fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Rangur maður á röngum tíma sakaður um að vefja hundaól utan um háls unglings

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 25. september 2020 17:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur sýknaði í dag karlmann af skaðabótakröfu vegna meintrar líkamsárásar á unglingspilt. Var talið að einkarannsókn fjölskyldu drengsins í kjölfar árásarinnar hafi haft áhrif á vitnisburð vitna og einnig lá fyrir læknisvottorð sem gat þess að meintur árásarmaður hafi ekki verið fær um að ráðast á drenginn vegna krabbameins sem hann glímdi við á þeim tíma sem árásin átti sér stað. 

Vafði hundaól um háls 13 ára drengs

Árásin átti sér stað í nóvember 2015. Drengurinn sem þá var 13 ára gamall var á heimleið ásamt félögum sínum eftir að hafa dvalið í félagsmiðstöð. Unglingarnir gerðu sér það að leik á heimleiðinni að sparka í ljósastaura til að slökkva á þeim. Þá hafði afskipti af hópnum karlmaður með hund í taum. Samkvæmt lýsingu drengsins mun maðurinn hafa gripið í hendur drengsins, vafið hundaól um háls hans og hert að. Drengurinn kveðst hafa kýlt árásarmann sinn í andlitið og hraðað sér svo heim til foreldra sinna sem hann sagði frá árásinni. Í framhaldinu var haft samband við lögreglu.

Einkarannsókn fjölskyldu

Drengurinn lýsti árásarmanninum óljóst við frumskýrslu hjá lögreglu. Sagði hann miðaldra og sagði hund hans svartan.

Mágkona drengsins þekkti til hunds í hverfinu. Fjölskyldan fann út hver átti hundinn og fletti um þeim manni á Facebook og sýndu drengnum mynd af eigandanum.

Kannaðist drengurinn við manninn og sagði hann árásarmann sinn. Í kjölfarið kærði fjölskyldan árásina til lögreglu og afhenti mynd af meintum geranda og hund hans.

Ár leið áður en skýrsla var tekin af meintum geranda. Gat hann því ekki gert grein fyrir ferðum sínum umrætt kvöld þar sem langur tími var liðinn.

Var verulega veikur á umræddum tíma

Á umræddum tíma hafi meintur gerandi þó verið afar veikur sökum krabbameins og beið þess að komast í aðgerð. Samkvæmt vottorði læknis var hann afar veikburða á þessum tíma. Í vottorði sagði:

„Á meðan þessi bið stóð yfir frá því að […] greindist í byrjun nóvember og þangað til að hann kemst í aðgerð um miðjan desember er hann með stöðuga og verulega ógleði, ónot í kvið, vanlíðan og annað slagið verkjakast vegna […]. Er fast á ógleðislyfi og er ráðlagt að taka því rólega. …Undirritaður var endurtekið í sambandi við hann og skoðaði hann á þessum tíma. Hann var alveg undirlagður og var í rauninni ekki í ástandi til að gera eitt eða neitt nema tóra á meðan hann væri að bíða eftir aðgerð. hann hafði ströng fyrirmæil um að vera ekki með óþarfa hreyfingu og alls ekki átök og var reyndar ekki í ástandi til neins slíks heldur“

Ákæruvaldið féll frá ákæru á hendur manninum og afréð fjölskyldan þá að fara í einkamál og krefjast skaðabóta enda hafði árásin haft mikil neikvæð áhrif á líðan drengsins sem meðal annars var orðinn myrkfælinn og glímdi við kvíða og vanlíðan.

Héraðsdómur féllst ekki á kröfu fjölskyldunnar sem áfrýjaði þá málinu til Landsréttar.

Gagnrýndi lögreglu

Meintur árásarmaður gagnrýndi rannsókn lögreglu harðlega fyrir dómi. Skýrsla hafi ekki verið tekin af honum fyrr en rúmlega ári síðan og fjölskylda drengsins hafi verið búin að gera upp hug sinn um sekt hans og virtist öll rannsókn lögreglu taka mið af þeirri huglægu afstöðu. Ekki hafi vitni verið boðuð í sakbendingu, auk þess sem lýsing drengsins af árásarmanni hafi tekið miklum breytingum eftir að honum var sýnd mynd af meintum geranda.

Auk þess hefði lögregla átt að hafa hraðar hendur þegar atvikið var kært þar sem drengurinn kvaðst hafa kýlt geranda sinn og því hefði verið hægt að leita eftir mögulegum áverkum á meintum geranda fljótlega eftir að hann var kærður.

Bæði Landsréttur og Héraðsdómur töldu að lýsingar vitna hefðu mögulega geta litast af því að þeim hafi verið sýnd mynd af meintum geranda. Í niðurstöðu Landsréttar segir:

„Engan veginn er hægt að útiloka að tengsl þeirra við áfrýjanda og það sem fyrir liggur um að hann hafi áður sýnt þeim ljósmynd af stefnda í tengslum við umrætt atvik, hafi á þeim tíma sem liðinn er haft áhrif á minningu þeirra af árásarmanninum.“

Auk þess var litið til þess að umrætt kvöld var dimmt úti og unglingahópurinn hafði með spörkum slökkt á nokkrum ljósastaurum því þyrfti að taka vitnisburði þeirra með þeim fyrirvara.

Krafa drengsins um skaðabætur hljómaði upp á ríflega 1,2 milljónir króna. Þeirri kröfu var hafnað og honum þess í stað gert að greiða 800 þúsund krónur í málskostnað meints geranda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala