fbpx
Fimmtudagur 06.ágúst 2020
Fréttir

Matarsendingin skilin eftir á útidyrahurðinni hjá 93 ára konu og henni ekki gert viðvart

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 15. júlí 2020 14:31

Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nítíu og þriggja ára kona, sem er áskrifandi að matarsendingum frá Vitatorgi, sem heyrir undir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, fær matinn ekki í sínar hendur. Undanfarið hefur hann verið skilinn eftir á hurðarhúninum og hvorki bankað né hringt á dyrabjöllu. Konan hefur því ekki hugmynd um að maturinn sem hún greiðir fyrir hafi borist henni. Ekki bætir þar úr skák að maturinn berst henni á mjög óreglulegum tímum.

„Fyrst var henni að berast þetta fyrir hádegi þannig að hún gat gengið að hádegismatnum vísum, en svo sögðu þau henni að þetta væri bara matur, ekki hádegismatur, og eftir það berst henni þetta á ýmsum tímum, einu sinni kom maturinn kl. 16,“ segir Dagný Árnadóttir, dóttir konunnar.

Afhendingin á matnum eins og hún var innt af hendi í gær hefur ekki alltaf verið svo slæm, en fyrir móður Dagnýjar jafngildir þetta því að hún fái matinn ekki afhentan, ekki nema ættingjar hennar vitji um sendinguna. Svona mun þetta hafa verið undanfarna daga. Konan notast við göngugrind og á ekki auðvelt með að beygja sig niður eftir pokanum. Ef hún veit ekki af honum berst henni einfaldlega ekki maturinn.

„Sumir hafa bankað og beðið, þannig að hún hefur getað fengið matinn beint í hendurnar. Síðan fóru þeir að taka upp á því að setja þetta á hurðarhúninn og hringja bjöllunni. En upp á síðkastið hefur hún ekki heyrt  eitt né neitt, þetta er bara sett á hurðarhúninn og ekkert meira. Líklega er þetta sumarafleysingafólk sem stendur svona að verki,“ segir Dagný.

Velferðarsvið ætlar að ganga í málið

Bróðir Dagnýjar, Ásgeir Þór Árnason, kvartaði undan þessu til borgarinnar. Hann birti jafnframt meðfylgjandi mynd og skrifaði eftirfarandi texta um málið á Facebook-síðu sína:

„Matarsending til eldriborgara:
Þegar ég kom til 93 ára gamallar móður minnar, í dag kl. 13:30, hékk þessi poki á hurðarhúninum hjá henni – þetta er maturinn hennar í dag.

Þegar við komum inn til hennar sagði hún okkur að engin hafi hringt eða barið að dyrum til að láta hana vita að maturinn hafi verið settur á hurðahúninn og ef vel er skoðað þá eru afar miklar líkur á að maturinn detti af húninum þegar mamma opnar hurðina, sem hún reyndar segir að gerist æði oft.

Eins og ég sagði hér fyrr frá þá er hún 93 ára, notar göngugrind og leikur sér ekki að bogra niður til að sækja pokann.

Til þeirra sem fara með þessi mál aldraðra hvet ég til verulegra úrbóta í þessum málum og veit að svona afgreiðsla á mat til þeirra sem þess þurfa er víða í ólagi.“

Að sögn Dagnýjar hafði stjórnandi hjá Velferðarsviði samband við hana eftir kvörtun Ásgeirs og sagðist sú kona vera sjálf mjög óánægð með þessi vinnubrögð. Baðst hún afsökunar og sagðist ætla að ganga í málið.

Maturinn bragðlaus og ólystugur

Móðir Dagnýjar og Ásgeirs fær sendan mat fimm sinnum í viku og kostar þjónustan um 22 þúsund krónur. „Þetta er afar ólystugt að sjá og sósunni sullað yfir allt. Að hennar sögn er maturinn bragðlaus en hún telur þetta samt þetta vera vissa næringu. Hún hefur boðið mér að að smakka en ég hef afþakkað pent.“

Dagný telur að ýmislegt fleira megi bæta í þjónustu við eldri borgara sem búa heima. „Ríki og sveitarfélög vilja að fólk sé heima sem lengst en þá þarf að aðstoða þetta fólk af heilum hug. Ég hef þurft að rífast í heimahjúkruninni og sem dæmi þá kom til hennar hjúkrunarfræðingur einu sinni þegar hún veiktist og sagði henni að hringja bara í læknavaktina. Þá var hún 92 ára gömul. Hvernig átt hún að  hringja í læknavaktina og hvað svo? Það er líka sagt við hana að hún eigi svo mörg börn og þau geti aðstoðað hana. En aldur barnanna hennar er frá 52 ára aldrei og upp í 75 ára. Það er ljóst að þessi elstu eru orðin lúin. Bróðir minn, Ásgeir, er sjálfur sjúklingur en hann heimsækir hana þó reglulega og sinnir henni. Mest hefur þetta þó lent á mér, ég versla inn fyrir hana, sé um fjármálin og þvottinn. En öll reynum við að hjálpa henni eins og við getum, hvert og eitt á sinn takmarkaða hátt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Átta ný innanlandssmit

Átta ný innanlandssmit
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslensk amfetamínframleiðsla á uppleið

Íslensk amfetamínframleiðsla á uppleið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslensk erfðagreining með stóra skimun á Akranesi

Íslensk erfðagreining með stóra skimun á Akranesi
Fyrir 3 dögum

Súr gúrka í eftirrétt Víðmelinga

Súr gúrka í eftirrétt Víðmelinga