fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Sími Hrannar hvarf á dularfullan hátt: „Pabbi breyttist í handrukkara“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 2. júní 2020 20:00

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, lenti furðulegu atviki um hvítasunnuna. Hún varð þá fyrir barðinu á erlendum vasaþjófi sem í senn reyndist vera afskaplega kænn og frámunaleg fávís. Þýfið var snjallsími Hrannar sem hún að endingu endurheimti með ævintýralegum hætti.

Hrönn átti erindi með nágranna sínum í 10/11 í Austurstræti seint um kvöld og á meðan nágranninn fer inn í búðina gefur sig erlendur maður á tal við Hrönn og vill fá reiðhjólið hennar sem hún var að læsa.

„Ég átti í einhverjum vandræðum með að muna talnalásinn og er að bisa við að læsa hjólinu og á meðan er þessi maður að væla yfir mér. Hann var erlendur, ég veit ekki hvaðan, dökkleitur og mjög lágvaxinn, svona í Danny de Vito stærð. Hann virtist ölvaður og hann vildi fá hjólið mitt.“

Hrönn var mjög ákveðin við manninn, sagði honum að láta sig í friði og leigja sér hjól ef hann þyrfti á hjóli að halda. Það var þá sem hún tók eftir því að síminn hennar var horfinn úr jakkavasanum.

„Ég varð mjög ringluð. Gat það virkilega verið að maðurinn hefði seilst í vasann hjá mér og tekið símann minn? Lendir maður virkilega í vasaþjófum í miðbæ Reykjavíkur? Mér fannst þetta svo ótrúlegt.“

Maðurinn neitaði ásökunum Hrannar um að hann hefði tekið símann og bauð henni að leita á sér. Hrönn fann síma í brjóstvasa mannsins. „Is this your phone?“ spurði maðurinn en þetta var allt önnur tegund af síma.

Nágranni Hrannar kom út úr versluninni og þau ákváðu að reyna að leita að símanum frekar en að atast frekar í manninum því ef til vill hafði síminn fallið úr vasa Hrannar eða hún einfaldlega ekki tekið hann með sér.

Síminn á rölti upp í Þingholt

„Heim komin förum við beint í síma mannsins míns og opnum „Find My i-phone“ appið. Þá sjáum við símann minn bara rölta upp í Þingholtin,“ segir Hrönn sem hafði samband við lögreglu. Þar var henni sagt að hún þyrfti að koma daginn eftir og gefa skýrslu. Þar með virtist henni síminn vera henni glataður.

„Ég hélt að síminn yrði bara straujaður og seldur og ég sæi hann aldrei aftur,“ segir Hrönn. Annað átti þó eftir að koma í ljós.

„Þegar ég vakna morguninn eftir og kíki í síma mannsins míns þá sé ég þar símann minn og hann er bara sprelllifandi!“

Hrönn hélt þá ásamt eiginmanni sínum og föður, Sveini Aðalsteinssyni, áleiðis í Þingholtin. Þrenningin elti ábendingar leitarappsins í Mæðragarðinn við Bókhlöðustíg því þar virtist síminn vera. Kemur þá maður með erlent yfirbragð út úr kjallaraíbúð úr fjölbýlishúsi í nágrenninu. Þetta var ekki sami maður og hafði verið að áreita Hrönn um nóttina en eitthvað í huga hennar tengdi mennina saman og hún gaf sig á tal við hann.

„Þessi maður var um þrítugt en hinn um fimmtugt. Ég gekk að honum og sagði: „Það var maður í gærkvöld, kannski vinur þinn, sem tók símann minn.“ Maðurinn varð strax mjög stressaður en sagði: „No, I don´t know about any phone, it was not me.“

Faðir Hrannar, sem er 74 ára gamall hagfræðingur á eftirlaunum, uppveðraðist mjög og var afar ákveðinn við manninn. „Pabbi breyttist í handrukkara og Clint Eastwood og sagði manninum að lögreglan væri á leiðinni.“

Síminn hringir ofan í jörðinni

Maðurinn bað Hrönn um símanúmerið hennar og sagðist ætla að prófa að hringja í símann. „En hann hringdi í einhvern vin sinn og talar við hann á einhverju framandi tungumáli sem ég átta mig ekki á. Hann gengur að stóra blómabeðinu fyrir utan MR. Pabbi kallar á okkur og segir að síminn hljóti að vera þar. Maðurinn var þá farinn að hringja í símann minn og við heyrum í honum upp úr jörðinni. Þetta var ofboðslega súrrealískt, eins og draumur. Ég gróf höndunum niður í jörðina og varð öll útötuð í mold. Og hvað finn ég?! Plastpoka, svona renndan plastpoka. Þar var síminn minn, vafinn inn í servíettu, sprelllifandi.“

Hrönn botnar ekkert í því hvernig sami maðurinn gat annars vegar verið svo flínkur vasaþjófur að hann náði af henni símanum án þess að hún yrði þess vör, og hins vegar svo barnalegur að skilja eftir kveikt á símanum þar sem hann kom honum fyrir.

„Pabbi var grjótharður og vildi neyða manninn til að segja til félaga síns. Þegar lögreglan kom á vettvang, það voru tveir ungir lögregluþjónar, strákur og stelpa, þá sögðu þau að það væri mikil heppni að síminn hefði fundist úti því þau hefðu ekki getað fengið að fara inn til mannsins án leitarheimildar. Þau vildu hins vegar ekki yfirheyra manninn þarna eða taka niður nafn hans og kennitölu. Þess í stað tóku þau niður mitt nafn og kennitölu,“ segir Hrönn, en við þetta varð faðir hennar enn æstari og vildi uppræta þetta þjófagengi sem þarna virtist vera að verki.

„Hann hringdi í gamlan vin sinn, rannsóknarlögreglumann, og sagði honum að lögreglan væri að vernda glæpamenn. Ég nennti hins vegar ekki að standa í þessu lengur, ég var búin að finna símann minn og hélt heim með hann, alsæl,“ sagði Hrönn, og þar endar þessi sérkennilega þjófnaðarsaga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar
Fréttir
Í gær

Blöskrar fréttaflutningur af minnkandi spilakassatekjum -„Þarna sýndi Rauði krossinn sitt rétta andlit frammi fyrir alþjóð“

Blöskrar fréttaflutningur af minnkandi spilakassatekjum -„Þarna sýndi Rauði krossinn sitt rétta andlit frammi fyrir alþjóð“
Fréttir
Í gær

Segir ekki einn heldur tvo frambjóðendur hafa skuldað sér áratugum saman – „Ef þeir gera upp við mig þá fyrirgef ég þeim að sjálfsögðu“

Segir ekki einn heldur tvo frambjóðendur hafa skuldað sér áratugum saman – „Ef þeir gera upp við mig þá fyrirgef ég þeim að sjálfsögðu“