fbpx
Miðvikudagur 25.nóvember 2020
Fréttir

„Þetta er bara helvíti á jörðu“

Auður Ösp
Föstudaginn 31. júlí 2020 21:00

Fangelsið að Litla Hrauni. Ljósmynd/Vilhelm.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

628 einstaklingar bíða eftir að afplána dóm í fangelsi á Íslandi. Áralöng bið eftir afplánun fangelsisrefsingar getur verið mannskemmandi og menn upplifa stöðnun.

„Biðin var verst við þetta allt. Biðin er alveg hörmung. Maður var alltaf að bíða eftir því að það kæmi bíll að sækja mann. Þú ert aldrei viss. Öll þessi óvissa. Þetta verða bara sex ár af lífi manns ónýt, bara alveg ónýt,“ segir íslenskur karlmaður, sem beið í fjögur og hálft ár eftir því að afplána dóm í fangelsi.

Árið 2009 voru 213 einstaklingar á boðunarlista í afplánun hér á landi. Í dag eru þeir 628 talsins. Ástæðan er einkum fjölgun og lenging óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga, fjölgun gæsluvarð-haldsfanga og ekki nægt fjármagn til nýtingar afplánunarrýma að fullu. Viðmiðið er 90 til 95 prósenta nýting en hér á landi er nýtingin rétt undir 80 prósentum. Í dag er meðalbiðtími, frá því að dómur fellur þangað til afplánun hefst, 17 mánuðir.

Ef bið eftir afplánun dregst óhóflega geta refsingar fyrnst og möguleiki er á að yfir 30 refsidómar muni fyrnast á þessu ári. Í síðasta mánuði kynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra aðgerðir til að stytta boðunarlista til afplánunar refsinga. Ein af þeim tillögum sem lagðar eru fram er að aukin áhersla verði sett á fullnustu refsidóma með samfélagsþjónustu. Þá er einnig lagt til að heimildir ákærenda til að ljúka málum með sáttamiðlun verði rýmkaðar.

Fannst lífið hafa staðnað

Árið 2010 rannsakaði Ólöf Karitas Þrastardóttir bið dómþola eftir afplánun í meistararitgerð sinni í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Í tengslum við rannsóknina ræddi hún við fimm íslenska karlmenn sem áttu það sameiginlegt að hafa hlotið lengri óskilorðsbundinn dóm en níu mánuði. Þrír voru í afplánun á rannsóknartímanum en tveir voruenn á boðunarlistanum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að flestum fannst biðin óþægileg, kvíðvænleg og jafnvel vera eins og viðbótarrefsing við þann dóm sem þeir fengu. Óvissan og biðin eftir afplánun hafði áhrif á flesta dómþolana. Þeir áttu erfitt með að byrja á nýjum verkefnum og skipuleggja framtíðina, til dæmis varðandi fjölskyldu, nám og íbúðarkaup. Þeim fannst að lífið hefði staðnað.

„Þú getur ekkert gert, ert bara í bið. Þetta er bara helvíti á jörðu. Mér finnst skárra að vera kominn inn en að vera að bíða því að þá er tíminn farinn að tikka,“ segir einn úr hópnum, en hann hafði beðið í fjögur og hálft ár eftir að komast í afplánun. Á öðrum stað segir hann:

„Ég hef bara lagst í þunglyndi, dregið mig út úr öllu, ég mun aldrei bíða þess bætur. Það er bara búið að rústa öllu fyrir mér.“

Annar úr hópnum upplifði vanlíðan þegar hann hóf afplánun eftir langa bið. Hann var búinn að breyta um lífsstíl þegar kom að boðuninni. Hann var búinn að sækja einu sinni um frestun og fékk hana til að klára eftirmeðferð.

„Mér var kippt út úr náminu núna þegar ég þarf að afplána. Kippt frá henni ófrískri og annað svona. Ég er bara ósáttur hvað þetta er búið að taka langan tíma. Búið að vera hangandi yfir mér í þrjú ár.“

Sá þriðji segir biðina hafa farið illa í sig. „Þessi óvissa er skelfileg og hún eyðileggur einstaklinginn sjálfan. Ég hefði óskað þess að hafa verið settur bara strax inn. Það er ekki fólki bjóðandi að bíða svona. Þetta er bara mannskemmandi.“

Hjá þremur af mönnunum sem Ólöf ræddi við hafði afbrotið haft það í för með sér að þeir hættu vímuefna og áfengisneyslu. Á meðan þeir biðu eftir að geta fullnustað dóm sinn leituðu þeir sér aðstoðar vegna vandans. Hinir tveir minnkuðu notkunina og reyndu að hætta. Flestir voru því búnir að taka sig á og farnir að gera allt annað í lífinu þegar þeir voru loks boðaðir í afplánun.

Setti nám og íbúðarkaup á hakann

Allir mennirnir upplifðu það að eiga erfitt með að skipuleggja sig og byrja á einhverju nýju meðan á biðinni stóð.

„Alveg eins og ef það þyrfti að gera eitthvað þá fannst mér það ekki taka því, þannig var það með öll verkefni. Lífið er bara staðnað síðan 2008,“ segir einn.

Fangelsið á Litla Hrauni.

Annar úr hópnum tekur undir:

„Ég gat ekki gert það sem mig langaði til. Ég er búinn að setja nám á hakann. Ég hafði bara ekki efni á að fara í nám því að ég vissi ekkert hvenær ég mundi fara í þetta. Ef ég mundi skrá mig í nám sem er dýrt og svo þegar maður væri hálfnaður þá færi maður inn. Ég er eiginlega bara síðan ég braut af mér eiginlega bara búinn að vera á „hold“ og hef ekki gert neitt að viti. Við gátum aldrei farið að festa ráð okkar og fá okkur stærri íbúð. Því á þremur árum þá setur maður margt á hakann.“

Einn úr hópnum lýsir því hvernig biðin olli því að þegar hann loks hóf afplánun þá átti hann erfitt með að tengja refsinguna við brotið.

„Maður tengir ekkert refsinguna við brotið þegar það líður svona langt á milli, Manni finnst maður vera bara hérna inni út af einhverju bulli þegar maður er að fara inn einhverjum árum seinna.“

Sjálfsagður réttur manna að afplána strax

„Ég hef horft upp á menn bíða í tugi ára eftir að komast inn. Á þeim tíma getur orðið kúvending á lífi þeirra. Það er auðvitað alveg svaðalegt áfall að þurfa að fara í fangelsi. Það er miklu meira en að segja það. Þessi bið getur verið stórhættuleg, og algjört bakslag fyrir einstakling og heilu fjölskyldurnar. Að sjálfsögðu á það að vera réttur manna að taka út sína afplánun strax,“ segir Guðmundur Ingi Þór- oddsson, formaður Afstöðu í samtali við DV.

María vill opna umræðuna um sjálfsvíg.

„Svo er annað, við erum með menn sem hafa fengið fleiri en einn dóm og hafa verið að veltast um í kerfinu árum saman. Brot þeirra eru rannsökuð í mörg ár, þeir fara í afplánun og eru þá kannski enn þá með önnur mál í gangi.

Þeir koma svo út úr fangelsi og þurfa að fara jafnóðum inn aftur. Þeir geta ekki lifað lífinu í áratug, geta ekki bundið sig í einu eða neinu. Það leiðir auðvitað til þess að menn missa lífsviljann og verða þunglyndir. Þetta er bara mannskemmandi, bæði fyrir þá og fjölskyldur þeirra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum
Sjö greindust í gær
Fréttir
Í gær

Níu smit og nýgengi smita hríðfellur

Níu smit og nýgengi smita hríðfellur
Fréttir
Í gær

Staksteinar taka „stolnar fjaðrir“ Dags í Bloomberg fyrir

Staksteinar taka „stolnar fjaðrir“ Dags í Bloomberg fyrir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leggja til að netsala á áfengi verið bönnuð með öllu

Leggja til að netsala á áfengi verið bönnuð með öllu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stúlkan er fundin

Stúlkan er fundin
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður sem flytur inn flugelda sakaður um ítrekað ónæði – „Þú ert ófær um að taka tillit til bæði manna og málleysingja“

Maður sem flytur inn flugelda sakaður um ítrekað ónæði – „Þú ert ófær um að taka tillit til bæði manna og málleysingja“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hundruð Íslendinga á leið til Kanarí um jólin

Hundruð Íslendinga á leið til Kanarí um jólin