fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Vilja ókeypis tíðavörur í MH – „Það þarf í rauninni að borga fyrir að vera kona“

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 14. mars 2021 19:30

Hulda Biering og Birta Laufey Thorarensen berjast fyrir því að fá ókeypis tíðavörur í Menntaskólann við Hamrahlíð. MYND/VALLI

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tvær stúlkur í MH krefjast þess að skólinn sýni fólki sem fer á blæðingar þá virðingu að bjóða upp á ókeypis tíðavörur. Þær segja mikilvægt að umræða um blæðingar sé opin.

Vinkonurnar Birta Laufey Thorarensen og Hulda Biering eru á fyrsta ári í Menntaskólanum við Hamrahlíð og hafa þær þegar látið til sín taka í réttindabaráttu innan skólans. Birtu og Huldu misbauð að engar tíðavörur á borð við dömubindi og túrtappa væru aðgengilegar gjaldfrjálst fyrir nemendur og hafa nú lagt fram formlega ósk þess efnis.

„Það voru tíðavörur hér en þær voru rosalega lélegar, þetta voru svona þunn innlegg sem blæðir strax í gegn um. Kassinn var síðan nánast alltaf tómur og maður þurfti þá að fara upp á skrifstofu,“ segir Birta.

Hulda segir það mjög hallærislegt og að auðvitað eigi tíðavörur að vera til staðar á baðherberginu. „Þegar þessi þunnu „panty liners“ voru til staðar þurfti vinkona okkar einu sinni að fara heim því þetta var svo lélegt,“ segir hún.

Þá segjast þær hafa orðið sérstaklega hissa á að þetta væri staðan í MH. „Ég er svo vonsvikin því þetta er femínískur skóli og maður hefði haldið að hann væri framar í jafnréttismálum en þetta,“ segir Hulda.

Könnuðu hug samnemenda

Þær fengu síðan þá hugmynd að kanna vilja samnemenda sinna og á þriðjudag deildu þær spurningalista í Facebook-hópi nemenda skólans.

„Á fyrstu tveimur mínútunum fengum við 35 svör,“ segir Birta en þegar þessar línur voru skrifaðar höfðu 266 svarað spurningalistanum. Þar af sögðust tæp 90 prósent svarenda fara á blæðingar. Nánast allir svöruðu játandi að það vantaði tíðavörur á baðherbergin og þar tilgreindu sumir sérstaklega að það vantaði stærri dömubindi. Þá voru aðeins tveir svarendur ósammála því að tíðavörur ættu að vera aðgengilegar fyrir alla.

Eftir að þær birtu spurningalistann var þeim síðan bent á að taka málið upp við Nemendafélag MH og hafa þær þegar fengið svar um að félagið ætli að funda um málið.

Hulda Biering og Birta Laufey Thorarensen. Mynd/Valli

Enn of mikið tabú

Hulda segir að það ætti að vera sjálfsagt mál að boðið sé upp á tíðavörur bæði í skólum og á vinnustöðum, og bendir á hvað það sé undarlegt hversu dýrar þessar vörur séu. Þá eru aðeins tæp tvö ár síðan virðisaukaskattur á tíðavörur og getnaðarvarnir var lækkaður úr 24% í 11%.

„Það þarf í rauninni að borga fyrir að vera kona,“ segir Birta.

Þær segja mikilvægt að umræða um blæðingar sé opin enda fari helmingur mannkyns á túr og hafi ekkert val um það.

„Auðvitað ætti ekki að vera mikið mál að tala um þetta. Ég held að það hafi bara slæmar afleiðingar ef maður skammast sín of mikið til að tala um líkamann sinn,“ segir Hulda.

Birta segist í upphafi ekki hafa þorað að tala um blæðingar. „Ég man fyrst þegar ég byrjaði, svona tólf ára, þá þorði ég ekki að segja neinum frá því í þrjá eða fjóra daga. Ég sagði ekki einu sinni mömmu,“ segir hún.

Hulda bendir á að það eigi ekki að gera þeim sem fara á túr erfiðara fyrir. „Ég man eftir því að hafa ekki verið með neitt og þurft að rúlla upp klósettpappír til að nota. Það er betra ef maður kemst hjá því.“

Þá segja þær líka að það skipti máli fyrir trans stráka að hafa aðgang að tíðavörum á baðherbergi skólans. „Ef það þarf að biðja um tíðavörur á skrifstofunni þurfa þeir kannski að koma út úr skápnum fyrir einhverju ókunnugu fólki bara til að fá túrtappa,“ segir Birta.

Fellt á Alþingi

Í desember síðastliðnum lagði Andrés Ingi Jónsson, þá þingmaður utan flokka en nú þingmaður Pírata, fram breytingatillögu við fjárlagafrumvarp þar sem hann lagði til að 280 milljónir yrðu eyrnamerktar til að gera tíðavörur aðgengilegar fyrir ákveðna hópa án endurgjalds.

Hann lagði til að öllum nemendum væri tryggt aðgengi að tíðavörum án endurgjalds í grunn- og framhaldsskólum, og svo að lágtekjufólki væri gert kleift að nálgast tíðavörur án endurgjalds, til dæmis á heilsugæslustöðvum eða í gegnum félagsþjónustu.

Tillagan var felld með 27 atkvæðum gegn 26 en tíu þingmenn voru fjarverandi atkvæðagreiðslu. Meðal þeirra sem sögðu nei voru stjórnarþingmennirnir og ráðherrarnir Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Bjarni Benediktsson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Sex dögum seinna skrifuðu fjórar stúlkur á aldrinum 1418 ára opið bréf til Lilju Daggar sem birt var á Vísi þar sem þær lýstu yfir vonbrigðum sínum með að málið hefði verið fellt á þingi.

Stúlkurnar, þær Anna María Allawawi Sonde, Hekla Rist, Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir og Saga María Sæþórsdóttir, skoruðu síðan á Lilju Dögg að taka málið upp við fjárlaganefnd „…og hjálpa nefndinni að útfæra hugmyndir Andrésar Inga fyrir fólk í grunn- og framhaldsskólum áður en þingið klárar fjárlög fyrir næsta ár.“

Raunhæft í lok vorannar

Tveimur dögum eftir það sagði Lilja Dögg á þingi í umræðum um fjárlög að hún vildi í samvinnu við formann fjárlaganefndar upplýsa að tillaga um að gjaldfrjálsar tíðavörur séu tryggðar í skólakerfinu sé komin í farveg í ráðuneyti hennar. „Ég tel að það sé bæði sanngjarnt og réttlátt að aðgengi að tíðavörum sé gjaldfrjálst í skólakerfinu. Ég hef þegar beint því til skólameistara að tryggja framgang málsins. Ýmsir framhaldsskólar bjóða nú þegar upp á gjaldfrjálst aðgengi að tíðavörum. Ég tel að raunhæft sé að í lok næstu skólaannar verði búið að klára málið,“ sagði Lilja í ræðu sinni.

Vika er síðan DV sendi mennta- og menningamálaráðuneytinu fyrirspurn um hvar þetta mál sé statt. Svör verða birt þegar þau berast.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Alræmdur glæpamaður laus undan bagga fortíðar í augum dómara -„Ég skal berja og lemja þig alveg eins og harðfisk“

Alræmdur glæpamaður laus undan bagga fortíðar í augum dómara -„Ég skal berja og lemja þig alveg eins og harðfisk“
Fréttir
Í gær

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla
Fréttir
Í gær

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks
Fréttir
Í gær

Vilja sporna gegn því að fullorðnir einstaklingar nýti sér glufur í lögum til að hafa samræði við börn

Vilja sporna gegn því að fullorðnir einstaklingar nýti sér glufur í lögum til að hafa samræði við börn
Fréttir
Í gær

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“