jógatíma var það bara inn og út – drífa þetta af.“

Nú reyndi á að tengjast sjálfri sér aftur. „Ég vissi ekki hvernig mér leið. Ég settist aldrei niður og hugsaði út í hvernig mér liði. Þetta hljómar kannski skringilega en ég fór að senda mér sjálfri góða strauma og leyfa mér að bæta á mig, vera ástfangin og tók mér launalaust frí í vinnunni. Ég beindi athyglinni að minni líðan. Ég fór bara að hanga og slaka á.“

Tveimur mánuðum seinna átti Ásta aftur tíma hjá sama lækni. „Hann átti ekki til orð og vildi vita á hvaða lyfjum ég væri. Öll gildi voru orðin eðlileg. Hvað ertu að gera? spurði hann hissa, og svarið var: Ég tók mér frí frá vinnunni. Svar hans við því var einfalt: Þú hættir í dag!“

Ásta var ekki alveg á því að segja upp í vinnunni en varð ólétt stuttu eftir læknisheimsóknina. „Ég fór að vinna minna. Það var erfitt að taka þá ákvörðun og segjast vilja vinna minna en mér fannst það auðveldara af því að ég átti von á barni.“

Ekki þess virði

Hún segir að með hugmyndinni um barn hafi komið að því að hún varð að endurmeta líf sitt. „Ég horfði á vinkonur mínar í Tókýó sem eignuðust barn, fengu svo barnfóstru og fóru beint aftur að vinna. Þær sáu börnin rétt fyrir svefninn – ef þær náðu því. Ég man sérstaklega eftir að hafa verið í heimsókn hjá vinkonu minni sem átti fimm mánaða gamla dóttur sem fagnaði barnfóstrunni þegar hún kom inn í herbergið – eins og hún væri móðirin – og vildi frekar vera hjá barnfóstrunni. Ég fór næstum því að gráta. Ég hugsaði þá að svona yrði aldrei mitt samband við mín börn. Ég ræddi þetta við Bolla sem tók vel í að skoða það að flytja heim þó hann væri með eigið fyrirtæki, Takanawa, í Tókýó.“

Ásta og Bolli fóru heim um jólin 2016 með dóttur sína Margréti sem var tveggja mánaða. „Í þeirri heimsókn bankar Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, upp á hjá mér og spyr hvort það sé ekki kominn tími á að koma heim,“ segir Ásta sem endaði með því að sækja um starf sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og tók við því starfi snemma árs 2017.

Ákvörðunin var þó ekki auðveld. Ég hringdi í góðan vin minn, mikinn fjölskyldukall, hjá McKinsey, sem er minn mentor í Danmörku, lýsti stöðunni og spurði hvort ég ætti ekki að halda mig bara í Japan þar sem mér gekk vel. Hann sagði bara sannleikann: Þetta er ekki þess virði, þú þarft að eiga fjölskyldulíf og það er gott fyrir þig að kynnast íslensku viðskiptalífi.“

Inngróin virðing fyrir körlum

Japan er í 121. sæti hjá World Economic Forum yfir jafnrétti kynjanna en Ísland í fyrsta sæti. Ásta segir muninn á að starfa þar og hér heima vera stórkostlegan. „Konur í Japan eru nánast álitnar annars flokks í heimi viðskipta. Þetta eru tveir ólíkir heimar. Ég var kona af erlendu bergi brotin og hávaxnari en allir Japanarnir þó ég væri ekki í háhæluðum skóm svo að þeir voru almennt frekar hræddir við mig.“

Ef japanskar konur voru á fundum voru þær yfirleitt aðstoðarkonur og höfðu sig ekkert í frammi. „Jafnvel eldklárar konur sem höfðu lært í Harvard eða MIT og starfað í Bandaríkjunum fóru aftur í það að láta lítið á sér bera og ganga fyrir aftan karlmennina þegar þær komu aftur til Japans. Þar er inngróin virðing fyrir karlmönnum.“

Ásta segir að Japanir vinni þó hart að því að auka jafnrétti kynjanna og fá fleiri konur í viðskiptalífið. „Ég tók þátt í fjölda verkefna þar sem sneru að því. Ég vann til dæmis verkefni fyrir Toyota. Það þurfti að benda stjórnendum Toyota á að stór hluti þeirra sem taka ákvörðunina um að kaupa heimilisbílinn sé konur – og að það séu engar konur í stjórnendateymi Toyota. Þeir bara kveiktu ekki á því.“

Ásta segir að það sé mun meira rými á Íslandi til þess að eiga heilbrigt líf, vinna minna og vera meira með fjölskyldunni. „Það ýtir líka undir að leikskólar eru með stuttan opnunartíma,“ segir Ásta og vísar í leikskóla barna sinna sem er lokað klukkan 16 en í Tókýó er hægt að vera með börn í leikskóla langt fram á kvöld.

Þrettán mínútur á dag Ásta tók sem áður segir nýverið við sem framkvæmdastjóri Krónunnar á miklum umbrotatímum í íslensku atvinnulífi. „Ég þekkti til fyrirtækisins og forstjórans, Eggerts Þórs Kristóferssonar, leist vel á hvort tveggja og ákvað að sækja um. Það skiptir máli að gera það sem hægt er til að styðja við betri matarvenjur og auðvelda fólki lífið. Líf nútímafólks gerir miklar kröfur og tíminn er dýrmætur. Í USA er talað um að „millenials“ verji um það bil 13 mínútum í matseld á dag að meðaltali. Við höfum ekki tíma til að elda allt alltaf frá grunni og því þarf að tryggja aðgengi að næringarríkum hálftilbúnum réttum og veita fólki val um að panta vörur eða versla sjálft.“

Gott aðgengi að vörum á réttu verði sé þó ekki allt heldur þurfi líka að tryggja rétta starfsfólkið. Í gegnum stjórnarsetu sína í HR hefur hún fylgst náið með menntamálum og er hugsi yfir of mikilli einsleitni í menntaáherslum hérlendis og skorti á að starfsreynsla sé metin að verðleikum. „Verslunarstjóri í matvöruverslun er oft með veltu sem samsvarar veltu meðalstórs fyrirtækis á Íslandi en hans starf er ekki metið að verðleikum og jafnvel talað niður sem starf. Þetta er svo mikill reginmisskilningur. Þetta eru geysimikilvæg störf. Annað dæmi er að góður vinur minn í Danmörku fór að læra það að vera afgreiðslumaður í herrafataverslun. Hann fór í stutt iðnnám og lærði um efni, stíliseringu, snið, útstillingar, afgreiðslu. Mér fannst þetta svo aðdáunarvert. Hann var einn besti sölumaður sem ég veit um og var stoltur í sínu starfi. Svona starfsmenntun er ekki til á Íslandi. Hér er þér bara hent á bak við kassa eða borð og látinn bjarga þér. Mér finnst svo mikil synd að við séum ekki að lyfta fleiri störfum upp að þessu leyti. Ég vil gjarnan beita mér fyrir því.“

Ásta bendir á að það vanti fjölbreytni í námsleiðum bæði í framhalds- og háskólum, of margir séu að mennta sig í því sama. „Það er líka þessi ofuráhersla á stjórnunarstörf þegar það eru sérfræðistörfin sem skapa svo mikil verðmæti. Ef einhver sérfræðingur skarar fram úr er hann verðlaunaður með stjórnunarstöðu og hættir í raun að gera það sem hann er bestur í.“

Að láta í sér heyra Aðspurð um hvað hafi hjálpað henni mest í að ná árangri í starfi svarar hún: „Það sem ég lærði í grunninn, heima, að mitt álit skiptir máli og mikilvægi þess að hafa eitthvað til málanna að leggja. Það er svo mikið til í því sem Sheryl Sandberg segir í bókinni Lean in – það skiptir svo miklu máli að „halla sér að borðinu“ og láta heyra í sér. Ef þú lætur ekki í þér heyra strax í byrjun fundar, þá ertu að koma of seint inn í umræðuna. Þú þarft að taka þátt fljótt, láta vita að þú hafir áhuga og sért að hlusta – og þurfa ekki alltaf að vera sammála. Konur kvarta oft undan því, og með réttu, að erfiðara sé fyrir þær en karla að ná athygli á fundum. Í því samhengi skipti sköpum að vera vel undirbúin. “

Ævintýri Ástu voru flestöll óplönuð og þar kemur hugrekki sterkt inn. „Það þarf stundum að láta lífið leiða sig áfram og þora að grípa ólíklegustu tækifærin sem maður er ekkert endilega viss um að séu rétta skrefið eða muni færa manni akkúrat einhvern fullkominn stað, enda er fullkomnunarárátta bölvun sem herjar á okkar kynslóðir,“ segir Ásta sem sjálf hefði líklega aldrei séð hamingjuna fyrir í gömlum skólabróður, íslenskri matvöruverslun og tveimur brosandi uppátækjasömum börnum – og vonandi brúðkaupi í sumar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Sýknaður af ákæru um áreitni eftir óþægilega kvöldgöngu – „Sorry I like you so much“

Sýknaður af ákæru um áreitni eftir óþægilega kvöldgöngu – „Sorry I like you so much“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Viðamikil lögregluaðgerð í Kópavogi í dag vekur spurningar

Viðamikil lögregluaðgerð í Kópavogi í dag vekur spurningar
Fréttir
Í gær

Gunnar Bragi spyr hvort það megi vísa Reebar Abdi úr landi – „Skyldi hann vera búinn að fá ríkisborgararétt“

Gunnar Bragi spyr hvort það megi vísa Reebar Abdi úr landi – „Skyldi hann vera búinn að fá ríkisborgararétt“
Fréttir
Í gær

Telur að lögregla saumi að sakborningum – Játning eða yfirgnæfandi sönnunargögn munu opna málið upp á gátt

Telur að lögregla saumi að sakborningum – Játning eða yfirgnæfandi sönnunargögn munu opna málið upp á gátt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rauðagerðismorðið: Fimmmenningarnir áfram í gæsluvarðhaldi

Rauðagerðismorðið: Fimmmenningarnir áfram í gæsluvarðhaldi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

58 skjálftar þrír á stærð eða meira – 669 skjálftar í heildina

58 skjálftar þrír á stærð eða meira – 669 skjálftar í heildina