Starfsmaður við Skarðshlíðarskóla í Hafnarfirði er grunaður um kynferðisbrot gegn barni samkvæmt heimildum fréttastofu Vísis. Honum hefur nú verið sagt upp störfum.
Ingibjörg Magnúsdóttir, skólastjóri Skarðshlíðarskóla, sendi tölvupóst til foreldra og forráðamanna nemenda í 1. – 9. bekk skólans um málið. Þar kemur fram að lögregla fari með rannsókn málsins með hliðsjón af starfi og stöðu starfsmannsins. Hafði hún eftir lögreglu að ekki sé grunur um að starfsmaðurinn hafi brotið af sér innan veggja skólans eða í skólastarfi á vegum skólans.
Hún tekur jafnframt fram að verkferlar innan skólans hafi verið yfirfarnir. Starfsmanninum hafi verið sagt upp og muni ekki snúa aftur til starfa.