fbpx
Föstudagur 23.október 2020
Fréttir

Segir að faðirinn og jafnvel móðirin verði pyntuð í Egyptalandi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 23. september 2020 11:09

Samsett mynd DV: Kehdr-fjölskyldan og (t.h.) Sverrir Agnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sverrir Agnarsson, sem hefur verið virkur í starfi íslamskra safnaða á Íslandi og ritað margt um Íslam, segir allt benda til þess að Ibrahim Kehdr verði pyntaður ef hann snýr aftur með fjölskyldu sína til Egyptalands, og jafnvel gæti eiginkona hans orðið fyrir pyntingum. Múslímska bræðralagið, sem hann er meðlimur í, sé ofsótt af egypskum stjórnvöldum.

Þetta kemur fram í nýrri grein Sverris á Vísir.is.

Kehdr-fjölskyldan fer nú huldu höfði á Íslandi en ekki náðist til hennar er flytja átti fólkið nauðungarflutningum til Hollands og þaðan til Egyptalands samkvæmt úrskurði Útlendingastofnunar. Hefur lögregla lýst eftir fjölskyldunni og leitar hennar.

Fjölskyldufaðirinn Ibrahim Kehdr hefur verið gagnrýndur á Íslandi fyrir að vera í Múslímska bræðralaginu sem séu hryðjuverkasamtök sem brenni kirkjur og berjist fyrir kúgun kvenna. Sverrir segir þetta vera alrangt:

„Það eru bara Egyptaland, Saudi Arabía, Fustadæmin, Rússland og Assad-stjórnin í Sýrlandi sem skilgreina egypsku Mb sem hryðjuverkasamtök.

Í fyrra var New York Times með umfjöllun um Bræðralagið. Blaðið spyr: „Is the Egyptian Muslim Brotherhood terrorist?“ og svarar sjálft:

„No. Even experts critical of the Brotherhood agree that the organization does not meet the criteria for a terrorist group.“

Hér vitnar NYT í sérfræðinga en ekki egypsku herforingjastjórnina.“

Í enska textanum sem Sverrir vísar þarna til segir að jafnvel sérfræðingar sem séu gagnrýnir á Múslímska bræðralagið segi að samtökin séu ekki hryðjuverkasamtök.

Sverrir segir að ummæli þess efnis að Múslímska bræðralagið vilji innleiða Sharia-lög í Egyptalandi séu hlægileg því öll lagasetning byggð á Sharia hafi verið í stjórnarskrá Egyptalands frá upphafi sjálfstæðis þess.

Sverrir vísar því einnig á bug að bræðralagið ofsæki kristna og brenni kirkjur: „Enginn sæmilega upplýstur múslími getur ráðist á kirkju því það er stranglega bannað – kirkjur njóta verndar samkvæmt Sharía og Miðausturlönd eru krökk af kirkjum sem hafa staðið í aldir.“

Segir bæði kristna og múslíma stunda umskurð

Sverrir segir rangt að bendla umskurð stúlkubarna við bræðralagið. Bæði kristnir og múslimar stundi umskurð í Egyptalandi en um sé að ræða í flestum tilvikum 1. stigs umskurð sem skaði ekki kynfæri. Annars og þriðja stigs umskurður sé hins vegar glæpsamlegur.

Sverrir segir að nú sé allur umskurður bannaður í Egyptalandi, líka fyrsta stigs. Andstaðan gegn banninu komi aðallega frá mæðrum ungra stúlkna.

Þessi skrif Sverris stríða gegn yfirlýsingum Magnúsar Davíðs Norðdahls, lögmanns fjölskyldunnar, um að dætur hjónanna gætu orðið fyrir umskurði í Egyptalandi, þar sem frumkvæði að slíku virðist koma frá foreldrum stúlkubarna, en yfirvöld banni umskurð.

Amnesty International segir að faðirinn verði pyntaður

Sverrir segir að pyntingar séu stundaðar á færibandi í Egyptalandi gegn meðlimum Múslímska bræðralagsins til að fá þá til að játa á sig upplognar sakir á sjálfa sig og samherja sína.

Útlendingastofnun hafnar því að Kehdr-fjölskyldunni sé hætta búin í Egyptalandi þó að stofnunin rengi ekki frásögn Ibrahims um að hann hafi orðið fyrir ofsóknum áður í landinu.

Sverrir er mjög afdráttarlaus um þetta atriði og segir orðrétt í grein sinni:

„Þegar egypska fjölskyldan sem nú er í felum á Íslandi hittir lögregluna í Kairó, en það verða íslenskir lögreglumenn sem afhenda kollegum sínum hana, þá eru íslensk stjórnvöld í beinni samvinnu við yfirvald sem stundar reglulegar og umfangsmiklar pyntingar.

Í skýrslu frá Amnesty frá því í fyrra stendur í raun skrifað að faðirinn (og mögulega móðirin) verði pyntaður og hversu langt verður gengið veltur á tímanum sem það tekur að brjóta hann niður. Þetta er afgerandi niðurstöður Amensty – og mistök að senda fólk í þetta umhverfi. Yfirvöld hér véfenga ekki hans frásögn. Hvernig er þá hægt að senda fjölskylduna til baka? Eru engin lög eða reglur sem gilda um framsal fólks til landa sem stunda pyntingar?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Ákærður fyrir að ráðast á og nauðga fyrrverandi kærustu sinni

Ákærður fyrir að ráðast á og nauðga fyrrverandi kærustu sinni
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

167 Icelandair þotur af íslenskum hestum fluttar út

167 Icelandair þotur af íslenskum hestum fluttar út