fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Kári segir sögusagnirnar ósannar – „En ég vildi að ég hefði rifbeinsbrotið ýmsa menn“

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 11. júlí 2020 09:25

Kári Stefánsson. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Stefánsson, taugalæknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er ýmist álitinn þjóðargersemi eða fantur. Sjálfur segir hann hið síðarnefnda vera nær sannleikanum en á tveimur fundum okkar kemur þó annað og meira í ljós. Þetta viðtal birtist í tölublaði DV þann 3 júlí.

Kári er vissulega ekki alltaf auðveldur í taumi. Að bóka hann í viðtal er eitt og sér ákveðin spennufíkn. Kári bugtar sig ekki og beygir fyrir neinum og hann verður ekki alinn upp, úr þessu. Biðin eftir honum er áhugaverð. Í litlu rými fyrir framan skrifstofu hans í Íslenskri erfðagreiningu í Vatnsmýrinni bíðum við ljósmyndarinn og hlustum á nokkuð hávær og hvöss orðasamskipti.

Kári er í símanum. Ritarinn hans er afskaplega elskuleg kona sem býður upp á kaffi. Það er enginn lúxus þar, hvítir fantar, uppáhellingur af gamla skólanum og bananar og skyr. Það er ljóst að forstjórinn er ekkert dekurdýr.

Dimmur valdsmannslegur rómurinn lækkar. Það verður allt hljótt í nokkrar mínútur áður en kallað er ákveðið: „Kom inn.“

Að lifa unglingsárin af

Góðan daginn, hvernig hefur þú það í dag? Er fyrsta spurningin til Kára.

„Hvern andskotann kemur þér það við?“

Störukeppnin er byrjuð. Örfáum sekúndum seinna kemur einlægt bros og örlítill hlátur.

Kári er hávaxinn maður. Persónuleiki hans er þó stærri og flæðir út í allt rýmið.

„Þú hefur 28 mínútur,“ segir Kári og vísar í að hann eigi von á fólki. Myndatakan hefur étið upp tíma svo nú þarf að kryfja hátt í tvo metra á mettíma.

Kári hefur haft þá tilhneigingu að segja fólki óspart til syndanna, hvort sem það eru æðstu ráðamenn þjóðarinnar eða starfsmenn á plani. Eins og hann sé að reyna að ala þjóðina upp, eitt mannsbarn í einu.

Er hann meðvitað að segja fólki til syndanna?

„Við eigum þetta öll til. Ég er ekki viss um að ég sé meira í því en aðrir. En það er tiltölulega flókið að búa í samfélagi við annað fólk. Eitt af því sem gerist er að maður heldur að maður geti hjálpað fólki eitthvað en langoftast er það misskilningur. Menn verða að sjá um sig sjálfir.“

Sjálfur segist hann ekki hafa verið alinn upp við mikla tilsögn. Kári er næstyngstur fimm systkina en hann er sonur alþingismannsins Stefáns Jónssonar og Sólveigar Halldórsdóttur húsmóður. 

„Það var flókið verkefni fyrir móður mína að sjá um þessa hjörð. Í þá daga gengu menn svo miklu meira sjálfala. Maður þvældist út um allt og átti bara að vera komin heim í mat. Þú sérð það að þegar ég er að alast upp, þá er sveitabær á Klambratúni. Þegar við vorum að spila fótbolta þar komu af og til beljur og skitu í markið svo við urðum að hætta. Þetta hefur breyst pínulítið.“

Almennt segist hann ekki halda að það sé hættulegra að vera barn í Reykjavík í dag. „Ég held að Reykjavík sé tiltölulega barnvænn staður í dag. Ég hugsa að það sé hættulegra að vera unglingur í Reykjavík. Ég held að framboð á alls konar eitri sé meira í dag en þegar ég var að alast upp og er ég þó ekki að bera blak af brennivíninu. Í sjálfu sér er stórfurðulegt að nokkur manneskja skuli lifa unglingsárin af.“

Kári ætlaði aldrei að verða læknir og sagði sex ára gamall við móður sína að hann ætlaði að verða garðyrkjumaður.

„Ég hefði kannski orðið hamingjusamari ef ég hefði orðið garðyrkjumaður,“ segir hann en það er engum hnöppum um það að hneppa að hann er einn farsælasti læknir og vísindamaður sem Ísland hefur af sér alið. Kári fór í framhaldsnám í Bandaríkjunum og starfaði þar lengi, bæði sem prófessor við læknadeildina í Harvard og sem yfirlæknir í taugameinalækningum við Beth Israel-sjúkrahúsið í Boston.

Búið að skima 70 þúsund

Í ljósi núverandi heimsfaraldurs verður það því að teljast gæfuspor að Kári sé ekki að fást við skrautrunna og rósir í stað skimana og rannsókna. „Ég held að við höfum verið mjög heppin þegar það kemur að því að fara þessa hófstilltu leið í að hemja faraldurinn. Við skimuðum víða og vissum nokkuð vel hvað var að gerast og gátum hagað aðgerðum eftir því.

Það er hins vegar rangt að segja að við höfum verið vel undir þetta búin sem samfélag. Íslenska heilbrigðiskerfið var illa í stakk búið til að takast á við þetta, eins og heilbrigðiskerfi um allan heim. Ástæðan fyrir því að þetta gekk upp er að við vorum hér [Íslensk erfðagreining, innsk. blm.] og komum inn í þetta með ansi mikinn slagkraft og ég held að það sé mjög mikilvægt að við lærum af því og það verði búin til einhver aðstaða í heilbrigðiskerfinu sem tekur við því sem við höfum gert í þessum faraldri, þegar það kemur að næsta faraldri.“

Kári segir að aðbúnaður heilbrigðiskerfisins hafi ekki verið nægilega sterkur. Vísar hann meðal annars í að greiningarbúnaður á Landspítalanum hafi bilað með þeim afleiðingum að Íslensk erfðagreining sá um að greina stóran hluta sýnanna.

„Það er búið að skima núna 70 og eitthvað þúsund manns og af því höfum við skimað yfir 80 prósent af því að það var ekki til staðar sá slagkraftur í heilbrigðiskerfinu sem þurfti. Og þá er ég ekki að gagnrýna heilbrigðiskerfið hér því öll heilbrigðiskerfi heimsins voru á þessum stað. Það var enginn undir þetta búinn. En ég held því fram að við verðum að læra af þessu. Við verðum að setja saman stofnun eða aðstöðu í kringum sóttvarnalækni sem getur sinnt þessu. Núna erum við til dæmis að skima á landamærunum og það lendir í fanginu á okkur því heilbrigðiskerfið hefur ekki aðstöðu til að sinna þessu.“

Kári segir mikilvægt að skapa slíka aðstöðu sem fyrst því einkarekið fyrirtæki geti ekki verið hryggjarstykkið í svo mikilvægu verkefni til lengdar. „Það verður að vera það frumkvæði og þekking til staðar, líkt og við höfum. Landspítalinn getur ekki tekið meira til sín. Það væri langsniðugast að búa til einhvers konar stofnun í faraldsfræði sem væri sköpuð í kringum sóttvarnalækni. Það væri sjálfsagt að við myndum hlúa að slíkri stofnun og vera eins konar bakhjarl en dagvinnan okkar er allt önnur er þetta.“

Ástandið óábyrgt

Samskiptaörðugleikar hafa gert vart við sig milli Kára og ráðamanna landsins í kringum COVID-19 faraldurinn, þá einkum heilbrigðisráðherra, svo úr varð að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra varð að stíga inn og falast eftir aðstoð Kára og Íslenskrar erfðagreiningar.

Aðspurður hvernig samband hans sé við stjórnvöld í dag segir Kári að hann sé í feikilega góðu sambandi við þríeykið Þórólf, Ölmu og Víði. „Þetta er gott fólk sem leyfir sér þann munað að brosa þó að það gangi töluvert á. En samband mitt við þann hluta ríkisstjórnarinnar sem stendur að þessu er dálítið skringilegt. Þeir eiga erfitt með að sætta sig við það að það sem við erum að gera sé gert hér en ekki á vegum Landspítalans.

Ég fór í viðtal við Kjarnann á fimmtudaginn og svo boðaði Katrín Jakobsdóttir mig á blaðamannafund á föstudaginn. Þar var hún með skrifaða ræðu sem átti að vera einhvers konar þakkarræða til okkar en af því að ég hafði gagnrýnt hana í þessu viðtali þá notaði hún ekki þann hluta ræðunnar,“ segir Kári og segir skort á vilja hjá þeim sem ráða til þess að viðurkenna að þeir þurfi aðstoð.

„Þetta er skortur á vilja til þess að viðurkenna nákvæmlega hvar við stöndum. Þó ég sitji hérna og sé að gagnrýna Katrínu Jakobsdóttur finnst mér hún ofsalega fín og ég ber mikla virðingu fyrir henni.“

Hann gerir hlé á máli sínu og segir svo íbygginn: „Þú verður að segja frá þessu eins og ég er að segja þetta.“

Já, það þýðir nú lítið að laga þig til. Við höfum þig bara eins og þú ert.

„Ég er ekki að kvarta í sjálfu sér. Ég vil bara að menn búi sig í þann stakk að þeir geti tekið við þessu verkefni.“

Hann segir að það sé erfitt verkefni fram undan að hemja veiruna en að það sé ekki ástæða til þess að vera hrædd við hana. „Ég er hins vegar skíthræddur um að stjórnvöld geri sér ekki grein fyrir því að það er ekki til innan heilbrigðiskerfisins sú geta sem þarf að vera til staðar til að geta tekist á við svona faraldur þannig að það verður að setja það saman.

Það er ekki hægt að stóla endalaust á meðvirkni okkar í að koma og hlaupa í skarðið þegar það vantar eitthvað. Þannig að þeir verða að setja eitthvað saman í grænum hvelli. Þetta er mjög óábyrgt eins og þetta er núna. Getan til að takast á við þetta verkefni þarf að heyra undir stjórnvöld, ekki vera hjá einkafyrirtæki.“

75% minni líkur á smiti

Landamæraskimunin er mörgum ofarlega í huga og hefur hún verið gagnrýnd fyrir gloppur og falskt öryggi. „Það eina sem þú ert að gera með því að skima á landamærunum er að minnka líkurnar á að smit berist til landsins. Það kemur ekki í veg fyrir það. Mjög snemma í sýkingunni, í einn til tvo sólarhringa, þá er ekki hægt að nema veiruna með þessu prófi. En þess ber að geta að það er mesta magnið af veirunni í nefkoki og munnkoki áður en einkenni byrja. Þannig að þetta er ekki nema örstutt stund sem veiran er í skjóli og finnst ekki.“

Kári segir þrjá valmöguleika blasa við íslensku þjóðinni. „Við getum ákveðið að opna ekki landið og setið eftir í fallegri einangrun á litlu skeri í Norður-Atlantshafi. Það gæti verið dáldið gaman, en erfitt. Svo gætum við opnað og gert ekkert og sá þriðji er að opna og skima til þess að minnka líkurnar á að fólk komi smitað inn í landið.

Og taktu eftir því að af þessum 12.000 manns sem er búið að skima þá höfum við náð þremur sem voru mjög illa smitandi og misstum einn. Ef við getum byggt eitthvað á þessari takmörkuðu reynslu sem við höfum þá er það að við erum með skimun að minnka líkurnar á að smitandi einstaklingur komi inn um 75 prósent Sem er mjög gott.“ (innsk. blm. viðtalið fór fram 29. og 30. júlí og endurspegla tölurnar það).

Í því hringir síminn. Þórólfur og Alma eru mætt á hans fund.

„Þú getur komið aftur á morgun,“ segir Kári. Skrifstofudyrnar opnast skyndilega og hann kallar nokkuð hvasst: „Lokaðu dyrunum!“ Elskuleg aðstoðarkona hans til 19 ára er fljót að loka, hún þekkir sinn mann. Þú ert ekki hægt. Hvernig er hægt að vinna með þér? „Láttu ekki svona. Hún er besti vinur minn,“ segir Kári og rýkur út.

Situr eftir með skömm

Daginn eftir er Kári brosmildur og hlýjan frá honum er áþreifanleg. Kári er nefnilega alls konar. Hann getur verið dúnmjúkur og dásamlegur í samskiptum eða hvass og erfiður.

„Fólk hérna innanhúss þekkir mig. Það þolir það að ég hækki röddina.“ Hann viðurkennir þó að stundum gangi hann of langt og sér reynist það erfitt. Hann segist vel geta beðist afsökunar þegar svo er en eftir sitji skömmin sem fylgir því að særa fólk.

Sögurnar sem ganga um bræðisköst Kára eru margar kómískar. „Þessar dramatískustu bera vott um sköpunarkraft íslensku þjóðarinnar. Það er fært í stílinn.“

Þú hefur þá ekki rifbeinsbrotið mann í körfubolta líkt og ein sagan segir?

„Nei, ég hef aldrei rifbeinsbrotið mann í körfubolta. En ég vildi að ég hefði rifbeinsbrotið ýmsa menn á vellinum en ég hef ekki gert það.“

Ertu þá ekki fantur á vellinum?

„Nei, ef þú horfir á leik í NBA sérðu hvað þetta er líkamleg íþrótt. Ég kemst ekki nálægt því hvernig þessir menn spila en ég get alveg tekið á móti fólki og hef gaman af því. Til þess er leikurinn gerður.“

Fíkn ekki hegðunarvandamál

Kári hefur aðstoðað fjölda fólks við að vinna sig út úr fíknivanda í gegnum tíðina en hann hætti sjálfur að drekka fyrir mörgum árum. „Það er svolítil tilhneiging til þess að líta á þetta sem hegðunarvandamál frekar en sjúkdóm. En maður verður býsna illilega var við að þetta er ekki hegðunarvandi þegar maður horfir á skyldmenni sín deyja af þessu á ungum aldri. Mér finnst þetta stórt og ógnvekjandi og hræðilegt heilbrigðisvandamál.“

Aðspurður hvort hann hafi sjálfur verið vondur með víni segir Kári að hann hafi frekar orðið leiðinlegur. „Ég verð mjög fljótlega þögull og sest út í horn. Ég tók ekki ákvörðun um að hætta að drekka. Ég hætti bara. Vín og ég fórum bara ekkert sérstaklega vel saman og ég held að þetta sé ágætis lausn fyrir mig og fólkið í kringum mig.“

Þú varst þá ekki búinn að vera blindfullur heima í margar vikur áður en þú hættir?

„Ég held að ég hafi aldrei verið fullur tvo daga í röð á ævinni.“

Þú hefur þá aldrei farið á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í pollagalla?

„Nei,“ segir hann og munnvikin rísa góðlátlega.

Hefur ítrekað rangt fyrir sér

Þegar Kári er spurður út í sinn mesta sigur á lífsleiðinni er fátt um svör. Hann er fljótur að tína til ósigrana en virðist að vissu leyti ekki skynja umhverfi sitt og sigrana sem vitnisburðir um prýða veggi skrifstofu hans.

„Ég get ekki bent á neinn sérstakan persónulegan sigur minn en vinnan hérna hjá okkur hefur gengið alveg ótrúlega vel vegna þess að hér er ótrúlegur hópur af skringilegu, skýru og skapandi fólki sem, þegar það kemur saman sem teymi, á sér enga líka í þessum heimi. Við getum sagt að það sé minn mesti sigur að hafa fengið að vera hluti af þessum hópi í 24 ár.“

Kári segir galdurinn liggja í þessari skrítnu blöndu af fólki sem nálgast vinnu sína á allt annan hátt en tíðkast annars staðar. „Þau nálgast vinnuna sem teymi en ekki einstaklingar og þetta fólk er svo ótrúlega heiðarlegt. Það sem fólk áttar sig ekki á er að það sem vísindamaður getur alls ekki verið án er heiðarleiki. Ég hef séð menn sem eru ekkert sérstaklega vel gefnir eða skapandi ná langt í vísindum af því að þeir eru stálheiðarlegir.

Þegar þú spyrð spurninga í vísindum, áður en þú færð svarið, verður þú að fara yfir að minnsta kosti 20 krossgötur þar sem óskhyggja getur dregið þig í alls konar áttir og þú verður að vera heiðarlegur við sjálfan þig. Þú verður að geta tekist á við þá staðreynd að þú hafir bara rangt fyrir þér. Kenningar þínar voru vitlausar.“

Vísindamaðurinn á móti mér er engin undantekning í því og fer ekki í felur með að hafa ítrekað haft rangt fyrir sér. „Ég man ekki eftir einni einustu kenningu sem ég hef sett fram sem hefur verið rétt. Gögnin eru alltaf að auðmýkja mann.“

Fer aldrei í samkvæmi

„Mér hafa orðið á alls konar mistök í mínu lífi. Ég vildi að ég hefði verið öðru fólki betri maður, samferðafólki mínu betri maður. Ég held að það sé mjög mikilvægt að vera meðvitaður um slóð sína. Ég hef verið ákafur í mínu lífi og leyft ákefðinni að búa til meiri árekstra en ástæða hefur verið til. En svo er það með ákefðina að það er mjög erfitt að koma sumum hlutum í verk án hennar.“

Kári virkar líklega á marga sem maður sem erfitt er að nálgast. Það eru ekki miklar líkur á að rekast á hann í veislu eða á kaffihúsi.

„Staðreyndin er sú að ég er einfari. Ég er mjög sjaldan innan um annað fólk. Fyrir utan vinnu, næstum því aldrei. Ég fer aldrei í samkvæmi.“

Hættu! „Það er satt.“ Mætir þú ekki á árshátíðina hérna?

„Nei. En ég fer einstaka sinnum í bíó með konunni minni. Ekki oft. Við förum af og til út að borða en bara tvö ein og á alla Sinfóníutónleika. Ég hef mjög lítinn áhuga á samkvæmum og forðast annað fólk eins og ég get. Mér bara kemur það ekki við.“

Hann segist þó hafa tekið sitt tímabil sem unglingur þar sem hann datt í það um helgar en hann hafi aldrei verið samkvæmismaður. Mér líður best úti í horni með bók, að skrifa eða horfa út í himingeiminn.“

Þjóðargersemi og tískumógúll

Kári hefur verið mikið í fjölmiðlum upp á síðkastið í tengslum við COVID-19 og aðkomu sína að því. Hann hefur verið kallaður þjóðargersemi og tískumógúll en nýlega birtist grein um fatasmekk hans. „Mér finnst það býsna heimskulegt. Gjörsamlega fáránlegt. Út í hött.“ Hann segist þó geta hlegið að slíku.

„Ég spái mjög lítið í því hvernig ég klæði mig. Ég fer lítið nema á Sinfóníutónleika. Mér finnst mjög gott að sitja í Eldborgarsalnum og hlusta á klassíska tónlist. Mér finnst það alveg dýrðlegt. Og ef þú ert að velta fyrir þér þjóðargersemum þá finnst mér Víkingur Heiðar eitthvað það stórkostlegasta sem við eigum þessa dagana. Hann er ótrúlegur.“

Kári er engu að síður oft reffilegur í klæðaburði. Hann neitar því þó að það sé úthugsað. „Ef mér er ekki þröngvað til þess að skipta um föt, sem kemur af og til fyrir, að mér sé sagt að ég sé í skítugum gallabuxum, þá gerir ég það ekkert endilega. Nú, ef ég er rekinn í það, þá geri ég það, því ég er svo hlýðinn eins og þú veist. En annars skiptir klæðnaður mig ekki miklu máli.“

Vit á að vera bara heima

„Ég ætla að spila fyrir þig eitt lag að gamni sem mér finnst mjög interessant,“ segir Kári og Bob Dylan tekur yfir og í tækinu hljómar I dreamed I saw St. Augustine.

„Hann er að yrkja um heilagan Ágústínus og að Dylan dreymdi að hann væri skrímsli sem drap hann. Að vissu leyti þá getur þú hlustað á þennan texta eins og hann sé svona „concrete“ og hann sé bara að yrkja um það. En ég held að hann sé fyrst og fremst að tala um hvernig maður er sífellt að eyðileggja það góða í sjálfum sér. Maður fæðist með ákveðna eiginleika, ákveðna getu, ákveðna drauma. Svo vaknar maður upp nokkrum áratugum síðar og kemst að þeirri niðurstöðu að það er maður sjálfur sem hefur eyðilagt þetta allt saman með því hvernig maður hefur verið, hvernig maður hefur hegðað sér, hvernig maður hefur breytt. Mér finnst þetta alveg magnað ljóð og söngur eins og svo margt sem Dylan gerði á þessum tíma, eins og mér finnst hann ómerkilegur í dag.“ 

Verður maður ekki að geta líka talað sig upp og séð fegurðina í því sem maður er, maður er þó það?

„Jújú, en maður þarf líka að sætta sig við það sem maður er.“

Kári hefur horfst í augu við eigin bresti en vill sem minnst tala um eigin sjarma. Hann vinnur langa daga og verkefnin eru mörg. Hann ætlar sér þó ekki að sitja í turninum að eilífu. Kári segist þekkja sín takmörk og vera farinn að huga að því að minnka við sig á komandi árum enda orðinn 71 árs og að hann hafi í mörg önnur horn að líta. Ýmis verkefni bíði hans. Hann vill gera betur við börnin sín sem hann sér mikið eftir að hafa ekki sinnt meira þegar þau voru ung. Barnabörnin séu endalaus uppgötvun og vísindamaðurinn geri ítrekaðar uppgötvanir sem afi.

„Ekki láta metnaðinn ræna þig því sem raunverulega skiptir máli. Það er nefnilega þannig með sum af þessum háleitu markmiðum að þegar þú nærð þeim kemstu að raun um að þú ert bara staddur á enn einu hallærisplaninu og vildir að þú hefðir haft vit á að vera bara heima að hlúa að fólkinu þínu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis