fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Segir Oddnýju hafa skellt blautri og skítugri tusku framan í stærstu atvinnugrein landsins

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 3. júní 2020 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, gagnrýnir Oddnýju Harðardóttur, þingmann Samfylkingarinnar, harðlega fyrir ummæli hennar um ferðaþjónustuna. Jóhannes Þór Skúlason, formaður sömu samtaka, hefur einnig gagnrýnt ummæli þingmannsins en þau féllu í Facebook-færslu og eru eftirfarandi:

„Við verðum að taka aðra stefnu þegar við vörðum leiðina upp úr COVID ástandinu. Renna fleiri stoðum undir atvinnulífið. Efla nýsköpun á öllum sviðum, tækniþróun og skapandi greinar.

Ég hef frá því að vöxtur ferðaþjónustunnar hófst, gagnrýnt að ferðaþjónustunni hafi verið færðir sérstakir skattastyrkir sem hvati til vaxtar. Úr varð ósjálfbær vöxtur. Ég veit að núna er ekki rétti tíminn í hræðilegu atvinnuleysi og gjaldþrotum ferðaþjónustufyrirtækja, að segja ,,sagði ég ekki“. En það er samt næstum komið fram á varirnar.“

Bjarnheiður segir að Oddný afhjúpi með færslunni óvild í garð ferðaþjónustu, vanþekkingu og rangfærslur. Þetta kemur fram í grein Bjarnheiðar á Vísir.is í dag.

Bjarnheiður bendir á að ferðaþjónustan hafi ekki sprottið upp úr engu árið 2010 þegar mikil sprenging verð í komum ferðamanna í kjölfar Eyfjallajökulsgossins og þeirrar heimsathygli sem það vakti. „Áratugina á undan hafði átt sér stað öflugt frumkvöðla- og nýsköpunarstarf og fjárfesting – í mannauði, tækjum, húsum, búnaði og ekki síst í markaðsstarfi. Opinbert markmið var alltaf að auka hlut ferðaþjónustunnar í útflutningstekjum svo um munaði, en aðstæður til þess sköpuðust ekki fyrr en eftir fjármálahrunið, ókeypis alþjóðlegu umfjöllunina og auglýsingaherferðina í tengslum við gosið í Eyjafjallajökli. Í uppgangi ferðaþjónustunnar undanfarin áratug hefur frumkvöðlastarfsemin og nýsköpunin haldið stöðugt áfram og sér ekki fyrir endann á því,“ segir Bjarnheiður.

Bjarnheiður segir það rangt hjá Oddnýju að ferðaþjónustan hafi notið niðurgreiðslna og skattaafsláttar en líklega sé hún að vísa til þess að ekki séu allar greinar innan ferðaþjónustu í hæsta virðisaukaskattsþrepi. En lægri skattar á neytendur og fyrirtæki þýði hærri tekjur fyrir alla aðila þegar upp er staðið. „En til þess að skilja það, þarf maður sennilega sjálfur að hafa stundað atvinnurekstur en ekki bara tala um hann,“ segir Bjarnheiður síðan, nokkuð hæðnislega.

Bjarnheiður segir að Oddný ætti fremur að líta til ýmissa annarra atvinnugreina til að sjá dæmi um skattaafslætti og niðurgreiðslur. Skapandi greinar séu til dæmis utan virðisaukaskattkerfisins.

Bjarnheiður er jafnframt ósammála Oddnýju um að vöxtur í ferðaþjónustu sé ósjálfbær til framtíðar og staðhæfir að mikil nýsköpun eigi sér stað í greininni.

Sakar Oddnýju um smekkleysi

Í lok greinar sinnar bendir Bjarnheiður Oddnýju á að á bak við ferðaþjónustufyrirtækin standi fólk og hún fer hörðum orðum um Facebook-færslu þingmannsins:

„Oddný segir í lok dæmalausrar færslu sinnar að nú sé ekki rétti tíminn „í hræðilegu atvinnuleysi og gjaldþrotum ferðaþjónustufyrirtækja“ að segja „sagði ég ekki“ – en hún gerir það nú samt. Hvað sagði hún? Að heimsfaraldur myndi á einhverjum tímapunkti kippa fótunum undan ferðaþjónustu og það væri í raun eðlilegt, þar sem hún var svo ósjálfbær?

Ég ráðlegg þingflokksformanninum að hafa í huga að á bakvið fyrirtækin sem nú berjast í bökkum er venjulegt fólk, sem á afkomu sína algjörlega undir því að ferðaþjónustan nái vopnum sínum á nýjan leik. Fólk, sem oft hefur lagt allt sitt undir við að byggja upp sín fyrirtæki og skapað um leið atvinnu fyrir aðra og skatttekjur fyrir samfélagið. Nú er ekki rétti tíminn til að koma með hrokafullar, ómaklegar og ósmekklegar yfirlýsingar.“

Oddný svarar: Gagnrýnin snýr að stjórnvöldum

„Gagnrýni mín snýr að stjórnvöldum sem búið hafa atvinnugreininni umgjörð sem ekki hélt nægilega sem stuðningur þegar gaf á bátinn. Enginn efast um að greinin aflaði mikilla gjaldeyristekna sem skiluðu sér til hagsbóta fyrir þjóðarbúið. En greinin er viðkvæm fyrir sveiflum og mörg fyrirtæki voru farin að draga saman seglin fyrir heimsfaraldurinn,“ segir Oddný Harðardóttir í svargrein sem birtist á Vísir.is undir lok dags.

Oddný segir að í Facebook-færslunni hafi hún gagnrýnt stjórnvöld fyrir að hafa hvatt til vaxtar í ferðaþjónustunni án þess að beita mótvægisaðgerðum. Þannig hafi innviðir samfélagsins ekki verið tilbúnir undir þann vöxt sem varð í greininni. Oddný segir að ferðaþjónustan muni gegna stóru hlutverki í íslensku atvinnulífi í framtíðinni en vöxtur hennar þurfi að vera jafn og traustur.

Í lok greinar sinnar segist Oddný hafa boðið Bjarnheiði á fund enda sé samtal gagnlegra en skeytasendingar:

„Ég hef nú þegar boðið Bjarnheiði á þingflokksfund Samfylkingarinnar sem hún hefur þegið. Samtal er betra en skeytasendingar og við í Samfylkingunni viljum gjarnan eiga gott samstarf við fulltrúa allra atvinnugreina, ekki síst þessarar ungu og þróttmiklu greinar sem á eftir að auðga samfélag okkar í bráð og lengd.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun
Fréttir
Í gær

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Í gær

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis
Fréttir
Í gær

Grunur um manndráp á Akureyri

Grunur um manndráp á Akureyri
Fréttir
Í gær

„Enn eitt dæmi um þær ógöngur sem mannanafnanefnd leiðist út í“

„Enn eitt dæmi um þær ógöngur sem mannanafnanefnd leiðist út í“
Fréttir
Í gær

Ítrekaðar ásakanir um dýraníð í Borgarfirði – „Fyrir framan mig var að hann að murka lífið úr einu lambinu“

Ítrekaðar ásakanir um dýraníð í Borgarfirði – „Fyrir framan mig var að hann að murka lífið úr einu lambinu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna