Reikningur var nýlega stofnaður á Facebook sem virðist settur upp til háðungar athafnamanninum Antoni Kristni Þórarinssyni. Anton hefur verið í fréttum undanfarið vegna þess að trúnaðargögn frá lögreglu og héraðssaksóknara sem lekið var fyrir síðustu helgi til fjölmiðla og á nokkur vefsvæði leiða í ljós að hann var um árabil uppljóstrari lögreglunnar varðandi fíkniefnaafbrot. Svo virðist sem óvinir Antons, eða í það minnsta menn sem telja sig eiga sökótt við hann, hafi lekið gögnunum.
Gögnin hafa jafnframt verið birt á vefnum Reddit og ekki tekin niður þar. Á öðrum vefsvæðum þar sem þau hafa verið birt eru tenglarnir á þau ekki lengur virkir.
Notandinn á háðungarsíðunni á Facebook ber heitið Toni King Iceland. Rottumyndirnar eru orðaleikur og vísa til þess að í ensku talmáli eru þeir sem kjafta frá kallaðir rottur. Orðaleikurinn gegnsýnir „upplýsingar“ um þennan Facebook-notanda. Starf hans er sagt vera „RAT at Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu“. Hann er sagður hafa stundað nám í „Ratatoiulle“ og búa í Rotterdam í Hollandi.