fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Fleiri sögur um meint ofbeldi á Stuðlum – „Hann er búinn að ganga í skrokk á svo mörgum“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 8. september 2021 14:00

Sævar Torfason er fyrrverandi skjólstæðingur Stuðla og segist einnig hafa orðið fyrir ofbeldi þar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fleiri aðilar sem dvöldust á meðferðarstöðinni Stuðlum hafa stigið fram og lýst slæmri upplifun sinni í kjölfar þess að DV fjallaði um sögu Sigrúnar Hannibalsdóttur sem steig fram og sakaði starfsmenn Stuðla um ofbeldi þegar hún var vistuð þar inni á árunum 2010-2012.

Sigrún var vistum um fjörutíu sinnum á neyðarvistun meðferðarheimilisins þegar hún var 15-17 ára vegna erfiðra heimilisaðstæðna. Á Stuðlum sagðist Sigrún hafa bæði orðið vitni að ofbeldi og orðið fyrir miklu og grófu ofbeldi af hálfu starfsmanna. Í samtali við DV segist Sigrún ætla að kæra Stuðla vegna ofbeldisins og óskar eftir að aðrir þolendur hafi samband við hana.

Í fréttinni ræddi DV við  forstöðumann Stuðla, Funa Sigurðsson, sem sagðist líta málið alvarlegum augum og hann væri að fara á fund með starfsmönnum ráðuneytisins vegna þessa.

Sami starfsmaður ítrekað bendlaður við ofbeldi

Sigrún nafngreindi enga aðila í færslunni en deildi einu nafni með blaðamanni DV sem spurði Funa hvort sá starfsmaður væri enn starfandi á meðferðarheimilinu. Funi sagðist ekki vera viss hvort hann gæti svarað því af persónuverndarástæðum. Hann sagðist ætla að athuga málið.

Undanfarna daga hefur DV borist fleiri sögur um meint ofbeldi af hálfu starfsmanna Stuðla, þá sérstaklega af hálfu starfsmannsins sem Sigrún minntist á. Í kjölfarið hafði blaðamaður aftur samband við Funa sem sagði að honum hefur borist ein kvörtun vegna ofbeldis starfsmanns síðan hann tók við sem forstöðumaður fyrir sex árum. Hann gat þó ekki tjáð sig um einstök mál og sagði að einstök mál yrðu ekki skoðuð með ráðuneytinu, heldur „erum við að skoða þetta á almennum nótum.“

Endaði með heilahristing eftir barsmíðar

Ung kona hafði samband við Sigrúnu í kjölfar fréttar DV um málið. Hún gaf Sigrúnu leyfi til að deila sögu sinni áfram með blaðamanni. Konan var á Stuðlum í febrúar til maí á þessu ári og segist hafa verið með tveimur öðrum stelpum á neyðarvistun.

„Önnur stelpan var það illa lamin eftir neyðarvistunarstarfsmann sem vann á næturnar að hún fékk heilahristing og það var komið ógeðslega fram við hina. Hún var dregin á göngunum á hárinu og lamin rækilega þegar hún svaraði fyrir sig. Þannig þetta er ennþá að viðgangast og hefur ekkert breyst, sérstaklega ekki á neyðarvistun,“ segir konan og bætir við að stúlkan hefði verið útskrifuð á meðan starfsmaðurinn hélt áfram að vinna.

Konan er að tala um sama starfsmann og Sigrún nefndi á nafn í samtali við blaðamann DV. Hún sagði kærasta sinn einnig hafa orðið fyrir barðinu á umræddum starfsmanni árið 2015. „Hann er búinn að ganga í skrokk á svo mörgum,“ segir hún.

Sævar Torfason. Aðsend mynd,

Á erfitt með að keyra framhjá

Sævar Torfason var vistaður margsinnis á Stuðlum frá 2011-2013. Á þeim tíma segist hann hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanna og einnig orðið vitni að því þegar starfsmenn beittu aðra skjólstæðinga ofbeldi. Vistun hans á Stuðlum hafði mikil áhrif á hann og á hann enn erfitt með að keyra þarna framhjá.

„Ég byrjaði að fara á neyðarvistun þegar ég var fimmtán ára gamall og það var fyrsta skiptið mitt af mörgum. Ég óskaði sjálfur eftir því að fara inn á neyðarvistun því ég var í fóstri og mér leist ekkert á blikuna. Ég var, eins og Sigrún, að flýja heimilisaðstæður,“ segir Sævar.

„Fyrsta sinn sem ég fór inn á neyðarvistun vissi ég ekkert hvað ég var að koma mér út í. Ég hafði verið á meðferðargangi á Stuðlum en ekki búinn að fara á neyðarvistun áður. Þegar ég kom þarna inn var ég settur í þessa klefa. Það eru tveir klefar með járnhurðum og inni á neyðarvistun voru öll húsgögn fest niður, þú fékkst plast diska og hnífapör. Maður var læstur inni allan sólarhringinn og þú fékkst kannski að fara tvisvar út í bíltúr yfir daginn þar sem þú situr aftur í.“

Sævar rifjar upp eitt af skiptunum sem hann fór inn á neyðarvistun. Hann kom þaðan inn beint frá gjörgæslu eftir að hafa reynt að svipta sig lífi. „Ég þurfti að drekka kol og það var búið að segja við mig að ég mætti alls ekki halda inni þvagi né saur. Ég vaknaði upp úr fimm um morguninn og þurfti að fara á klósettið. Þá var starfsmaðurinn á vakt sofandi inni í öðru herbergi sem ég sá inn í og ég þurfti að vekja hann og hann var brjálaður. Hann var alveg galinn að ég hefði vakið hann. En ég þurfti að fara á klósettið. Hann hótaði því að taka af mér sígaretturnar og allt þetta. Við fengum sígarettur á tveggja tíma fresti og það var hápunktur dagsins. Hann var ógeðslega dónalegur og hótaði að læsa mig inni í herbergi.“

Með brotna framtönn í þrjá daga

Sævar rifjar upp annað atvik þegar starfsmaður kýldi hann og braut framtönn.

„Svo í eitt skipti var starfsmaður að stríða mér. Ég vissi ekki hvað hann ætlaði að gera en þetta endaði þannig að hann kýldi mig óvart og braut í mér hálfa framtönnina. Þetta átti að vera eitthvað djók, djókið var alltaf að beita ofbeldi líka. Ég þurfti að vera með hálfa framtönn í 3-4 daga inni á neyðarvistun að reyna að borða, sem er óásættanlegt.“

Sævar viðurkennir að á þessum tíma hafði hann ásamt öðrum skjólstæðingum þar inni lagt eina stelpu í einelti og starfsmennirnir voru að hans sögn meðvitaðir um eineltið en gerðu ekkert í því. „Það sást alveg langar leiðir,“ segir hann.

Sævar Torfason. Aðsend mynd,

Fannst þeim ekki trúað

Sævar segir að hann hefði ekki lagt fram kvörtun á sínum tíma og sá enga ástæðu til þess því hann var viss um að honum yrði ekki trúað. Hann segist ekki vita til þess að einhver annar skjólstæðingur sem var inni á sama tíma og hann hefði lagt fram kvörtun.

„Það var ekki hlustað á okkur. Ég reif bara kjaft. Ég lagði ekki fram kvörtun því það er hvort sem er ekki hlustað á okkur. Við erum bara þarna í geymslu. Það á að vera löngu búið að loka þessum helvítis stað. Ég skil ekki af hverju Laugalandi var lokað því Laugaland bjargaði lífi mínu. En neyðarvistunin er enn starfandi því ríkið vill að það starfi,“ segir hann.

Sævar segir að honum hefði ekki verið boðin sálfræðiaðstoð þarna inni. „Við sem komum þarna inn erum að koma úr mismunandi aðstæðum. Við erum skemmd og illa fyrir kölluð en það er horft á okkur eins og rusl. Maður fer að upplifa sig sem rusl og finna fyrir því þarna inni.“

Umræddi starfsmaðurinn

Sævar segir að sami starfsmaður og DV hefur borist fleiri ábendingar um hefði einnig beitt hann ofbeldi. „Hann sneri mig alveg niður og henti mér í „timeout“ og svona,“ segir hann.

Sævar segir að þessi starfsmaður hefði ekki verið sá eini sem beitti hann ofbeldi, heldur „einn af þeim.“ Hann segist einnig hafa orðið vitni af því að starfsmenn beittu aðra skjólstæðinga ofbeldi. „Það fer ekkert á milli mála. Þetta er svo lítil stofnun, maður heyrir allt og sér allt,“ segir hann.

„Ég skil ekki af hverju þessi maður er starfandi og Stuðlar vita alveg upp á sig sökina. Þau vita alveg hvað þau eru að gera rangt, en það er bara horft framhjá þessu og ríkisstjórnin líka.“

Funi Sigurðsson, forstöðumaður Stuðla. Myndabanki Torgs.

Hefur borist kvörtun um ofbeldi

DV hafði aftur samband við Funa til að ræða þessar nýju ásakanir.

Hafa ásakanir um ofbeldi starfsmanna komið á þitt borð síðan þú tókst við?

„Það hafa komið kvartanir. Þá fara þær í ákveðið ferli ef það er kvartað. Það getur verið kvartað fyrir hverju sem er. Aðbúnaði eða að fá ekki sígó eða eitthvað, getur verið allt mögulegt. Og ég hef fengið eitthvað af kvörtunum á mitt borð síðan ég byrjaði,“ segir Funi.

En hefurðu fengið kvartanir um ofbeldi starfsmanna?

„Já, ég hef fengið kvörtun um það.“

Og hvernig er tekið á því?

„Ef það er kvörtun yfirhöfuð þá gerum við kvörtunina með börnunum, hjálpum þeim að gera kvörtunina. Einhver annar en sá sem er verið að kvarta yfir. Við bjóðum að hjálpa þeim eða þau gera það sjálf. Kvörtunin fer síðan frá okkur niður á Barnaverndarstofu. Þeir hafa eftirlitshlutverk og skoða kvörtunina, taka viðtal við barnið, taka viðtal við foreldra og svo framvegis. Og svo komast þeir að einhverri niðurstöðu. Það er ferlið. Svo er líka utanaðkomandi eftirlit sem skoðar líka kvartanirnar og vinnslu Barnaverndarstofu og okkar, Stuðla.“

En eins og ef skjólstæðingur kvartar undan ofbeldi af hálfu starfsmanns, er starfsmaðurinn tekinn strax af vakt eða þarf skjólstæðingur að umgangast umræddan starfsmann á meðan málið er í ferli?

„Við reynum að hlífa barninu. Ef það væri eitthvað sem væri „clear cut“ og það er ekkert svoleiðis dæmi sem ég hef frá því að ég byrjaði hérna, en ef það er eitthvað „clear cut“ þá gætum við sent starfsmann í leyfi. Ef það eru þannig að það eru ósætti milli starfsmanns og barns útaf einhverju þá reynum við að leysa það með einhvers konar sáttafundi svo fólk geti lifað saman. Ef það er ekki hægt þá reynum við að hlífa barninu með því að þurfa ekki að vera nálægt þessum tiltekna starfsmanni,“ segir Funi.

Getur ekki tjáð sig um einstök mál

Okkur hafa borist fleiri sögur um sama starfsmann, meðal annars um að hann hafi beitt skjólstæðing ofbeldi í febrúar-maí á þessu ári með þeim afleiðingum að viðkomandi fékk heilahristing. Er það eitthvað sem þú hefur orðið var við?

„Eins og ég segi, ég má ekki tjá mig um einstök mál. Ég get eiginlega ekkert sagt neitt um það, get bara svarað á almennum nótum.“

Einnig hefur okkur borist ásökun um að hann beitti annan skjólstæðing ofbeldi árið 2015. Þannig maður spyr sig hvernig stendur á því að maður sem er sagður hafa beitt skjólstæðinga ofbeldi svona lengi (2010-2021) sé enn starfandi? Hefur engin kvörtun borist vegna hans?  Hafa engar grunsemdir vaknað, t.d. ef skjólstæðingur er með glóðaraugu eða illa farinn eftir barsmíðar? Er það litið á sem ósætti?

„Nei alls ekki. Ef það eru áverkar þá er það alveg skýrt. Sama hvernig það væri. Ef það er eitthvað svoleiðis sem kemur upp þá að sjálfsögðu bregðumst við við því. Við setjum bara þau mál í þann farveg sem ég sagði áðan, ef eitthvað kemur upp á. Við lítum ekkert á það sem léttvægt.“

Kemur oft upp ósætti á milli starfsmanna og skjólstæðinga?

„Nú skulum við tala um þetta aðeins. Hingað koma skjólstæðingar í mjög mismunandi ástandi og margir hverjir í rosalega slæmu ástandi ef við tölum um neyðarvistun. Bara mikið vímaðir og jafnvel mjög aggresífir og í mjög slæmu jafnvægi. Það er algengt að við þurfum að takast á við erfiða hegðun. Átök hér eru mjög fátíð. Að þurfa að beita líkamlegri þvingun. Þegar það er beitt líkamlegri þvingun þá eru ákveðnar reglur sem við förum eftir í og ákveðið ferli sem fer í gang ef það þarf að gera slíkt. En það er mjög sjaldgæft að það þurfi að beita líkamlegri þvingun. En ósætti, þar sem skjólstæðingar svívirða starfsfólk eða hóta því eða er með dónaskap eða ógnanir er bara mjög algengt.“

„Starfsfólkið er þjálfað í því að reyna að draga úr allri stigmagnandi aðstæðum og reyna að koma í veg fyrir að það þurfi að beita líkamlegri þvingun, það hefur enginn ánægju af því. Það finnst öllum það glatað þegar það þarf að beita slíku.“

Funda með ráðuneytinu

DV spurði hvort að títtnefndur starfsmaður verði eitthvað sérstaklega skoðaður þegar málið verður skoðað með ráðuneytinu.

„Ég er að fara á fund með ráðuneytinu til að fara yfir hvort það þurfi að bregðast eitthvað sérstaklega við þessu á einhvern annan hátt en hefur verið gert, hvort það sé eitthvað sem við þurfum að laga. Það er náttúrulega eftirlit með okkur og það má líka skoða það hvort það þurfi að bæta það. Við verjum starfsfólk. Það er mjög erfitt að fá á sig ásakanir um ofbeldi og slíkt. Þannig við erum að reyna að finna út einhverja leið. Það er umræðan á þessum fundi með ráðuneytinu, að reyna að finna út er eitthvað sem við þurfum að gera öðruvísi. Og bregðast við. Bregðast við hlutum sem hafa aldrei komið inn á okkar borð sem koma fram einhvers staðar allt annars staðar og er algjörlega nýtt fyrir okkur,“ segir Funi.

„Við erum ekki að fara að skoða einstakt mál. Við erum að skoða þetta á almennum nótum og það kviknar út frá þessari Facebook-færslu,“ segir hann og er þá að vísa í færslu Sigrúnar Hannibalsdóttur í Facebook-hópnum Mæðra Tips sem fjallað var um fyrr í vikunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”