fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Margrét svarar umdeildri grein Önnu Karenar um BLM – „Vel þekkt aðferð að ráðast á persónur frekar en raunveruleg málefni“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 29. september 2020 11:15

Margrét Valdimarsdóttir (t.v.) og Anna Karen Jónsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún fjallar um Black Lives Matter (BLM) hreyfinguna og svarar að einhverju leyti afar umdeildri grein Önnu Karenar Jónsdóttur í síðustu viku.

Anna Karen viðraði miklar efasemdir um framgöngu BLM hreyfingarinnar og var hún gagnrýnd fyrir rasisma á samfélagsmiðlum vegna skrifa sinna. Meðal umdeildra punkta í greininni eru eftirfarandi:

„Það liggur augum uppi að þessi hreyfing er gerð til að eyðileggja vestræn gildi og vestræn samfélög.“

„Hvíti kynstofninn ber ekki ábyrgð á fjárhagsstöðu svarta mannsins og efnahagsleg staða fólks réttlætir hvorki rán, morð né nauðganir. Sama hvaða kynstofn fremur glæpinn.“

„Hreyfingin snýst ekki um rasisma heldur pólitísk völd. Ef þú brennir fyrirtæki, lemur, drepur eða nauðgar öðru fólki og gjörsamlega rúsar heilu borgunum, ertu þá ekki hryðjuverkamaður?

Fólkið sem gagnrýnir nasista Hitlers er á sama tíma búið að lýsa yfir stuðningi við samtökin á samfélagsmiðlum.“

Ráðist á persónur frekar en að ræða málefni

Margrét gagnrýnir þá aðferð í umræðu um BLM að ógilda baráttu samtakanna með því að benda á framgöngu einstaklinga:

„Ein leið sem hefur verið farin til að draga úr réttmæti BLM hreyfingarinnar er að benda á að aðilar sem hafa sagt eða gert eitthvað í nafni BLM hafi gerst sekir um afbrot og þar með sé ekki mark takandi á því sem mótmælt er. Það er vel þekkt aðferð að ráðast á persónur frekar en raunveruleg málefni. Yfirleitt notar fólk þessa aðferð vegna þess að það er auðveldara heldur en að ræða málefni, sem geta verið flókin og margþætt.“

Margrét bendir á að BLM sé fjöldahreyfing skipuð mjög fjölbreyttum hópi fólks. „Þetta fólk á það sameiginlegt að vilja berjast gegn kynþáttamismunun. Sérstaklega gegn
mismunun og harðræði sem svart fólk verður fyrir af hendi lögreglunnar. Að öðru leyti á fólkið sem tekur þátt í hreyfingunni ekki endilega mikið sameiginlegt.“

Margrét segir að niðurstöður fjölþættra rannsókna gefi sterka vísbendingu um að almennt þurfi minna til að svartir séu handteknir en hvítir og hinir svörtu séu frekar beittir harðræði af hálfu lögreglunnar. Hún segir síðan:

„Ástæður þess að svörtum Bandaríkjamönnum er mismunað af hendi lögreglu eru margþættar. Ein tengist staðalmyndum af svörtu fólki sem hættulegra en annað fólk (sbr. kynþáttafordómar). Margir hafa svipaðar staðalmyndir um fátækt fólk og fólk sem býr í hverfum þar sem margir íbúar eru svartir.“

Margrét fer vítt yfir sviðið og ræðir fullyrðingar á borð við þær að svartir fremji fleiri afbrot en hvítir. Hún segir andstæðingar BLM ýki þann veruleika en viðurkennir að hlutfall svartra afbrotamanna kunni að vera hærra. Ein helsta ástæðan sé sú að hlutfallslega fleiri svartir búi í fátækrahverfum. Hún segir síðan:

„En af hverju býr hærra hlutfall svartra í slíkum hverfum? Flestar rannsóknir benda til þess að löng saga af skertum tækifærum til menntunar og atvinnu sé þar stór þáttur. Margra kynslóða mismunun hefur jafnframt áhrif á sjálfsmynd og væntingar fólks til menntunar og atvinnu.“

Anna Karen viðraði gagnrýni á kröfur sumra innan BLM-hreyfingarinnar um affjármögnun lögreglunnar. Margrét stígur inn í þá umræðu og segir að fáir Bandaríkjamenn vilji í raun leggja niður lögregluna:

„Skortur á félagslegri aðstoð tengist beint kröfu margra mótmælenda um að draga úr fjármagni lögreglu. Margir líta svo á að ef dregið er úr fjármagni lögreglu verði til peningar til að setja í annars konar félagslega aðstoð. Í þessu samhengi hefur verið nefnt að draga þurfi úr heimilisleysi, hjálpa fólki sem á við fíkniefnavanda að stríða, auka tækifæri ungs fólk til að mennta sig og auka aðgengi að sálfræði- og félagsráðgjöf. Fólk hefur bent á að aukið fjármagn í aðrar stofnanir en lögregluna muni gera meira fyrir samfélagið í heild, sérstaklega fyrir fólk sem býr við bágar félags- og efnahagsaðstæður. Félagsleg aðstoð er talin frekar til þess fallin að fækka afbrotum heldur en aukin löggæsla. Fáir Bandaríkjamenn vilja hins vegar leggja niður lögregluna.“

Hún víkur síðan beint að gagnrýnispunkti í grein Önnu Karenar þess efnis að BLM geri kröfu um að svörtu fólki sé ekki refsað fyrir afbrot sín. Segir Margrét ekki hafa fundið neitt í heimildaleit sinni sem bendi til að þessi krafa hafi verið höfð uppi. Hún segir jafnframt að skemmdarverk og ofbeldi einstakra mómætlenda dragi ekki úr réttmæti BLM:

„Í fullkomnum heimi myndu stjórnendur fara ítarlega yfir stöðuna frá mismunandi sjónarhornum og finna viðeigandi lausnir til að bæta löggæslu. Þeir myndu kalla til sín sérfræðinga sem nota vísindalegar rannsóknir til að svara því hvernig staðan er og hvað þarf að gera. Í fullkomnum heimi værum við ekki að lesa fréttir um að brotið sé á mannréttindum mótmælenda. Né að lesa um skemmdaverk og ofbeldi mótmælenda í annars að mestu friðsamlegum mótmælum. Það að búa ekki í fullkomnum heimi dregur ekki úr réttmæti BLM-hreyfingarinnar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu