Maður sem ekki vill láta nafn síns getið staðhæfir að Anna Aurora Waage Óskarsdóttir hafi boðið sér þjónustu sem fyrsta flokks réttarmeinafræðingur í erfiðu dómsmáli sem maðurinn tengist. Segist Anna vera með doktorsgráðu en undirritun undir tölvubréf hennar var svona:
Maðurinn fullyrðir að Anna hafi notað þennan titil víða og þetta athæfi hennar sé þekkt innan lögfræðistéttarinnar. Þess má geta að DV fékk skjáskotið að ofan úr annarri átt en frá manninum.
„Það er alþekkt innan heims lögfræðinga hér á landi að hún hefur kynnt sig með þessum titli, sem sérfæðingur í glæpum og réttarmeinafræði. Ég sá í gegnum hana en segjum bara að ég hefði ekki gert það heldur nýtt mér þessa þjónustu og greitt fyrir hana. Ef ég hefði framvísað þessum gögnum við réttinn! Þú getur rétt ímyndað þér hvort það hefði ekki haft hrikalegar afleiðingar.“
Samkvæmt manninum áttu þessi samskipti sér stað seint á síðasta ári.
Starfstitlar Önnu Auroru eru gífurlega margir. Hún var kærð í meintu fjársvikamáli á síðasta ári þar sem hún er sögð hafa boðið þjónustu sem lögfræðingur. Þegar hefur komið fram að hún starfaði sem sjúkraliði í Bolungarvík án þess að hafa menntun eða starfsleyfi til þess. Einnig hefur hún starfað sem leiðbeinandi í tveimur grunnskólum í vetur, í forfallakennslu, en er þó titluð sem kennari en ekki leiðbeinandi á vefsíðum sem geyma upplýsingar um slíkt.
Í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra má síðan sjá áhugaverðar upplýsingar um fyrirtæki Önnu sem stofnað var fyrir um tveimur og hálfu ári. Fyrirtækið sinnir eftirfarandi starfsemi: Lögfræðiþjónustu, bílasölu og sölu á öðrum ökutækjum, farþegaflutningum, akstri vörubíla og öðrum vöruflutningum; reikningshaldi, bókhaldi, endurskoðun og skattaráðgjöf; viðskiptaráðgjöf og annarri rekstrarráðgjöf; ferðaskrifstofustarfsemi og skipulagningu ferða.