fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Vika frá blóðugum óeirðum í þinghúsinu – 170 Trump-liðar ákærðir og forsetinn einangraður og vinalaus

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 13. janúar 2021 11:30

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Jafnvel þó þú hafir sloppið frá D.C., gætu fulltrúar FBI á þínum heimaslóðum bankað á dyr ykkar ef við komumst að því að þú varst viðriðin óeirðirnar,“ segir Steven M. D’Antuono, aðstoðarforstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI í samtali við Fox News. „Fulltrúar FBI munu velta við hverjum steini í þessari rannsókn.“

FBI óskaði í síðustu viku eftir aðstoð frá almenningi við að nafngreina þúsundir manna sem náðust á myndir og myndbönd við að ryðjast inn í þinghúsið á miðvikudaginn í síðustu viku. Þúsundir hafa nú verið nafngreindir, í mörgum tilfellum með aðstoð almennings. Margir þeirra hafa nú misst vinnuna. 170 hafa verið ákærðir. Samkvæmt D’Antuono eru allar 56 skrifstofur FBI um öll Bandaríkin nú að vinna sig í gegnum yfir eitt hundrað þúsund myndir og myndbönd í von um að nafngreina fleiri ofbeldismenn og ákæra þá. Fimm létust í óeirðunum, þar á meðal einn lögreglumaður.

Þá eru hótanir í kjölfar óeirðanna til rannsóknar. Þar á meðal einn sem hringdi í þingmann Demókrata í fulltrúadeildinni og hótaði honum lífláti, kallaði hann tík og fleira. Samtalið var birt í heild sinni á vefsíðu CNN.

Enn fremur hefur löggæsla verið stórkostlega efld í Washingtonborg. Hvíta húsið og þinghúsið eru nú víggirt og lögregla, grá fyrir járnum, hvert sem augað eygir í þeim hluta borgarinnar.

Trump vinalaus og einangraður

Á meðan hans dyggustu stuðningsmenn eru eltir af FBI glímir Trump við sín eigin vandamál í Washington. Trump er nú sagður hafa einangrað sig frá ráðgjöfum sínum, þeim fáu sem enn mæta í vinnuna. Fjölmargir starfsmenn Hvíta hússins eru sagðir hafa hætt að mæta í vinnuna eða sagt upp störfum sínum. Þeirra á meðal er starfsmannastjóri og fjölmiðlafulltrúi Melaniu Trump, sem eitt sinn var innsti koppur í búri Trumps, hinum megin í Hvíta húsinu.

Um tíma virtist framtíð Trumps í embætti í höndum Mike Pence, sem Trump hafði úthúðað sem svikara aðeins örfáum dögum fyrr. Fulltrúadeild þingsins hafði þá krafist þess af Pence í ályktun sinni að Pence virkjaði hinn svokallaða 25. viðauka stjórnarskrárinnar. Sú grein heimilar varaforsetanum og meirihluta 15 manna hóp ráðherra að setja forsetann af vegna andlegra eða líkamlegra kvilla sem gera forsetanum ókleift að sinna embættisskyldum sínum. Pence sagði í gær að hann myndi ekki verða við kröfu fulltrúadeildarinnar.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, hafði sagt að yrði Pence ekki við kröfunni myndi hún beita sér fyrir því að hann yrði ákærður af fulltrúadeildinni til embættismissis.

Ákæruferlið virkar svo að þingmaður, einn eða fleiri, leggja fram frumvarp um ákæru í neðri deildinni sem er svo kosið um. Ef frumvarpið er samþykkt er komin formleg ákæra sem efri deildin fjallar svo um eins og dómstóll myndi fjalla um ákæru saksóknara í sakamáli. Trump hefði þá lögmenn sína sér til varnar í málinu. Þetta ferli hefur átt sér stað þrisvar sinnum í bandarískri sögu. Einu sinni á 19. öldinni, einu sinni árið 1996 þegar Bill Clinton var ákærður fyrir að segja ósatt í tengslum við Lewinsky hneykslið, og svo 2019 þegar Trump var ákærður fyrir óeðlileg samskipti sín við stjórnvöld í Úkraínu. Sú ákæra var til umfjöllunar fyrir réttu ári síðan í efri deildinni. Efri deildin þarf svo að samþykkja að sakfella forsetann með 2/3 meirihluta í atkvæðagreiðslu.

Verði Trump ákærður nú verður hann fyrsti einstaklingurinn til þess að verða ákærður til embættismissis tvisvar, og það á 13 mánuðum tæpum.

Vonir Demókrata glæðast

Framhaldið er talið muni skýrast seinna í dag. Ætli Pelosi sér að gera heiðarlega tilraun til þess að ná Trump úr embætti áður en kjörtímabil hans rennur út eftir viku verður hún að hafa hraðar hendur og sannfæra talsverðan fjölda þingmanna Repúblikana í efri deildinni um að spila með.

Demókratar hafa ennþá meirihluta í efri deildinni, og munu hafa hann til 20. janúar þegar Georgía staðfestir kjör tveggja Demókrata í bæði sæti ríkisins. Þá verður staðan 50/50 í efri deildinni. Þangað til þá hafa Repúblikanar nauman meirihluta, og munu því Demókratar þurfa að sækja allt að 19 atkvæði Repúblikana til þess að sakfella Trump ef þau ætla að ná að klára ákæruferlið á þessu kjörtímabili. Hingað til hefur þetta verið talið ógerlegt, en vonir Demókrata glæddust duglega seint í gærkvöldi í Washington, þegar fréttir bárust af því að Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í efri deildinni, væri sagður hafa tjáð kollegum sínum að honum hugnaðist ákæruferlið vel. Er McConnell sagður hafa lýst því að embættismissir Trumps myndi flýta fyrir því að hreinsa Trump út úr Repúblikanaflokknum og gefa honum tækifæri til þess að halda áfram laus við draug Trumps hangandi yfir sér inn í kosningarnar 2022 og 2024.

Annar vinkill á þessari umræðu er sá að takist Pelosi ekki að klára ákæruferlið yfir Trump á þessu kjörtímabili muni hún hafa pólitískan grundvöll til þess að koma í veg fyrir að Trump bjóði sig fram aftur árið 2024. Til þess þarf aðeins einfaldan meirihluta þingmanna í báðum deildum þingsins. Það er nokkuð sem Demókratar munu hafa úr að spila frá og með 20. janúar. Demókratar munu því stjórna báðum deildum þingsins næstu tvö ár hið minnsta. Repúblikönum gætu einnig hugnast þessi lending þokkalega, þ.e. að hann klári kjörtímabilið en að honum verði svo meinað að bjóða sig fram aftur. Þingmenn Repúblikana eru þó meðvitaðir um að Donald Trump fékk 74 milljón atkvæða í síðustu kosningum, og munu ekki vilja styggja þá kjósendur. Þeir vilja hins vegar ekki þurfa að glíma við afskipti Trumps af stjórnmálunum næstu fjögur ár og fá hann svo inn í forkosningaferlið með tilheyrandi ófriði 2023/2024. Þannig gætu þeir mótmælt tillögu Demókrata um að meina Trump að bjóða sig fram aftur árið 2024 opinberlega, en í hljóði leyft tillögunni að fljóta í gegnum þingið án atkvæða nokkurra Repúblikana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Úkraínskir hobbýdrónar gera rándýrum rússneskum skriðdrekum lífið leitt

Úkraínskir hobbýdrónar gera rándýrum rússneskum skriðdrekum lífið leitt
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks