fbpx
Laugardagur 15.ágúst 2020
Fréttir

Huginn vinnur mál – Var kallaður „mikill viðbjóður“ og „sækó“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 23. maí 2020 10:18

Huginn Þór Grétarsson. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tuttugu og sjö ummæli um barnabókahöfundinn og útgefandann Hugin Þór Grétarsson hafa verið dæmd dauð og ómerk fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og honum dæmdar 250.000  krónur í miskabætur. Dómurinn féll þann 12. maí síðastliðinn en málið var dómtekið 26. nóvember 2019.

Sú sem lét ummælin fagna heitir Gyða Dröfn Laagaili Hannesdóttir og tengjast ummælin forræðis- og umgengnisdeilum Hugins við finnska barnsmóður sína en Gyða sakar hann um andlegt ofbeldi í garð barnsmóðurinnar. Huginn hefur einnig um tíma verið talsmaður hreyfingarinnar #Daddytoo sem hefur barist gegn umgengnistálmunum. Árið 2018 geisuðu hatrammar deilur á milli meðlima hreyfingarinnar og ýmissa misþekktra baráttukvenna úr hreyfingum femínista, aðallega á samfélagsmiðlum og í ummælakerfum vefmiðla. Ummælin sem Gyða Dröfn lét falla um Hugin ná frá 15. maí 2018 og fram til 15. júlí 2019. Þau féllu á Pírataspjallinu á Facebook, á Facebook-síðu bókarinnar Íslensk Mannshvörf sem útgáfa Hugins, Óðinsauga gaf út árið 2019, í ummælakerfi Stundarinnar og DV og á Facebook-síðu Óðinsauga.

„High five“ með skóflu í andlitið

Meðal ummælanna eru eftirfarandi:

„Huginn Þór Grétarsson held þú verðir seint talinn hæfur neitt. Ég tek fram að ég hef alltaf stutt feður til umgengni en glætan að ég styðji menn sem eru einfaldlega að nota börnin sín til áframhaldandi ofbeldis á hendur barnsmæðrum sínum. Ábyrgir feður myndu aldrei haga sér eins og þú og fleiri haga sér.“

„Huginn Þór Grétarsson komandi frá manni sem beitti ofbeldi klassi“

„Huginn hafðu nú vit á að halda kjafti eða viltu að við komum upp á yfirborðið með ofbeldið sem þú beittir barnsmóður þína?“

„Nákvæmlega Huginn er eins siðblindur og hægt er að hafa það.“

„Huginn Þór Grétarsson ég hafði fyrir því að lesa greinina hennar og þar kemur fram að hún fékk lögreglufylgd frá flugstöðinni út af því að þú varst mættur á svæðið þá hafði lögreglan verið kölluð til að hjálpa henni fyrir utan það að ég vissi alltaf að þú hefðir beitt hana andlegt ofbeldi en aldrei svona svakalegt. Ojj hvað þú ert miklu meiri viðbjóður en ég hélt. […] Huginn er eins mikið lólæf og hægt er að hafa það.“

„Huginn Þór Grétarsson ég horfði einu sinni á þig drulla yfir móðir með  barn af því hún var ekki til í að gefa þér undirskrift. Þú niðurlægðir hana og hlóst mikið af því hún labbaði í burtu. Huginn ekki halda að ég sé bara að segja eitthvað út í bláinn þú ert aumingi sem beitir konur ofbeldi og btw áður en þú segir eitthvað andlegt ofbeldi er ofbeldi.“

„Huginn Thor Grétarsson nei trúi ekki einu orði ég hef séð hverskonar sækó þú ert.“

„Sagði meira að segja að hann ætti skilið hi5 með skóflu í andlitið fyrir hvað hann er mikill viðbjóður en auðvita verandi Huginn sem er að deyja úr ég er svo mikið fórnarlamb sindom snéri þessu í eitthað annað og að ég væri að hóta honum í staðin fyrir að segja bara já veistu ég gerði rangt þarna.“

„…spurning um að kvarta til leikskólaráðs að það sé verið að leyfa ofbeldismanni að lesa fyrir börn.“

Dóttir Hugins las ummælin

Fyrir dómi lýsti Huginn því að Gyða hefði um árabil skrifað um hann ærumeiðandi athugasemdir á internetinu þó að þau þekkist ekki neitt og hafi aldrei hist. Krafðist hann þess að Gyða greiddi sér 5 milljónir króna í miskabætur og 200.000 krónur til að kosta birtingu dómsins í dagblaði. Einnig krafðist hann málskostnaðar að skaðlausu eins og um gjafsóknarmál væri að ræða.

Stefnu sína byggði Huginn á því að Gyða hefði ofsótt sig opinberlega og á internetinu um árabil með ærumeiðingum og aðdróttunum. Hún hafi fyllyrt að hann sé ofbeldismaður sem noti börnin sín til að beita barnsmæður sínar áframhaldandi ofbeldi. Þetta sé rangt, hann hafi aldrei beitt neinn ofbeldi, hafi engan sakaferil og hvorki verið ákærður né dæmdur fyrir ofbeldisbrot eða önnur hegningarlagabrot.

Með ummælum þess efnis að verið sé að leyfa ofbeldismanni að lesa fyrir börn hafi Gyða vegið harkalega að mannorði og lífsviðurværi hans sem rithöfundar og útgefanda. Ummælin séu uppspuni frá rótum.

Huginn bendir enn fremur á að 12 ára dóttir hans hafi lesið ærumeiðandi ummæli um hann og mörg þeirra verið um hana sjálfa, móður hennar og fjölskyldu. Þá hafi foreldrar vinkvenna stúlkunnar einnig lesið ummælin og spurt hana út í þær ásakanir sem í þeim felist. Ljóst sé að Gyða hafi ekki skeytt um möguleg áhrif ummæla hennar á saklaus börn.

Þá hafi Gyða margoft fullyrt að Huginn hafi gerst sekur um hegningarlagabrot og sé siðblindur, geðsjúkur, viðbjóðsleg manneskja og hættulegur maður.

Þá hafi Gyða ennfremur  vegið að fyrirtæki Hugins, bókaútgáfunni Óðinsauga, mannorði hans og jafnvel höfunda sem vogi sér að gefa bækur sínar út hjá honum.

Segir Huginn að mannorð hans hafi verið lagt í rúst af nokkrum einstaklingum, meðal annars Gyðu.

Gyða beitti engum vörnum

Gyða mætti ekki fyrir dóm, beitti engum vörnum í málinu og lagði því ekkert fram til stuðnings ummælum sínum. Samkvæmt 2. málsgrein 232. greinar almennra hegingarlaga sætir hver sá sem opinberlega leggur annan mann í einelti með vísvitandi ósönnum skýrslum, sem lagaðar eru til þess að lækka hann í áliti almennings, sektum eða fangelsi allt að einu ári. Sömu refsingu sætir hver sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum.

Dómurinn sá sér ekki annað fært en að dæma öll ummæli Gyðu dauð og ómerk. Var hún dæmd til að greiða Hugin 250.000 krónur í miskabætur en ekki þær 5 milljónir sem hann fór fram á. Kröfu um að kosta birtingu dómsins í dagblaði var hafnað. Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þórsteinn svarar Önnu Kolbrúnu sem óttast um bálfarir – „Ekki verða byggðar margar bálstofur á Íslandi“

Þórsteinn svarar Önnu Kolbrúnu sem óttast um bálfarir – „Ekki verða byggðar margar bálstofur á Íslandi“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Allt sem kom fram í greininni og Kastljósþáttunum er hundrað prósent rétt og ekkert þar sem var búið til eða falsað. Ég get staðfest það“ 

„Allt sem kom fram í greininni og Kastljósþáttunum er hundrað prósent rétt og ekkert þar sem var búið til eða falsað. Ég get staðfest það“