fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Frásögn spilafíkils – Flúði spilakassana til útlanda

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 7. júní 2020 09:00

Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mín saga er löng í þessu máli og ég hef reyndar upplifað mikla niðurlægingu af minni eigin hendi í sambandi við þetta,“ segir fertugur spilafíkill sem kýs að koma ekki fram undir nafni. Hann segist hafa barist við spilafíkn í áratugi. „Stundum skaust ég í hádegismat en kom til baka tveimur tímum seinna. Ég hafði ekkert borðað en var kannski búinn að eyða hálfum mánaðarlaununum í kassa. En þessi saga er dæmigerð fyrir alla sem eru í þessum litla hópi sem stendur undir öllu þessu batteríi,“ segir hann og vísar í rekstur spilakassa á Íslandi.

Þessi grein er hluti af stærri umfjöllun um spilafíkn í nýjasta helgarblaði DV.

„Hörmungarnar mínar eru ekki svo miklar því ég þurfti ekki að fela þetta fyrir fjölskyldunni. Aftur á móti á ég sögu af stórum vinningi og tryllingnum sem því fylgdi, stjórnlaus spilamennska og gegndarlaus kókaínneysla. Spilafíknin og kókaínið eru held ég að vinna á svipuðum slóðum í hausnum. En ég upplifði þá merkilegt móment þegar tveir lykilþættir í lífinu voru ekki lengur til staðar, það er tími og verðmæti. Það er ótrúlega góð tilfinning og mikið frelsi. Fimm og tíu þúsund kallarnir urðu að leikpeningum og tími var ekki til. En svo fékk ég nóg af þessu og ætlaði að reyna að stoppa en fór þá að spila á netinu, nokkuð sem ég hafði aldrei viljað gera. En ég held að ég hafi tapað 8 milljónum að lágmarki á ca 4 mánuðum en mér var svo sem andskotans sama.“

Mesta helvíti sem hægt er að lenda í

Hann segir að í einni tilraun sinni til að losna undan spilafíkninni hafi hann ákveðið að fara eins langt frá kössunum og mögulegt var. „Það varð til þess að ég fór til útlanda. Ég gat ekki spilað á netinu þar því ég varð að vera með þarlenda kennitölu til þess sem er frekar auðvelt að fá en ég sleppti því til að búa ekki til freistingar.“ Eftir rúmt ár erlendis gafst hann upp á fjarlægðinni frá fólkinu sínu og kom aftur heim. „Ég verð að standa mig gagnvart þessu því þetta er mesta helvíti sem hægt er að lenda í. Þetta er algjört stjórnleysi og hörmuleg fíkn. Þessir kassar eru niðurlægjandi fyrir þjóðina. Fjárhættuspil eru bönnuð á Íslandi en þá setja menn bara nýtt nafn á pakkann til að fara fram hjá lögunum og kalla þá söfnunarkassa. Þvílík og önnur eins blekking.“

Húsaleigupeningarnir í kassann

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að fjárhættuspil yrðu leyfð með einhverjum hætti ef kössunum væri lokað svarar hann: „Það á að loka þessum spilabúllum strax en opna spilavíti með stífum reglum og 23- 25 ára aldurstakmarki. Vítin eiga að vera rekin af ríkinu og það á að stíla upp á fjárhættuspila-ferðamennsku með glæsihóteli og þess háttar. Að fá efnaða ferðamenn til landsins til að eyða peningum. Það er ekki hægt að banna fjárhættuspilin til að losna við þetta, frekar en áfengi og eiturlyf. Þannig er hægt að fjármagna SÁÁ og fleiri sem njóta afraksturs kassanna í dag. En að sitja á þriðjudagsmorgni inni í einhverri spilabúllu, að svíkjast um í vinnunni, við hliðina á bótaþega eða heimilisföður sem fór með húsaleigupeningana til að græða á, en tapar því auðvitað, er ömurlegt. Það eru engar afsakanir fyrir þessum spilakössum, nánast á hverju götuhorni, staðir sem eru opnaðir snemma á morgnana til að „leyfa hinum venjulega Íslendingi sem er kannski að bíða eftir strætó, að skreppa inn og leika sér fyrir nokkur hundruð krónur og jafnvel græða stórfé” svo vitnað sé í einhvern stjórnanda spilakassafyrirtækis sem var að reyna að búa til einhverja glansmynd af þessu í viðtali. Það þarf að sýna fáránleikann og losna við þetta þjóðarmein sem fyrst. En það er ekki hægt að útrýma þessu. Það á að koma þessu burt úr bænum, á einn stað þar sem þú þarft að gerast meðlimur og hvað eina eins og víðast ytra.“

Ítarlega umfjöllun um spilafíkn mál lesa í helgarblaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala